Skip to main content
17. mars 2020

Hvalrekinn núna sýnir breytta hegðun hnúfubaks

""

Fjórtán metra langan hnúfubak rak á land á dögunum í Reynisfjöru og hefur hann verið viðfangsefni vísindafólks við Háskóla Íslands í framhaldinu. Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands, sem stundar einmitt rannsóknir á hnúfubökum við Ísland, fór í fyrradag í Reynisfjöru til að taka mál af dýrinu og sýni.

Það sem er sérstakt við þennan hvalreka er það að hann er á árstíma sem fátítt er að hnúfubakar ættu að vera við Íslandsstrendur. Um þessar mundir er hins vegar farið að bera töluvert á hnúfubökum við landið um hávetur. Edda Elísabet segir að hnúfubakur sé farhvalur sem leggi á sig að synda langar vegalengdir milli æxlunarstöðva í hitabeltinu og fæðustöðva á norðlægari breiddargráðum líkt og við Ísland.

„Á þessum tíma árs eru þessir víðförlu hvalir að jafnaði að halda til baka hingað frá æxlunarstöðvum sínum í t.d. Karíbahafinu og við Grænhöfðaeyjar. Þó eru teikn á lofti um breytingar á farmynstri þessara hvala þar sem sumir þeirra halda til við landið allan ársins hring eða fara mun seinna af stað í far en áður var haldið, þ.e. í mars eða apríl í stað desember og janúar. Líklega er meira aðgengi að fæðu á norðlægum slóðum inn í veturinn en áður og því gefst hnúfubökum tækifæri á að nærast lengur á þessum slóðum. Helsta fæða þeirra eru áta, síld og loðna en líklega er það ungsíld og loðna sem þeir sækja í á veturna,“ segir Edda Elísabet. 

Reyna að bera kennsl á dýrið

Edda Elísabet segir að hvalurinn hafi verið dauður þegar hann rak á land í Reynisfjöru og virðist sem dánarorsök sé af náttúrulegum ástæðum. „Þó gafst ekki tækifæri á að opna hvalinn og skoða magainnihald þar sem um vinsælan ferðamannastað er að ræða. Vísindamenn nýta sér einkennandi mynstrið undir sporðblöðku hnúfubaka til að þekkja þá í sundur.“

Þannig geta Edda og samstarfsaðilar hennar á Hafrannsóknarstofnun kannað hvort að hvalurinn hafi sést áður við Ísland eða annars staðar í Norður-Atlantshafi.

Risi hafsins

Að standa við hlið hvals af þessari stærðargráðu færir manninum sanninn um gífurlega stærð þessa risa hafsins. Hnúfubakurinn er gjarnan um og yfir þrettán metra langur. Þessi er því nærri meðallagi. Kvendýrin vega allt að 48 tonn en karldýrin eru sýnu léttari en vega samt allt að 35 tonn. Hnúfubakurinn skákar okkur manninum einnig hvað lífslíkur varðar en hann getur orðið hartnær hundrað ára gamall og hefur samt engan aðgang að lyfjum.

Bægslin á hvalnum sem rak á land ein og sér eru rúmlega 4 metrar að lengd, neðri kjálki um 4,5 metrar að lengd og sporðblaðkan rúmlega 3 metrar á breidd. 

Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands, sem stundar rannsóknir á hnúfubökum við Ísland, fór í fyrradag í Reynisfjöru til að taka mál af dýrinu og sýni.

Spendýr sem hafa aðlagast lífi í sjó

Hvalir eru spendýr sem hafa aðlagast lífinu í sjónum gríðarvel en þeir skiptast í skíðishvali og tannhvali. Hnúfubakurinn er skíðishvalur. Hvalategundir eru um áttatíu og vísindamenn telja líklegast að þær séu komnar af sameiginlegum forföður sem leitaði aftur í sjó fyrir um 55 milljónum ára. Hvalir geta verið frá tæplega einum og hálfum metra og ríflega 50 kílóum upp í allt að 34 metra löng og 190 tonna ferlíki eins og steypireyður sem er stærsta dýr jarðarinnar. 

Afkastamikill vísindamaður

Edda Elísabet er afkastamikill vísindamaður og vinsæll kennari og vísindamiðlari til barna. Hún hefur kennt í mörg ár í Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni sem fer vítt og breytt um landið með fjör og fræði. Auk fjölbreyttra rannsókna á sjávarspendýrum er hún einnig frumkvöðull og hefur unnið við nýsköpunarverkefni sem miða að því að miðla upplýsingum um hvalahljóð til ferðamanna í formi hljóðbókar. 

Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum Eddu og samstarfsfólks hjá Hafrannsóknastofnun, Háskólanum í St Andrews, Háskólanum í Barcelona og Eldingu hvalaskoðun, sem snúa sérstaklega að farhegðun og vetrardvöl hnúfubaka við Ísland í breyttum búsvæðum hafsins.

Edda Elísabet Magnúsdóttir við hræið af hnúfubaknum