Skip to main content
21. október 2025

Hvað skiptir máli fyrir farsæld barna?

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dr. Anne Edwards, Oddný Sturludóttir, Ragnheiður Hergeirsdóttir og Jón Torfi Jónasson.

Ný fyrirlestraröð Menntavísindasviðs skólaárið 2025-2026 hófst fimmtudaginn 16. október í Sögu á erindi dr. Anne Edwards, prófessor emeritu í menntunarfræði við Háskólann í Oxford, sem bar yfirskriftina Lærdómur af þverfaglegu samstarfi sem styður við farsæld barna (e. Lessons Learnt About Interprofessional Collaboration to Support Children and Families).
Erindi Anne Edwards var hið fyrsta í fyrirlestraröð sem nefnist Efst á baugi og var fyrirlesturinn samstarfsverkefni Farsældarnets Félagsvísindasviðs HÍ og Menntavísindasviðs HÍ. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, ávarpaði gesti í upphafi og leiddi umræður að erindi Anne Edwards loknu. Ragnheiður Hergeirsdóttir, lektor við Félagsráðgjafardeild, bauð fólk velkomið fyrir hönd Farsældarnetsins og Oddný Sturludóttir doktorsnemi kynnti Anne Edwards áður en hún tók til máls og flutti erindið. Að endingu flutti Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið samantekt um erindið. 

Í fyrirlestri sínum miðlaði Anne Edwards áratugalöngu rannsóknarstarfi sínu, sem leitt hefur í ljós hvernig fagfólk í Bretlandi mætti þeirri áskorun að koma auga á og skilja hvernig hægt er að virkja styrkleika, gildi og hvata ólíkra fagstétta í þágu farsældar barna. 

Farsældarlögin hér á landi hafa í för með sér væntingar til skólafólks og allra þeirra sem með þeim starfa, s.s. fagfólks í frístunda- og forvarnarstarfi, félagsráðgjafa og annarra í stoðþjónustu kringum börn og unglinga. Var fyrirlesturinn fyrir vikið vel sóttur af fagfólki úr þessum geirum sem mætti til að viða að sér þekkingu og hlýða á rannsóknarniðurstöður Edwards um hvernig fagfólki í Bretlandi hefur tekist til við þverfaglegt samstarf um farsæld barna. 

Edwards kynnti þrjú hugtök sem tengjast innbyrðis og hafa verið kölluð „garðyrkjuverkfærin“. Þau hverfast um það hvernig sameiginleg þekking (e. common knowledge) byggist upp, hvernig sérhæfing fagfólks þróast í þverfaglegu samstarfi og í tengslum við aðra (e. relational expertise) og hvernig virkni fagfólks mótast af þeim tengslum (e. relational agency) í samstarfi við börn og fjölskyldur.

Hún kynnti jafnframt ramma um þverfaglegt samstarf sem þróaður var af áströlskum fræðikonum á grunni garðyrkjuverkfæranna þriggja. Þar var markmiðið að koma auga á hvernig þverfaglegt samstarf þróast og dýpkar í tengslum við nám og farsæld yngri barna. Ramminn hefur einnig verið nýttur í skólastarfi með eldri börnum til að styðja við þverfaglega starfshætti. Að lokum ræddi Edwards um lærdóm rannsókna sinna og leiðir til innleiðingar fyrir stjórnvöld og stefnumótandi aðila, skólafólk og annað fagfólk á vettvangi og háskóla sem mennta kennara og annað fagfólk.

Fyrirlesturinn var sem fyrr segir vel sóttur bæði á stað og í streymi.

Hér að neðan má nálgast upptöku af fyrirlestri Anne Edwards sem fram fór 16. október.

Næsti fyrirlestur Efst á baugi, verður haldinn 13. nóvember nk.  þar sem fræðst verður um hvernig auka megi gæði kennslu og reynslu kennara af því að nýta myndbandsupptökur. Nánar um viðburðinn hér: Að auka gæði kennslu: Reynsla kennara af því að nýta myndupptökur 

Nánari upplýsingar um fyrirlestraröð Menntavísindasviðs 2025 - 2026 hér - Efst á baugi 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dr. Anne Edwards, Oddný Sturludóttir, Ragnheiður Hergeirsdóttir og Jón Torfi Jónasson. MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson
Dr. Anne Edwards og Oddný Sturludóttir. MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson
MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson
MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson
MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson
MYND/Ólafur Rafnar Ólafsson