Skip to main content
29. nóvember 2024

Læra að kenna haflæsi í gegnum hlutverkaleik

Læra að kenna haflæsi í gegnum hlutverkaleik  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tæplega þrjátíu kennarar frá Íslandi, Portúgal, Grikklandi og Rúmeníu komu saman 15. – 17. október sl. í Eforie Nord í Rúmeníu til að taka þátt í SEA TALES vinnusmiðju, sem er hluti af Erasmus+ verkefninu “Promoting Ocean Literacy and Environmental Sustainability in School Communities – SEA TALES”. Jóna Guðrún Jóndóttir, aðjúnkt í leiklist við MVS og Dr. Rannveig Björk Þorkelsdóttir, prófessor í leiklist við MVS tóku þátt í vinnusmiðjunni
„Við vorum beðnar um að koma að verkefninu í upphafi og leiða það fyrir hönd þátttökulanda. Síðan var umsóknin þróuð áfram og sótt um í kjölfarið og hlutum við styrkinn. Verkefnið miðar að því að hanna og þróa námsefni sem heitir SJÁVARSÖGUR og þjálfa kennara til að bæta þekkingu þeirra á viðfangsefnum í tengslum við hafið sem gerir þeim kleift að auka fjölbreytni og virkni í kennsluaðferðum, t.d. í gegnum leiklist og hlutverkaleik og efla menntun á sviði haflæsis,“ segir Jóna Guðrún. Þjálfunin beindist að því að auk hæfni og færni kennara í að samþætta menntun í haflæsi í gegnum hlutverkaleik. Markmið verkefnisins miðar að því að hlúa að nýrri kynslóð haflæsra, virkra og ábyrgra borgara á sama tíma og það styður við víðtækara markmið um umhverfislega sjálfbærni í skólasamfélögum um alla Evrópu. 

Brýnt að efla nemendur og kennara í haflæsi

Jóna Guðrún segir verkefnið samræmast heimsmarkmiðunum og framtíðarsýn HÍ auk þess sem það sé brýnt og mikilvægt að bregðast við hlýnun jarðar t.d. með því efla nemendur og kennara í haflæsi. „Heimshöfin þekja yfir 70% af yfirborði jarðar og gegna mikilvægu hlutverki við að stjórna loftslagi jarðar og styðja við líffræðilegan fjölbreytileika. Þá getum við ekki horft fram hjá því að athafnir manna hafa mjög mikil áhrif á hafið, t.d. með mengun og ofnýtingu sjávar,“ segir Jóna Guðrún.
SEA TALES verkefnið miðar að því að styðja grunnskólakennara í að þróa þá hæfni og þekkingu sem þarf til að samþætta menntun í haflæsi með hlutverkaleikjum í kennslustofunni auk þess að kynna fyrir nemendum hugtök og meginreglur sjávarlæsis til að efla sjávarlæsi, virkni og ábyrgð nemenda er varðar hafið. Á þriggja daga vinnusmiðju í Efori Nord, Rúmeníu var lögð áhersla á að efla þekkingu, færni og úrræði kennara til að samþætta haftengd þemu í námskrá þeirra. Þátttakendur fengu upplýsingar, leiðbeiningar og efni sem auðvelt er að fylgja eftir, myndbönd og fleira. Þessi verkfæri eru hönnuð til að hjálpa kennurum að skilja möguleika sjávarlæsis (OL) í námi og innleiða það á áhrifaríkan hátt í gegnum hlutverkaleik.

Stafræn úrræði kynnt

Á vinnusmiðjunni var lögð áhersla á góðar starfsvenjur (e. best practice), samvinnu og samtal meðal kennara og þátttakenda auk samstarfs við nærsamfélagið. Farið var í vettvangsheimsókn til ,,Marine Dunes Agigea” rannsóknarmiðstöðina, sem efldi enn frekar skilning þátttakenda á staðbundnum vistkerfum sjávar og stuðlaði að samstarfi um framtíðarverkefni. Að auki voru kostir stafrænna úrræða kynntir sem miða að því að styðja og hvetja kennara og nemendur sem hluta af Stafræna horninu (e. Digital corner) sem hægt er að finna á heimasíðu verkefnisins og efla þátttöku í menntun um haflæsi.
Að vinnusmiðju og þjálfun kennara lokinni er þeim kennurum sem taka þátt boðið að prófa að innleiða hluta eða alla SEA TALES námskrána sem samin hefur verið af samstarfaðilum verkefnisins SEA TALES. Gert er ráð fyrir að alls 20 kennarar (5 frá hverju þátttökulandi) og 160 nemendur í skólaumhverfi samstarfs- og samstarfsskóla taki þátt í að innleiða og prófa verkefnið. Að auki munu vísindamenn, foreldrar og aðrir hagsmunaaðilar auk sjávarsérfræðinga styðja þetta verkefni og leggja til sérfræðiþekkingu sína.
Þeir aðilar sem koma að verkefninu eru:

  • Háskóli Íslands er leiðandi í rannsóknum. Hann er framsækin mennta- og vísindastofnun og þekktur fyrir rannsóknir í alþjóðlegu vísindasamfélagi.
  • Stimmuli (Grikklandi) er óhagnaðardrifin stofnun sem sérhæfir sig í að hvetja til framsækinnar menntunar og efla jákvæðar breytingar í samfélaginu.
  • AllGrow (Rúmenía) miðar að því að efla kerfisbreytingar með samvinnu einstaklinga, samfélags og stofnana.
  • ZERO (Portúgal) eru umhverfisverndarsamtök sem vinna að fjölbreyttm málefnum, skipt upp í 5 aðgerðasvið: Loftslagsbreytingar, orku og hreyfanleika; Sjálfbær samfélög og hringlaga hagkerfi; Jarðvegs- og landstjórnun; Vatn og höf; Líffræðileg fjölbreytni, landbúnaður og skógrækt.
  • Τhe Primary School of Voroi (Grunnskólinn í Voroi, Grikklandi) var stofnað árið 1929 og er staðsettur á svæðinu Messara og Heraklion á Krít.
  • Eforie Nord Secondary School (Grunnskólinn í Eforie Nord, Rúmeníu) leggur áherslu á að nemendur þrói færni og viðhorf sem gerir þeim kleift að starfa farsællega sem fullorðnir einstaklingar í lýðræðissamfélagi.

Hér má kynna sér verkefnið nánar  

Tæplega þrjátíu kennarar frá Íslandi, Portúgal, Grikklandi og Rúmeníu komu saman 15. – 17. október sl. í Eforie Nord í Rúmeníu til að taka þátt í SEA TALES vinnusmiðju
Jóna Guðrún Jóndóttir, aðjúnkt í leiklist við Menntavísindasvið HÍ. / Mynd: Kristinn Ingvarsson
Dr. Rannveig Björk Þorkelsdóttir, prófessor í leiklist við Menntavísindasvið.