Hvað er börnum fyrir bestu og hver ákveður það?
Hvað er mikilvægt að börnin okkar læri og upplifi í leikskóla? Leitað verður svara við þessari spurningu og mörgum öðrum á ráðstefnu sem RannUng, rannsóknastofa í menntunarfræði ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stendur fyrir á Grand Hótel í dag, þann 15. nóvember.
Svör við spurningunni að framan skipta samfélagið verulegu máli því í leikskólum er unnið með börnum að grunnþáttum menntunar og skýr tækifæri sköpuð fyrir þau til náms og þroska. Á sama tíma og margir leikskólakennara reyna að byggja upp fagmannlegt starf, þar sem leikur barna og ummönnun eru í hávegum höfð auk þess sem áhuga og þörfum barnanna er mætt, virðist sem brugðist sé við auknum kröfum um stýrandi aðferðir og beina kennslu í mörgum leikskólum. Til að uppfylla ólíkar óskir og kröfur í starfinu upplifa margir leikskólakennarar aukin verkefni og álag í starfi. Tilgangur ráðstefnunnar er að varpa ljósi á það flókna starf sem fram fer í leikskólum út frá mismunandi sjónarhornum, m.a. leikskólakennara, foreldra, barnanna sjálfra og rekstraraðila.
Á ráðstefnunni verður fjallað um leikskólastarf í fjölbreyttu og flóknu samfélagi nútímans og leitað svara við því hvaða aðferðum megi beita við uppfræðslu leikskólabarna, hvaða sjónarmið ráði og hver eða hverjir eigi að koma að ákvarðanatöku um leikskólastarf.
Michel Vandenbroeck, prófessor við Ghent-háskóla í Belgíu, heldur aðalfyrirlesturinn á ráðstefnunni. Hann er meðal virtustu fræðimanna á sviði leikskólamenntunar og hefur vakið athygli víða um heim fyrir rannsóknir sínar um stefnumótun og starfshætti í leikskólum og stuðning við foreldra í fjölmenningarsamfélagi, svo eitthvað sé nefnt.
Jóhanna Einarsdóttir prófessor og Björn Rúnar Egilsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, munu kynna fyrstu niðurstöður úr rannsókninni Fararheill, sem varpar ljósi á undirstöður í leikskólastarfi, sér í lagi þegar bakgrunnur barna víkur frá ríkjandi menningu. Í rannsókninni er sjónum beint að elstu börnunum í tveimur leikskólum, foreldrum þeirra og kennurum. Helmingur barnahópsins hefur annað tungumál en íslensku sem móðurmál. Rætt var við foreldra og börn um leikskóladvölina og þá þætti sem að þeirra mati skipta mestu máli fyrir nám og vellíðan.
Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar, ræðir um ákvarðanatöku út frá sjónarhóli sveitarfélaga eða rekstraraðila og tengir jafnframt við hvernig réttindi barna til að hafa áhrif í eigin lífi eru virt.
Loks talar Bragi Ólafsson leikskólakennari um stöðu leikskólakennara í tveimur löndum.
RannUng, sem stendur að ráðstefnunni, er starfrækt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en ráðstefnan fer fram á Grand Hótel í dag milli kl. 8:30 – 12:30.
Nánari upplýsingar eru um ráðstefnuna á heimasíðu RannUng.