Skip to main content
27. september 2024

Hvert stefnum við með íþróttum?

Hvert stefnum við með íþróttum? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Að mínu mati erum við ekki með nægilega skýran fókus á því hvað við viljum fá út úr íþróttum, getum fengið út úr íþróttum og í mörgum tilvikum er ég sannfærður um að við séum að einblína á röngu hlutina. Við þurfum að endurskoða gildismat samfélagsins og íþrótta, alltof mikill tími og orka fer í rökvæðingu umhverfis okkar í leit að næsta áfanga og ekkert svigrúm gefst til þess einfaldlega að vera.“ Þetta segir Hilmar Árni Halldórsson, knattspyrnumaður hjá Stjörnunni, sem lauk MA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands í sumar. Í lokaverkefni sínu rýndi hann bæði í samfélagið og liðsíþróttir úr frá sjónarhóli austrænnar heimspeki en afrakstur verkefnisins hyggst hann svo nýta áfram í þjálfun yngri flokka í knattspyrnu.

Hilmar hefur verið í hópi fremstu knattspyrnumanna landsins um langt skeið og á baki hátt í 500 leiki með meistaraflokkum Stjörnunnar og Leiknis auk þess að spila fjóra landsleiki. Þá hefur hann verið afar markheppinn í gegnum tíðina og skorað yfir 150 mörk í meistaraflokki, nú síðast gegn Val á mánudagskvöld. En þessi persónulegu afrek eru honum ekki efst í huga heldur einmitt hið gagnstæða, hvernig við sem samfélag og innan íþróttanna getum skapað góða liðsheild og unnið gegn hraða samtímans og nýtt m.a. til þess hugmyndir austrænnar heimspeki.

Heimspekin ein besta ákvörðun sem ég hef tekið

Leið Hilmars í heimspekina var ekki bein að hans sögn. Hann skráði sig upphaflega í tölvunarfræði en fann að það átti ekki við hann. Því ákvað hann að leita á önnur mið. „Eina skilyrðið var að ég myndi hafa gaman í náminu. Að lokum stóð valið milli heimspekinnar eða sagnfræði og þar sem yngri bróðir minn var að skrá sig í heimspeki fannst mér skemmtileg tilhugsun að fara í nám með honum. Það fór ekki mikið meiri hugsun í þetta val en það en endaði samt sem áður á að vera ein besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Hilmar sem hallaðist snemma að austrænni heimspeki í náminu og vann m.a. BA-verkefni á því sviði.

„Ég hef lengi haft áhuga á austrænni heimspeki og til að byrja með eins og með margt annað í heimspekinni var það til að dýpka skilning minn á huga mínum og hvernig ég gæti nýtt mér þá vitneskju til þess að ná lengra í íþrótt minni. Því dýpra sem ég fór í þau fræði fór ég að tileinka mér fleiri hluti og hegðanir í daglegu lífi og hef í raun ekki litið til baka síðan. Það er ástæða fyrir því að þessar kenningar, hugmyndir og vitneskja standast tímans tönn,“ bendir Hilmar á. 

Þegar kom að því að vinna lokaverkefni í meistaranámi fór Hilmar af stað meðal annars með það að markmiði, að eigin sögn, að spyrja hvert við værum að stefna með íþróttum, hver tilgangur íþrótta geti verið og hvort við séum nálægt þeirri hugsjón. „Ég sé íþróttir sem stórkostlegt tól til þess að rækta mannkosti okkar í vernduðu umhverfi og líður eins og við getum notað íþróttir mun betur en raun ber vitni,“ segir Hilmar sem vann lokaverkefnið undir leiðsögn Geirs Sigurðssonar prófessors.

Samtíminn þrýstir stöðugt á okkur að hagræða tíma og samböndum

Í lokaverkefninu byggði hann m.a. á kenningum félagsfræðingsins Max Weber um þróun vestrænna samfélaga en þar voru þrjú meginstef í forgrunni sem að sögn Hilmars hafa gífurleg áhrif á okkur öll: markmiðsrökvísi, einstaklingshyggja og samfélagshröðun. 

„Þau skilaboð sem við sem samfélag sendum börnum okkar eru skýr og tengjast markmiðsrökvísi og einstaklingshyggju sterkum böndum. Þessar nálganir þrýsta á okkur að hagræða stöðugt tíma okkar og samböndum, og lítið sem ekkert svigrúm gefst til þess að njóta og vera. Ég þarf að ná langt, ég þarf að skora, ég þarf að vinna. Samkeppnishugarfar samfélagsins segir okkur að hver og einn einstaklingur þurfi að ná sem lengst, algjörlega óháð öðrum,“ segir m.a. í meistararitgerð Hilmars.

Mögulegar lausnir til að sporna við þessari samfélagsþróun sækir Hilmar í rann austrænnar heimspeki sem fyrr segir, ekki síst konfúsíanisma, þar sem fyrir koma hugtök eins og siðir og venja, samhljómur, viðmið og umhyggja sem snerta öll á samskiptum okkar og samböndum með einum eða öðrum hætti. 

Þessar hugmyndir austrænnar heimspeki tengir Hilmar svo við íþróttir og markmið þeirra. „Íþróttir eru kjörinn vettvangur til þess að tækla þessi vandamál og snúa við þessari þróun. Í gegnum íþróttir getum við kennt manneskjum og mótað þær. Við getum skorað á gildismat samfélagsins í öruggu umhverfi, sem þó reynir sífellt á þig, og leiðrétt stefnuna. Við getum kennt börnum að þau séu hluti af heild, inni á vellinum og utan hans. Íþróttafólk sem hefur náð uppljómun fagnar einstaklingsafrekum sínum að sjálfsögðu en býr einnig yfir þeirri auðmýkt að vita að það eru engin afrek sem eru einungis þeirra eigin. Það eru alltaf aðrir sem koma að og hjálpa,“ segir Hilmar m.a. í ritgerðinni.

Þurfum að skora á ríkjandi viðmið

Aðspurður segir Hilmar að þær hugmyndir austrænnar heimspeki, sem hann fjallar um í lokaritgerðinni, eigi að hans mati fullt erindi inn í íþróttafélögin sem hluti af því starfi að skerpa á sýn og hugsjón íþróttafélaga. Sjálfur hyggst hann leggja sitt af mörkum í þeim efnum. „Ég stefni á að fara í yngri flokka þjálfun í knattspyrnu hjá Stjörnunni og ég tek allar þessar hugmyndir með mér sem tæki og tól til þess að stuða það umhverfi duglega,“ segir hann.

Hann bætir við að hugmyndirnar eigi ekki síður erindi út í samfélagið allt. „Við þurfum að hrista upp í samfélagi okkar og skora á ríkjandi viðmið. Tækifærin eru til staðar til þess að taka skref í rétta átt í gegnum íþróttir en það krefur okkur um stöðugt endurmat á hugsjón okkar og gildum. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur hvort þetta sé leiðin sem við viljum fara. Þessi ritgerð á auðvitað að vera einungis hluti af samtalinu um hvert við viljum stefna sem samfélag,“ segir Hilmar að endingu.

Hilmar Árni