Skip to main content
22. nóvember 2023

Jón Atli sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands

Jón Atli sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og rektor Háskóla Íslands, var sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) á Degi verkfræðinnar sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 17. nóvember.

Heiðursmerki VFÍ má veita í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf á sviði verkfræði eða vísinda, fyrir framtak til eflingar verkfræðingastéttinni í heild eða fyrir félagsstörf í þágu verkfræðingastéttarinnar. 

Jón Atli lauk lokaprófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984, MSEE-prófi í rafmagnsverkfræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum 1987 og doktorsprófi frá sama skóla 1990. Jón Atli hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1991, fyrst sem lektor í rafmagnsverkfræði 1991-1994, dósent í rafmagnsverkfræði 1994-1996 og sem prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði frá 1996. Jón Atli var þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors við Háskóla Íslands 2006-2009 og aðstoðarrektor vísinda og kennslu 2009-2015. Jón Atli hefur verið rektor Háskóla Íslands frá 2015.

Í umsögn Merkisnefndar VFÍ vegna verðlaunanna er bent á að Jón Atli eigi að baki glæsilegan feril og hafi hlotið margvíslegar viðurkenningar hér heima og erlendis. „Má nefna að hann hefur árlega verið á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims frá 2018, hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 2021. Jón Atli hefur hlotið viðurkenningar frá SPIE og IEEE, Institute of Electrical and Electronics Engineers, sem eru stærstu alþjóðlegu samtök tæknimanna. Jón Atli var útnefndur rafmagnsverkfræðingur ársins af IEEE og Verkfræðingafélagi Íslands árið 2013.“

Rannsóknasvið Jóns Atla eru fjarkönnun, myndgreining, mynsturgreining, vélrænt nám, gagnabræðsla, greining lífeðlisfræðilegra merkja og merkjafræði. „Hann hefur birt yfir 400 vísindagreinar á þessum sviðum og verið virkur í ritstjórnum vísindatímarita og var m.a. aðalritstjóri IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing um sex ára skeið. Jón Atli hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og kennt víða um lönd. Hann hefur leiðbeint meistara- og doktorsnemum við fjölda háskóla ásamt því að vera andmælandi víða og setið í mörgum doktorsnefndum,“ segir einnig í umsögn Merkisnefndarinnar.

Þá er bent á frumkvöðastarf Jóns Atla en hann var einn af þeim sem stofnuðu fyrirtækið Oxymap ehf. sem selur um víða veröld tæki til súrefnismælinga í augnbotnum án inngrips, til að greina ýmiss konar sjúkdóma sem valda blindu. „Jón Atli er traustur liðsmaður Verkfræðingafélags Íslands og hefur jafnan sýnt félaginu velvild og áhuga,“ segir að endingu í umsögninni.

Á myndinni eru frá vinstri, Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri VFÍ, Jón Atli Benediktsson, rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands, og Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ.