Skip to main content
19. júní 2017

Kennarar skila sér vel til kennslu eftir útskrift

""

Langflestir þeirra sem luku leik- og grunnskólakennaranámi frá Háskóla Íslands á árunum 2014-2015 eru í kennslustörfum að lokinni útskrift. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu um viðhorf brautskráðra leik- og grunnskólakennara til námsins og starfsins sem unnin var af Menntavísindastofnun.

Skýrslan er byggð á símakönnun sem gerð var meðal 87 brautskráðra nemenda og var svarhlutfall 84%. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að 97% þeirra sem lokið höfðu kennaranámi voru í kennslu á öðru ári eftir útskrift. Þá hafði nærri 80% svarenda hug á að gera kennarastarfið að sínu framtíðarstarfi. Meirihluti kennara sagði að starfið hefði gengið vel og reyndust leikskólakennarar eilítið ánægðari í starfi en grunnskólakennarar. Mikill meirihluti þátttakenda var ánægður með kennaranámið við Háskólann og taldi námið veita góðan undirbúning fyrir starfið.
 
Að sögn Önnu Kristínar Sigurðardóttur, dósents við Menntavísindasvið, var ákveðið að gera könnunina vegna þeirra skipulagsbreytinga sem urðu á kennaranámi árið 2008 þegar námið var lengt í fimm ár. „Vorið 2014 brautskráðist fyrsti árgangurinn með meistaragráðu samkvæmt þessu skipulagi. Okkur þótti mikilvægt að fá upplýsingar um viðhorf þessara kennara til námsins og hvernig þeir teldu það hafa nýst sér í starfi á þessum tímapunkti. Ekki síður þótti okkur mikilvægt að fá upplýsingar um hvernig þessi hópur skilaði sér til starfa í skólunum, en vísbendingar voru um að margir kennarar færu til annarra starfa en kennslu að loknu námi. Ágiskanir voru uppi um að kennarar sem lykju meistaragráðu í kennslufræðum samkvæmt nýju skipulagi myndu skila sér betur til kennslu en þeir sem einungis luku bakkalárgráðu,“ segir Anna Kristin og bætir við að könnunin verði endurtekin á næstu árum og upplýsingum safnað frá nýútskrifuðum kennurum. Niðurstöðurnar verða nýttar til að endurskoða og bæta námið.

Kennaranám þarf að vera í sífelldri þróun

Nokkuð róttækar breytingar hafa verið gerðar á kennaranámi undanfarna tvo áratugi. Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, segir að kennaranám þurfi að vera í sífelldri þróun og frekari breytinga á náminu sé að vænta á næstunni. „Samfélagið okkar breytist ört og kennaramenntun þarf að svara kalli tímans. Á örfáum árum erum við orðin fjölmenningarsamfélag. Skólarnir eru nú að taka á móti börnum sem tala ólík tungumál og koma frá fjölbreyttum menningarheimum. Gífurlegar tæknibreytingar kalla líka á breytt skólastarf og breytta kennaramenntun. Þær breytingar sem unnið hefur verið að í kennaranáminu að undanförnu miða einnig að því að gefa nemum kost á meira vali og þar með sérhæfa sig í ákveðnum greinum. Einnig er stefnt að auknum tengslum við önnur fræðasvið Háskóla Íslands og að nýta þannig styrkleika okkar öfluga háskóla.“

Töluverð fjölgun umsókna var í nám í grunnskólakennarafræði í vor. Aðspurð segir Jóhanna að engin ein skýring sé á því. „Ég tel að ánægðir nemendur hafi haft mest áhrif á að fleiri sóttu um námið. Námið var kynnt vel í vetur og stóðu kennaranemar m.a. fyrir áhrifamikilli markaðsherferð „Komdu að kenna“ þar sem þeir vöktu athygli á spennandi námi og jákvæðum þáttum starfsins. Nýútskrifaðir kennarar hafa jafnframt vakið athygli fyrir hversu áhugasamir og tilbúnir þeir eru til að takast á við starfið. Allflestir þeirra sem útskrifast með kennarapróf frá Háskólanum eru í starfi og hafa hugsað sér kennslu sem ævistarf, eins og fram kom í þessari nýju könnun.“

Kennarar og nemandi