Kolbrún nýr forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands, hefur verið ráðin forseti Menntavísindasviðs skólans. Kolbrún var valin úr hópi þriggja umsækjenda um starfið.
Kolbrún lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1996, meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi á sviði menntunarfræða frá Uppeldis- og menntunarfræðideild árið 2012. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að tengslum formlegs og óformlegs náms, hlutverki frístundaheimila og hvernig efla megi heildstæða sýn á menntun.
Kolbrún hefur margvíslega starfsreynslu innan menntakerfisins. Hún hefur starfað í leikskólum og í grunnskóla- og frístundastarfi auk þess að sinna kennslu á háskólastigi frá árinu 2003. Hún var ráðin lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2013 og fékk framgang í starf dósents árið 2017. Kolbrún hefur einnig tekið þátt í mótun menntastefnu og umbótaverkefnum á ýmsum skólastigum auk ráðgjafar við menntamálayfirvöld. Hún hefur margvíslega stjórnunarreynslu á háskólastigi, m.a. sem námsbrautarformaður í tómstunda- og félagsmálafræði, bæði á grunn- og framhaldsstigi. Þá gegndi hún viðamiklum stjórnunarstöðum hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar áður en hún hóf störf við Háskóla Íslands.
„Ég hlakka til að takast á við ný og krefjandi verkefni í starfi sviðsforseta. Menntavísindasvið hefur tvíþættum skyldum að gegna, annars vegar að mennta fagfólk á sviði uppeldis og mennta og hins vegar að standa fyrir öflugum menntarannsóknum.“
„Ein af stóru áskorunum fram undan er að auka aðsókn að kennaranámi m.a. með því að bjóða upp á aukið vettvangsnám á fimmta ári í góðu samstarfi við vettvang, sveitarfélög og skóla. Einnig er mikilvægt að efla gæði fjarnáms við sviðið og bregðast við þeim breytingum sem hafa orðið á kennaranámi síðastliðin tíu ár. Starfsfólk sviðsins hefur lagt allt kapp á að byggja upp og þróa skipulag náms í takt við breyttar kröfur en þörf er á verulegum stuðningi frá stjórnvöldum og yfirstjórn Háskóla Íslands við þróun sviðsins.“
„Einn liður í því að auka aðsókn að náminu er að skapa lifandi lærdómssamfélag sem einkennist af fjölbreyttum kennsluháttum og þekkingarmiðlun sem byggist á nýjustu rannsóknum og upplýsingatækni. Ég vil að við setjum markið hátt og að Menntavísindasvið verði þekkt fyrir framúrskarandi kennsluhætti sem litið verði til innan háskólans og utan. Hér er samstarf milli kennara og háskólanema lykilatriði og ég mun leggja áherslu á samvinnu við félög stúdenta.“
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, bætir við að mörg brýn verkefni snúi að Menntavísindasviði enda hafi kennsla og rannsóknir við sviðið gífurlega þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Yfirvofandi kennaraskortur sé brýnt úrlausnarefni og auk þess sé mikilvægt að flytja starfsemi Menntavísindasviðs á aðalsvæði Háskólans til að stuðla að öflugra samstarfi við aðrar deildir og svið skólans. „Kolbrún hefur til að bera djúpan skilning á sviðinu, starfsemi þess og menntakerfinu í heild og heildstæða og skýra framtíðarsýn á menntavísindi. Ég er þess viss að hún á eftir að leiða samheldinn hóp kennara og nemenda í þeirri miklu þróun og grósku sem er í menntavísindum þessa dagana og hlakka til að fá hana í hóp öflugra stjórnenda við Háskóla Íslands.“
Kolbrún tekur við starfi forseta Menntavísindasviðs 1. júlí nk. af Jóhönnu Einarsdóttur.