Hvaða kennari hafði mest áhrif á þig?
„Flestir hafa eflaust einhverjar hugmyndir um hvað einkennir góðan kennara. Gildir þá einu hvort þær hugmyndir byggist á faglegu sjónarmiði eða einskorðist við persónulegar skoðanir,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en opnað hefur verið fyrir innsendingar á tilnefningum í kynningarátakinu „Hafðu áhrif“. Í átakinu gefst almenningi kostur á tilnefna eftirminnilega kennara sem hafa haft áhrif á líf þeirra eða jafnvel barna þeirra.
„Tilgangurinn með átakinu er að vekja athygli á því jákvæða og skemmtilega við kennarastarfið og fá fólkið í landinu í lið með okkur. Þetta er í þriðja sinn sem Menntavísindasvið stendur fyrir átakinu og hefur því verið vel tekið. Fólk er duglegt að benda á góða kennara og samtals hafa á þriðja þúsund tilnefninga borist,“ segir Jóhanna.
Aðspurð hvort það séu sérstakir þættir sem einkenni góða kennara bendir Jóhanna á skýrslu OECD frá árinu 2016 þar sem leitað var svara við þessari spurningu og farið yfir rannsóknir á því efni. „Þekking á námsgreininni sem kenna skal er einn þeirra þátta sem nefndir eru sem og menntunarfræðileg þekking. Þar er m.a. átt við þekkingu á kennsluaðferðum og leiðum til að skipuleggja og meta nám og kennslu. Góðir kennarar hafa einnig kunnáttu og metnað til að hvetja nemendur til dáða og mæta þörfum, áhuga og þroska hvers og eins. Auk þess einkenna eldmóður, ástríða fyrir viðfangsefninu og virðing fyrir nemendum góða kennara.“
Kennarar gegna lykilhlutverki í menntun nemenda og gæði menntunar standa og falla með þeim. En hvers virði eru góðir kennarar fyrir samfélagið? „Menntakerfið er grunnur allrar framþróunar í samfélaginu. Vel menntaðir kennarar geta skipt sköpum fyrir lífshlaup og velferð einstaklinga,” segir Jóhanna að endingu og hvetur landsmenn til að taka þátt í átakinu en hægt er að senda inn tilnefningar til 25. maí nk.
Framúrskarandi kennurum verða veitt verðlaun fyrir störf sín þann 6. júní nk. í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum rektor Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra.
Fyrir athöfnina verða fluttir örfyrirlestrar sem allir eiga það sameiginlegt að beina sjónum að því góða starfi sem unnið er í skólum landsins. Á mælendaskrá eru Andri Rafn Ottesen, fulltrúi kennaranema, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, Ársæll Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræði ungra barna, og Svanborg Rannveig Jónsdóttir, dósent í listum og skapandi starfi.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Nánari upplýsingar á hafduahrif.is