Horft til framtíðar á Aurora-vorráðstefnu í Austurríki
Metfjöldi þátttakenda sótti Aurora-vorráðstefnuna sem fór fram í Innsbruck í Austurríki dagana 11.-12. maí sl. Yfir 180 nemendur og starfsmenn Aurora-háskóla og annarra samstarfsaðila Aurora komu saman, þar af 18 fulltrúar úr hópi nemenda og starfsfólks HÍ. Markmið ráðstefnunnar var að fagna þeim árangri sem hefur náðst í Aurora-samstarfinu og að ræða þær mörgu áskoranir sem háskólar þurfa að takast á við í svo metnaðarfullu alþjóðlegu samstarfi. Brátt munu háskólarnir hefja undirbúning að umsókn um áframhaldandi fjármögnun frá Evrópusambandinu og því var ráðstefnan kærkomið tækifæri til að stilla saman strengi áður en formlegur undirbúningur hefst.
Tilmann Märk, rektor Háskólans í Innsbruck, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og forseti Aurora, héldu erindi við opnun ráðstefnunnar. Stríðið í Úkraínu og áhrif þess á nemendur og starfsfólk National V.N. Karazin University í Kharkiv, sem er samstarfsskóli Aurora, var þeim báðum hugleikið. Rektor háskólans, Tetyana Kaganovska, sótti ráðstefnuna og hélt þar erindi. Þar gerði hún grein fyrir þeim áhrifum sem stríðið hefur haft á starf háskólans og hvernig starfsmenn hans hafa reynt að halda áfram kennslu í ólýsanlega erfiðum aðstæðum. Þá tók Tetyana á móti neyðarstyrk frá Háskóla Íslands og öðrum Aurora-háskólum upp á 51.000 evrur til að koma til móts við brýnustu þarfir skólans, svo sem kaup á nýjum tölvum og tækjabúnaði fyrir kennara til að halda úti kennslu á netinu. Lesa má hér formlega yfirlýsingu frá Tetyönu Kaganovska um þátttöku skólans í Aurora-vorráðstefnunni.
Sabine Allain Sainte-Rose, miðlægur stjórnandi ESB samstarfshluta Aurora, fór yfir þann árangur sem náðst hefur á undanförnum 18 mánuðum. Gríðarleg vinna hefur farið fram í öllum aðildarháskólum og hefur hún skilað sér meðal annars í nýrri vefsíðu Aurora og „Virtual Campus“. Þar geta nemendur og starfsfólk fundið ýmis tækifæri til náms og þjálfunar og samtarfs sem eiga það sammerkt að leggja áherslu á samfélagslega nýsköpun og sjálfbærni. Boðið hefur verið upp á meira 140 slík tækfæri innan Aurora og þátttakendur verið yfir 4.000. Aurora-stúdentaráðið hefur samhliða unnið að gerð nýrrar handbókar til að tryggja virka þátttöku nemenda og stofnanaminni ráðsins. Alma Ágústsdóttir, forseti Aurora-stúdentaráðsins og alþjóðafulltrúi SHÍ, afhenti Jóni Atla Benediktssyni fyrsta eintakið.
Tetyana Kaganovska, rektor National V.N. Karazin University í Kharkiv, sem er samstarfsskóli Aurora, tók við neyðarstyrk frá Háskóla Íslands og öðrum Aurora-háskólum upp á 51.000 evrur til að koma til móts við brýnustu þarfir skólans, svo sem kaup á nýjum tölvum og tækjabúnaði fyrir kennara til að halda úti kennslu á netinu.
University Paris-Est Crétail nýr samstarfsaðili innan Aurora
Aurora er vex ört sem samstarfsvettvangur og bar ráðstefnan þess glöggt merki. University Paris-Est Crétail (UPEC) var kynntur sem nýr Aurora-háskóli. Jón Atli Benediktsson og forseti UPEC, Jean-Luc Dubois-Randé, undirrituðu viljayfirlýsingu þessu til staðfestingar. UPEC leggur mikla áherslu á samfélagsleg áhrif kennslu og rannsókna og því er Aurora sérlega spennandi samstarfsnet fyrir skólann. Hann mun taka virkan þátt í undirbúningi umsóknar Aurora um áframhaldandi fjármögnun ESB á næsta ári.
Joan Gabel, forseti Minnesota-háskóla, hélt einnig erindi á ráðstefnunni og greindi þar frá stefnu háskólans í rannsóknum og nýsköpun og hvernig skólinn leitast við að hámarka samfélagslegan ávinning þeirra. Skólinn hefur tekið aukinn þátt í verkefnum Aurora undanfarin misseri og er stefnt að því að fjölga samstarfskólum Aurora frá löndum utan Evrópu í náinni framtíð.
Aurora-vorráðstefnunni var streymt á netinu og eru öll áhugasöm sem misstu af erindunum hvött til að skoða upptökur frá fyrsta og öðrum degi ráðstefnunnar. Dagskrá ráðstefnunnar má finna í heild sinni hér og myndir frá ráðstefnunni má nálgast hér.