Skip to main content
22. desember 2020

Hvernig líður bjargvættinum besta á æskuslóðum?

Hvernig líður bjargvættinum besta á æskuslóðum? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.

Svona orti fyrsti ráðherrann og þjóðskáldið Hannes Hafstein til heiðurs þorskinum sem lengi hefur verið sá bolfiskur sem mestu hefur skipt fyrir þjóðarbúið. Á haustdegi eins og þeir gerast fegurstir á Vestfjörðum má sjá bátkænu úti fyrir Dvergasteini í Álftafirði, í algjöru svartalogni, og þar um borð eru tvær konur að draga inn net. Þær eru þó ekki að veiða þorsk í soðið heldur fanga þær smáfisk, þorskseiði, sem þær vilja halda á lífi og merkja til að uppgötva hluti sem hafa lengi verið óljósir mönnum um líf þorsksins sem Hannes Hafstein kallaði hvorki meira né minna en þjóðfrelsishetju.

„Við merkjum þorskfiskseiði með hljóðmerkjum til að kortleggja atferli þeirra við náttúrulegar aðstæður,“ segir önnur kvennanna, Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, og lítur eldsnöggt upp áður en hún gangsetur utanborðsmótor með snöggu togi. Hún veit hað hún syngur enda rannsóknasérfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Þar hefur hún byggt upp þverfræðilegar rannsóknir á auðlindum og auðlindanýtingu strandsvæða.

konurabati

Þegar hún drepur aftur á mótornum segir hún okkur að þær vísindastöllur, hún og Michelle Valliant meistaranemi, sem er með henni á bátnum, séu m.a. að skoða búsvæðanýtingu þorskseiðanna og viðbrögð þeirra við breytingum á sjávarhita og hve lengi seiðin haldi sig nálægt landi. Gífurleg afföll verða á seiðunum á þessum fyrstu mánuðum í lífi þeirra, allt að 99%. Hækkandi sjávarhiti er yfirvofandi og er líklegur til að hafa áhrif á lifun. „Við viljum því sjá hvort einstaklingar bregðast ólíkt við hitastigi sjávar. Við viljum líka sjá hvort merktu seiðin séu étin af stærri fiskum.“

En hvernig geta þær séð hvað þessi smáu seiði eru að sýsla og hvort þau séu étin af öðrum stærri í harðri lífsbaráttunni í undirdjúpunum? Jú, á seiðunum er gerð lítil aðgerð og hljóðmerkjum komið fyrir í kviðarholi seiðanna áður en þeim er sleppt aftur í hafið. Doktorsneminn Anja Katrin Nickel framkvæmir þessar aðgerðir eins og þaulvanur skurðlæknir. Þetta gerir vísindakonunum kleift að kortleggja ferðir og hegðun merktu seiðanna á fyrsta æviskeiðinu. Sérhæfðum mælitækjum er komið fyrir í sjónum á uppeldisstöðvunum sem nema hljóðin frá búnaðinum í sérhverju merktu seiði.  

Ráðgáta hvernig seiðunum vegnar í uppvextinum

Guðbjörg Ásta segir að ótrúlega lítið sé vitað um vistfræði þorskseiða hér við land. Það sé því afar mikilvægt að öðlast þekkingu á þeim svæðum sem seiðin noti og hvenær þau noti þau enda sé mikið um framkvæmdir á strandsvæðum og því töluvert rask. Þetta á afar vel við um Djúpið þar sem unnið er að veglagningu alveg ofan í fjöruborði með stórvirkum tækjum í Álftafirði þar sem þær stöllur eru við rannsóknir sínar. Sömu sögu er að segja af Seiðisfirði, þeim næsta til suðurs, þar sem gríðarlegar vegaframkvæmdir standa nú yfir. Ekki þarf að fletta lengi í fréttamiðlum til að finna umfjöllun um það álag sem vistkerfi sjávar mega þola vegna loftslagsbreytinga annars vegar og aukinnar nýtingar og ásóknar okkar í strandsvæði hins vegar. 

„Með aukinni þekkingu er hægt að skipuleggja vernd seiðastöðva og stuðla t.d. að því að viðhalda fargerðum þorsks á seiðastigi,“ segir Guðbjörg Ásta sem hefur brennandi áhuga að rannsaka áhrif umhverfisþátta á líffræðilegan fjölbreytileika ólíkra nytjastofna og sjá hvernig megi viðhalda þessum mikilvæga fjölbreytileika. 

Guðbjörg Ásta segir að verkefnið höfði til sín persónulega þar sem í því komi saman margir ólíkir þættir. „Verkefnið er t.d. tæknilega krefjandi og krefst úthalds og útsjónarsemi í vettvangsvinnu. Það er síðan bæði mikilvægt frá hagnýtu sjónarmiði, þ.e. niðurstöðurnar er hægt að nýta til að viðhalda og vernda þorskstofninn, en ekki síður gefur það ákaflega áhugaverða fræðilega innsýn inn í hvernig breytileiki í atferli, í þessu tilfelli í fari, verður til og viðhelst hjá náttúrulegum stofnum.“

Þær Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Michelle Valliant kunna vel við sig úti á Álftafirði. „Ég verð að segja að hagnýtt gildi þessarar rannsóknar fyrir samfélagið er afar mikið þar sem tilfinnanleg vöntun er á grunnupplýsingum um fiskana í hafinu í kringum okkur og búsvæði þeirra. Sú þekking er nauðsynleg til að hægt sé vinna skipulega að vernd og nýtingu,“ segir Guðbjörg Ásta. MYND/Jón Örn Guðbjartsson

Mikilvægar rannsóknir fyrir samfélag og vísindin

„Við notum greiningar á erfðaefni eða DNA til að kanna hvort merktu seiðin hafi gen sem tengist fæðugöngum eða gen sem tengist því að halda sig mest í sjó nærri landi. Það er áhugavert að vita hvort þorskseiði sem eru af þessum ólíku fargerðum hegða sér ólíkt strax á seiðastigi,“ segir Guðbjörg Ásta. 

Til að útlista þetta nánar þá er sá þorskur sem við veiðum hér við land ólíkur að því marki að hluti heldur sig á grunnsævi ævina alla á meðan hinn fer út á hafdjúpið eftir uppvöxtinn við ströndina og heldur sig jafnvel á miklu dýpi í ætisleit og syndir þá upp og niður eftir vatnssúlunni. Þessar tvær gerðir hafa auk þess ekki alveg sama útlit. 

Enginn þarf að efast um gildi þessarar rannsóknar. Vísindalegt gildi er ekki síst fólgið í nýrri þekkingu á tilurð og áhrifum fars hjá þorski sem við höfum lítið sem ekkert vitað um. Hún veitir líka skilning á ytri áhrifum á seiði bolfisks sem telst til mikilvægustu auðlindar Íslendinga. Rannsóknir af þessum toga geta þannig orðið forsenda verndaráætlana og mikilvægra mótvægisaðgerða. 

„Ég verð að segja að hagnýtt gildi þessarar rannsóknar fyrir samfélagið er afar mikið þar sem tilfinnanleg vöntun er á grunnupplýsingum um fiskana í hafinu í kringum okkur og búsvæði þeirra. Sú þekking er nauðsynleg til að hægt sé vinna skipulega að vernd og nýtingu.“

thorskur

Guðbjörg Ásta - Afkastamikil vísindakona

Guðbjörg Ásta er gríðarlega afkastamikil vísindakona. Hún hefur m.a. vakið feiknarathygli fyrir þverfræðilegt rannsóknarverkefni sem beinist að því að svipta hulunni af þorskstofninum á sögulegum tíma. Þær rannsóknir hafa byggst á því að sameina krafta sína við vísindamanninn og fornleifafræðinginn Ragnar Edvardsson sem hefur grafið í gömlum verstöðvum á Vestfjörðum. Rannsóknir Guðbjargar Ástu á fornum þorskbeinum úr þeim uppgreftri hefur sýnt fjölbreytileika í þorski á ólíkum tímum, allt frá landnámi, og gefið mynd af stöðu stofnsins á ólíkum tíma.

Í þessum rannsóknum sýndi Guðbjörg Ásta fram á að veiðistofn þorsks við landnám var mun stærri en í nútíma. Þessi stofn hrundi löngu áður en iðnvæddar veiðar hófust eða við upphaf síðmiðalda. 

Guðbjörg Ásta hefur birt fjölda greina í alþjóðlega viðurkenndum vísindaritum og áhrif rannsókna hennar hafa verið mikil. Hún er fædd árið 1976 og hefur nokkra þekkingu á land- og jarðfræði sem hún nam við Háskóla Íslands áður en hún sneri sér að líffræði. Sá grunnur hefur hjálpað henni við að lesa í niðurstöður varðandi sögulegar rannsóknir á veiðistofnum og við mat á áhrifum breytinga á umhverfi á lífríki.
Guðbjörg Ásta er með doktorsgráðu frá St. Andrews háskólanum í Skotlandi og hefur verið forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum frá árinu 2007.  

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Michelle Valiant í Álftafirði