Skip to main content
3. júlí 2024

Kynferðisleg áreitni eða ofbeldi á vinnustað tengt heilsuvandamálum á meðal íslenskra kvenna

Kynferðisleg áreitni eða ofbeldi á vinnustað tengt heilsuvandamálum á meðal íslenskra kvenna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustað tengist ýmsum heilsuvandamálum á meðal kvenna á Íslandi, eins og þunglyndi, kvíða, sjálfsskaða, lotudrykkju og svefnvanda. Þetta sýna niðurstöður úr hinni viðamiklu rannsókn Áfallasaga kvenna sem voru nýlega birtar í alþjóðlega vísindatímaritinu The Lancet Public Health.

Áfallasaga kvenna er rannsókn á vegum Háskóla Íslands og er ein umfangsmesta rannsókn sinnar tegundar á heimsvísu. Á árunum 2018 til 2019 tóku 30.403 konur þátt í rannsókninni og endurspegluðu þær vel íslensku kvenþjóðina hvað varðar aldur, búsetu, menntun og tekjur. Þátttakendur svöruðu ítarlegum spurningalista á netinu sem innihélt m.a. spurningar um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustað ásamt spurningum um andlegt og líkamlegt heilsufar.

Í rannsókninnni sem birt var á dögunum í Lancet voru skoðuð tengsl á milli reynslu af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað og heilsuvandamála meðal 15.812 íslenskra kvenna á aldrinum 18-69 ára. Í þeim hópi höfðu 34% orðið fyrir kynferðislegri áreitni/ofbeldi á vinnustað. Þar af höfðu 26% upplifað það á fyrri vinnustað eingöngu, 4% á núverandi vinnustað eingöngu og 4% á bæði fyrri og núverandi vinnustað. Í ljós kom að kynferðisleg áreitni/ofbeldi á vinnustað tengdist auknum líkum á einkennum þunglyndis, kvíða, félagsfælni, sjálfsskaða, sjálfsvígshugsunum, sjálfsvígstilraunum, lotudrykkju, svefnvandamálum, líkamlegum einkennum og veikindaleyfi frá vinnu.

Rannsakendur fundu að tengsl áreitni/ofbeldis á vinnustað við ofangreind heilsuvandamál voru breytileg eftir aldri kvenna. Konur á aldrinum 18-24 ára og 45-54 ára voru líklegri en aðrir aldurshópar til að upplifa svefnvandamál og konur á aldrinum 45-54 ára og 55-69 ára voru líklegri til að upplifa líkamleg heilsuvandamál. Aldur hafði ekki marktæk áhrif á tengslin við önnur heilsuvandamál.

Rannsakendur benda á að niðurstöðurnar undirstriki mikilvægi þess að þróa fyrirbyggjandi aðgerðir til að auka öryggi á vinnustöðum og draga úr mögulegum heilsuvandamálum tengdum kynferðislegrar áreitni/ofbeldi á vinnustað.

Greinin er aðgengileg á netinu.

Frekari upplýsingar um verkefnið og rannsakendur má finna á vefsíðu Áfallasögu kvenna

Svava Dögg Jónsdóttir, doktorsnemi við HÍ, er fyrsti höfundur greinarinnar en hún starfar innan Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við skólann.