Lærði mikið um sjálfa sig í námi í tómstunda- og félagsmálafræði
„Ég vissi í raun ekkert hvað ég vildi læra en ég vissi bara að mig langaði ekki að sitja við tölvu alla ævi. Ég fann það að mig langaði að vinna með fólki og vera í kringum fólk,“ segir Bergdís Fanney Einarsdóttir sem útskrifaðist með BA-gríðu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum. Eins og fleiri verðandi háskólanemar var Bergdís ekki viss um hvað hana langaði að læra og nýtti sér því þjónustu námsráðgjafa hjá HÍ. Eftir stutta rannsóknarvinnu varð tómstunda- og félagsmálafræði fyrir valinu og segir Bergdís að það hafi heillað hana hversu opið námið er. „Það hentaði vel því ég var frekar týnd þegar kom að því hvað ég vildi gera í framtíðinni.“
Námsferðirnar það skemmtilegasta
Bergdís tók u-beygju og skipti úr tölvunarfræði yfir í tómstunda- og félagsmálafræði í janúar 2021 og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. Aðspurð hvað henni hafi þótt skemmtilegast við námið nefnir Bergdís námsferðir sem farið var í að minnsta kosti einu sinni á ári. „Þær gáfu manni eiginlega nýja sýn á námið,“ segir hún. Ferðirnar eru fjölbreyttar og tengjast bæði félagslífi og náminu sjálfu. Sem dæmi nefnir Bergdís að á fyrsta ári hafi verið farið í nýnemaferð í þeim tilgangi að þjappa hópnum saman og kynnast tómstundafræðinni. Á öðru ári voru farnar tvær ferðir til að glíma við raunveruleg verkefni á vettvangi og á þriðja ári var farið í Vatnaskóg. „Tilgangurinn með þeirri ferð er svolítið að líta yfir farinn veg og nýta það sem við höfum lært í náminu,” segir Bergdís.
Lokaverkefnið fjallaði um tómstundaiðju eldri borgara
Með fram náminu starfaði Bergdís á Hrafnistu og iðju- og sjúkraþjálfunardeild á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ en hún hefur mikinn áhuga á að starfa með eldri borgurum. Lokaverkefni hennar til BA-gráðu fjallaði um tómstundaiðju 65 ára eldri og nýtingu frítíma þeirra. Í verkefninu voru settar fram hugmyndir um hvernig mætti vinna gegn þáttum eins og einmanaleika og tómstundaleiða og stuðla að tómstundameðvitund meðal eldri borgara svo þeir geti nýtt frítíma sinn til fulls. Sem hluta af verkefninu vann Bergdís handbók sem hugsuð er fyrir þá sem koma að félagsstarfi eldri borgara til að nýta í starfi sínu. Í handbókinni má finna uppbyggingu á 8 klukkustunda tómstundamenntunarnámskeiði fyrir eldri borgara en ekki er til önnur sambærileg handbók hér á landi svo vitað sé.
Bergdís hefur stundað fótbolta af kappi ásamt því að spila á gítar og semja tónlist. Tónlistina hefur hún nýtt í starfi sínu með öldruðum. Að baki þessu liggur mikil vinna og skipulag. „Það var ekkert auðvelt að sinna vinnu og áhugamálum með fram náminu. Það er alltaf talað um að 100% háskólanám er það sama og að vera í 100% vinnu. En með góðu skipulagi og vilja þá kemst maður í gegnum allt sem maður ætlar sér,“ segir Bergdís.
Maður kemst í gegnum allt sem maður ætlar sér með góðu skipulagi
Bergdís hefur ekki látið sér nægja að vera einungis í 100% námi og vinnu með fram því heldur hefur hún líka sinnt áhugamálum sínum. Bergdís hefur stundað fótbolta af kappi ásamt því að spila á gítar og semja tónlist. Tónlistina hefur hún nýtt í starfi sínu með öldruðum. Að baki þessu liggur mikil vinna og skipulag. „Það var ekkert auðvelt að sinna vinnu og áhugamálum með fram náminu. Það er alltaf talað um að 100% háskólanám er það sama og að vera í 100% vinnu. En með góðu skipulagi og vilja þá kemst maður í gegnum allt sem maður ætlar sér,“ segir Bergdís.
Samfélagið og tengsl helsti kostur námsins við HÍ
Þegar Bergdís er spurð að því hvað standi helst upp úr eftir námið liggur ekki á svörum. „Það sem mér fannst standa upp úr var hvað ég lærði mikið inn á sjálfa mig og hvernig er að vinna með ólíku fólki. Um leið fann ég hvað ég vildi gera og fyrir hvað ég vil standa.“ Það er því ljóst að námið hefur haft mikil og jákvæð mótandi áhrif á Bergdísi.
Helsti kosturinn við að læra í Háskóla Íslands segir Bergdís að námssamfélagið sem myndast og jafnframt öll tengslin sem nýtast út lífið en Bergdís mælir hiklaust með náminu. „Ég myndi klárlega mæla með tómstunda- og félagsmálafræði. Það er nám sem hentar öllum. Þú færð ekki bara háskólagráðu að námi loknu heldur færðu líka fullt af almennri þekkingu út í lífið.“
En hvað skyldi nú taka við að loknu námi? „Það er hægt að segja að lífið taki við núna að námi loknu. Mér líkar starfið á hjúkrunarheimilinu Hömrum vel en ég sé fyrir mér að nýta BA-gráðuna á þeim vettvangi í framtíðinni og jafnvel eitthvað meira í kringum aldraða,“ segir Bergdís að lokum.