Kraftmiklar forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi innan íþrótta- og æskulýðsgeirans
Kennarar og rannsakendur í tómstundafræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru á meðal þátttakenda í nýju samstarfsverkefni sem hefur það markmið að stuðla að auknum forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Verkefnið, sem hófst á dögunum, hlaut 25 milljóna króna styrk úr æskulýðshluta Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins.
Verkefnið ber heitið „Beyond #metoo: Youth workers, Young people and the wider community making a positive change around gender based violence“ og að því koma, auk Háskóla Íslands, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Ofbeldisforvarnaskólinn og samstarfsaðilar í Glasgow í Skotlandi.
„Ætlunin er m.a. að búa til bæði ný námskeið og fræðsluefni fyrir fólk sem starfar innan íþrótta- og æslulýðsgeirans,“ segir Benedikta Sörensen Valtýsdóttir, stundakennari við Menntavísindasvið og sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun í tómstundafræði. „Alls verða afurðir verkefnsins sjö, sumar þeirra nýttar meira hér á landi en aðrar í Skotlandi. Þarna er um að ræða námskrá námskeiðs fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og unglingum, myndbönd um hvernig nálgast má ofbeldisforvarnarfræðslu í íþróttum, tvenns konar leiðbeiningar um forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi í jafningjafræðslu og í samfélaginu og heimildamynd um ferlið okkar. Jafnframt verður unnin rannsókn tengd afurðum verkefnisins og sett á fót sérstakt námskeið sem kennt verður í Háskóla Íslands og snertir viðfangsefnið,“ segir Benedikta enn fremur, en að síðastöldu vinnunni koma auk hennar þær Katrín Ólafsdóttir, Linda Rós Eðvaldsdóttir og Eyrún Ólöf Sigurðardóttir sem einnig starfa við Rannsóknastofnun í tómstundafræði.
Verkefnið ber heitið „Beyond #metoo: Youth workers, Young people and the wider community making a positive change around gender based violence“ og að því koma, auk fulltrúa Háskóla Íslands, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Ofbeldisforvarnaskólinn og samstarfsaðilar í Glasgow í Skotlandi.
„Aðalmarkmið allra þessara þátta er því að nýta óformlegar námsaðferðir í forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi. Öll þess vinna er unnin fyrir og í samstarfi við æskulýðs- og íþróttahreyfinguna, jafningjafræðslu og foreldra,“ segir Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt í tómstundafræði við Menntavísindasvið, sem einnig kemur að verkefninu. „Við viljum því virkja þann kraft, gleði og þekkingu á forvörnum sem er fyrir hendi innan íþrótta- og æskulýðsgeirans til að byggja upp kraftmiklar forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi.“
Ráðist var í þetta verkefni í kjölfar samstarfsverkefnis milli frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar og St. Pauls í Glasgow þar sem markmiðið var að greina þá þætti sem hafa þyrfti í huga í forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í æskulýðsstarfi. „Það verkefni fór af stað rétt eftir að #metoo-bylgjan reið yfir og við sáum að það var mikil eftirspurn eftir námsefni og leiðbeiningum um hvernig mætti vinna að öflugum forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi. Við ákváðum því að halda áfram og stækka verkefnið töluvert til að koma til móts við þá þörf sem við sáum í fyrra verkefninu,“ segir Benedikta enn fremur.
Verkefnið stendur í tvö ár. „Við vonum að það muni gera forvarnir gegn kynbundu ofbeldi aðgengilegri börnum og unglingum í Glasgow og Reykjavík með því að auka aðgengi starfsfólks, sem vinnur með þeim, að námsefni og þjálfun. Einnig viljum við með þessu að auka samstarf milli stofnana, félaga og annarra um faglegar forvarnir sem byggja á grunni fræða og reynslu. Við í Háskóla Íslands teljum verkefnið vera mjög góða leið til að viðhalda og styrkja samstarf okkar við vettvang og vinna að þessu mikilvæga verkefni með markvissum hætti,“ segir Jakob að endingu.