Hvernig lokum við kynjabilinu í atvinnulífinu?
Í dag, 24. október 2023, á Kvennafrídeginum sem er fagnað undir merkjum Kvennaverkfalls í ár, var opnuð ný vefsíða í tengslum við rannsóknarverkefni á vegum vísindafólks innan HÍ og samstarfsaðila sem hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Rannís vorið 2023. Rannsóknaverkefnið snýr að því hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu.
Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, leiðir verkefnið. „Kynjamisrétti er alþjóðlegt fyrirbæri og sést vel í markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fulla þátttöku kvenna í ákvarðanatöku. Samkvæmt úttektum Alþjóðaefnahagsráðsins er Ísland í fararbroddi jafnréttismála á mörgum sviðum og mælist efst fjórtánda árið í röð. Þrátt fyrir það er enn þörf á aðgerðum til að loka kynjabilinu í efnahagslegri þátttöku kynja, sér í lagi þegar kemur að jöfnum tækifærum kynja til stjórnunarstarfa og til ákvarðanatöku í atvinnulífinu, en þar er Ísland í 54 sæti listans,“ bendir Ásta Dís á.
Á vefssíðunni er nú þegar fjöldi greina um stöðu kynjanna í atvinnulífinu auk nýs mælaborðs sem Deloitte og Creditinfo hönnuðu fyrir Jafnvægisvogina 2023. Upplýsingar verða uppfærðar á sex mánaða fresti. Mælaborðið getur því gagnast vel þeim sem eru að rannsaka stöðu kynjanna í atvinnulífinu og fyrir fjölmiðla.
Markmið rannsóknaverkefnisins
Á vefsíðunni mun rannsóknateymið birta nýjustu rannsóknir, viðtöl og erindi af fundum og ráðstefnum en markmið rannsóknarinnar er þrískipt:
- Í fyrsta lagi að koma auga á leiðir til að loka kynjabilinu með því að kanna viðhorf lykilstjórnenda og stjórnarfólks til árangursríkra aðferða og kanna gildi löggjafar í því skyni að loka kynjabilinu.
- Annað markmið er að kanna áhrif löggjafar um jafnlaunavottun á kynbundinn launamun í ljósi þess að Ísland er í einstakri stöðu til að útrýma slíkum launamun með því að hafa verið fyrsta landið sem lögleiðir jafnlaunastaðla.
- Þriðja markmiðið er að skoða fjárfestingar með kynjagleraugum og kanna áhrif stofnanafjárfesta við eftirfylgni fjárfestinga við að jafna kynjabilið í forystustörfum meðal fyrirtækja í eignasafni sínu. Gerður hefur verið gagnagrunnur og vinna er hafin við að safna gögnum til að rannsaka áhrif stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði við að jafna kynjabilið í atvinnulífinu, meðal annars hjá fyrirtækjum og vísitölusjóðum í eignasafni stofnanafjárfesta, samsetningu og stöðu kynjanna meðal þeirra fyrirtækja, eftir löndum og ríkjum Bandaríkjanna.
„Kynjamisrétti er alþjóðlegt fyrirbæri og sést vel í markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fulla þátttöku kvenna í ákvarðanatöku. Samkvæmt úttektum Alþjóðaefnahagsráðsins er Ísland í fararbroddi jafnréttismála á mörgum sviðum og mælist efst, fjórtánda árið í röð. Þrátt fyrir það er enn þörf á aðgerðum til að loka kynjabilinu í efnahagslegri þátttöku kynja, sér í lagi þegar kemur að jöfnum tækifærum kynja til stjórnunarstarfa og til ákvarðanatöku í atvinnulífinu, en þar er Ísland í 54 sæti listans,“ bendir Ásta Dís á.
„Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og benda á færar leiðir til þess að loka því kynjabili sem enn ríkir í atvinnulífinu hér á landi. Einnig að mæla áhrif löggjafar á jafnlaunavottun og hverju hún skilar og jafnframt að setja á laggir gagnsætt mælaborð kynjakvarða til að meta áhrif kynjajafnvægis á fjárhagslega afkomu og sjálfbærni- og umhverfisvísa sem útfæra má á alþjóðavettvangi,“ undirstrikar Ásta Dís.
Teymið
Teymið á bak við rannsóknarverkefnið er skipað þeim dr. David Gaddis Ross, prófessor við University of Florida, dr. David Anderson, dósent við Villanova University, Freyja Þórarinsdóttir, doktorsnemi og stofnandi GemmaQ, dr. Gary L. Darmstadt, prófessor við Stanford University og stjórnanda Global center for gender equality við sama skóla, Hrefnu Guðmundsdóttur meistaranema, dr. Margréti Vilborgu Bjarnadóttur, dósent við University of Maryland - Robert H. Smith School of Business, dr. Sigrúnu Gunnarsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, og Þóru H. Christiansen, aðjunkt við sama skóla. Verkefnisstjóri er dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
„Það er mikill fengur að hafa fengið öfluga aðila úr atvinnulífinu til liðs við verkefnið enda eitt af stefnumálum Háskóla Íslands að vera í virku samtali og samstarfi við atvinnulífið. Samstarfsaðilar í rannsóknunum eru Creditinfo, GemmaQ, Landssamtök lífeyrissjóða, Nasdaq Ísland og Pay Analytics. Bakhjarlar rannsóknarinnar eru Festi, Síminn og Viðskiptaráð og er þeim þakkað sérstaklega fyrir stuðninginn enda mjög mikilvægt að geta átt í góðu samtali við öfluga stjórnendur,“ segir Ásta Dís.