Skip to main content
28. maí 2025

Hvernig birtist kynbundið ofbeldi í unglingamenningu á Íslandi?

Benedikta Björg Sörensen Valtýsdóttir

„Ef allt ofbeldi, áreitni og tal er skoðað er sjaldan eða jafnvel aldrei hægt að draga skýra línu þarna á milli. Hvergi er hægt að segja að ákveðin atburður sé alltaf ofbeldi, annar sé alltaf áreitni en sá þriðji sé það aldrei,“ segir Benedikta Björg Sörensen Valtýsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún vinnur nú að rannsókn á upplifun ungmenna af kynbundnu ofbeldi og forvörnum á Íslandi undir leiðsögn Brynju Elísabethar Halldórsdóttur, dósents við Deild menntunar og margbreytileika. 

Kveikjan að rannsókninni var þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem var samþykkt á Alþingi árið 2020. „Mig langar að komast að því hvernig kynbundið ofbeldi birtist í unglingamenningu á Íslandi. Þá er ég að skoða það sem er kallað samfella kynbundins ofbeldis,“ segir Benedikta. 

Erfitt að flokka kynbundið ofbeldi

Breski félagsfræðingurinn Liz Kelly setti fram hugmyndina um samfellu kynbundins ofbeldis árið 1988. Kenningin snýr að gráu svæðunum í kynbundnu ofbeldi og hvernig þróunin úr jafnvel meinlausu tali yfir í ofbeldi á sér stað. Benedikta segir suma hluti klárlega skilgreinda sem kynbundið ofbeldi. Hún nefnir þar nauðgun og annað kynferðislegt ofbeldi. Þrýsting til að stunda kynlíf segir hún að fólk telji sem ofbeldi núna en að það hafi ekki alltaf verið gert. Liz Kelly hélt því fram að allt kynbundið ofbeldi væri jafn alvarlegt að undanskildu því sem leiðir til dauða. Benedikta tekur undir að erfitt sé að greina alvarleika ofbeldis vegna þess hve ólík upplifun fólks sé. 

Birting kynbundins ofbeldis í unglingamenningu 

Rannsóknin er í tveimur hlutum, annars vegar greining á námsefni, sem er lokið, og hins vegar viðtöl við unglinga sem Benedikta vinnur nú að. Með viðtölunum vonast hún til að komast að því hvernig kynbundið ofbeldi birtist í unglingamenningu og hvort það sjáist einhvers konar samfella. Hún reynir að komast að því hvort það séu skýr skil einhvers staðar, hvort sumt sé bara hluti af orðræðunni og annað sé klárlega ofbeldi. „Mig langar að skoða hvernig orðræðan er kynjuð og öll þau stig sem gætu mögulega verið á milli óviðeigandi tals og ofbeldisfulls.“ 

Viðtölin tekur hún við vinahópa en með þeim hætti fái hún aðgang að því trausti og spjalli sem á sér stað þegar samtal flæðir í slíkum hóp. Útgangspunkt viðtalanna segir Benedikta ekki vera persónulega reynslu unglinganna af ofbeldi heldur frekar að öðlast innsýn þeirra í unglingamenningu á Íslandi.

Í fyrri hluta rannsóknarinnar fór Benedikta yfir mest allt námsefni sem til er á Íslandi um kynbundið ofbeldi og forvarnir gegn því og kortlagði það. Efnið var tekið af vefsíðunni stoppofbeldi.is. „Þar er netinu kastað mjög vítt. Mínar kríteríur voru að efnið væri til á íslensku, fjallaði um kynbundið ofbeldi og væri á einhvern hátt menntun eða útskýring,“ segir Benedikta. 

„Það sem ég sé fyrir mér er að vera með stóra mynd af öllum þeim atvikum sem ýmist koma upp eða eru möguleg í hugum ungmenna á Íslandi. Síðan er ég með aðra mynd af öllu sem til fræðslu- og námsefni um. Þá gæti ég mögulega lagt þessar myndir saman og séð hvar er að finna gloppur í fræðslu. Hér er eitthvað sem er hluti af reynsluheimi unglinga en það er ekki til neitt námsefni um það.“ 

Benedikta vonar að rannsóknin geti orðið til þess að við öðlumst betri innsýn inn í veruleika ungs fólks, ekki síst á netinu: „Ég vona að það verði hægt að nýta þetta til þess að stoppa í götin sem eru til staðar í menntun um kynbundið ofbeldi,“ segir hún. MYND/Kristinn Ingvarsson

Innsýn í upplifun unglinga 

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir enn sem komið er en Benedikta segist vera komin með ákveðna innsýn í upplifun unglinga. Hún segist sjá að samfellan sé til staðar: „Það er mjög sterk tenging á milli þess hvernig er talað og hvað þau upplifa sem aðstæður sem gætu komið upp. Það er til fullt af mismunandi birtingarmyndum sem stundum væri algjörlega skilgreint sem ofbeldi en stundum ekki.“ 

Sem dæmi nefnir Benedikta grín á milli stráka sem getur verið gróft og farið yfir mörk. Þetta segir hún unglingana eiga erfitt með að skilgreina sem ofbeldi. Hins vegar þegar hún setur dæmið þannig upp að um sé að ræða eitthvað sem strákur gæti gert við stelpu þá séu unglingarnir klárir á því að um ofbeldi sé að ræða. Þetta sé dæmi um það sem myndar samfellu kynbundins ofbeldis. 

„Ef gengið væri aðeins lengra eða einhver annar er settur í þessar aðstæður þá væri þetta klárlega ofbeldi. Ef gengið væri aðeins styttra finnst þeim varla þess virði að nefna það. Þetta fellur svona einhvers staðar inn á milli,“ segir Benedikta. 

Benedikta segist einnig hafa tekið eftir sérstakri stöðu hinsegin ungmenna í rannsókninni. „Þau upplifa ofboðslega mikið áreiti og að það sé ekki möguleiki fyrir þau að vera í svona „safe space“ öllum stundum,“ segir hún og bætir við að allir viðmælendur hennar hafi nefnt að veruleikinn sé annar á samfélagsmiðlum, sem sé önnur, harðari og grófari veröld. 

Benedikta vonar að rannsóknin geti orðið til þess að við öðlumst betri innsýn inn í veruleika ungs fólks, ekki síst á netinu: „Ég vona að það verði hægt að nýta þetta til þess að stoppa í götin sem eru til staðar í menntun um kynbundið ofbeldi,“ segir hún að endingu.

Höfundur greinar: Malín Marta Eyfjörð Ægisdóttir, nemi í blaðamennsku.

Benedikta Björg Sörensen Valtýsdóttir,

Benedikta Björg Sörensen Valtýsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson