Skip to main content
28. nóvember 2024

Hljóta viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf fyrir HÍ

Hljóta viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf fyrir HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Hagfræðideild og Líf- og umhverfisvísindadeild, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Valentina Giangreco M Puletti, prófessor við Raunvísindadeild, og Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnisstjóri við Íslensku- og menningardeild, hljóta viðurkenningar Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag í starfi í ár. Viðurkenningarnar, sem eru á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa, voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk í dag.

Slíkar viðurkenningar hafa verið veittar í yfir tvo áratugi við HÍ. Þær voru þrjár í upphafi, á sviði kennslu, rannsókna og almennra starfa, en fjórðu viðurkenningunni, á sviði jafnréttismála, var bætt við fyrir nokkrum árum. Um 80 manns hlotið viðurkenninguna frá upphafi.

Bryndhildur

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði og Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskóla Íslands.

Brynhildur lauk BS-gráðu í líffræði við Háskóla Íslands árið 1991, tvöfaldri meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og umhverfisstjórnun frá Boston University í Bandaríkjunum 1995 og doktorsgráðu í umhverfis- og orkufræðum frá sama háskóla 2002. 

„Brynhildur hefur fjölþætta reynslu á sviði umhverfis- og orkumála og rannsókna og kennslu á því sviði. Að loknu doktorsnámi kenndi hún við Boston University, vann við rannsóknir hjá University of Maryland í College Park og starfaði sem ráðgjafi á sviði orku- og umhverfismála hjá Abt Associates í Bandaríkjunum. Árið 2006 var Brynhildur ráðin dósent í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og hlaut framgang í starf prófessors árið 2013. Hún hefur gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu þverfaglegs meistara- og doktorsnáms í umhverfis- og auðlindafræðum sem í dag gegnir veigamiklu hlutverki í þjálfun sérfræðinga á því sviði,“ segir í greinargerð valnefndar.

Þá er bent á að Brynhildur hafi í samstarfi við fjölmarga aðila birt rúmlega 80 greinar á síðustu fimm árum í virtum alþjóðlegum tímaritum auk bókakafla sem gefnir hafa verið út hjá virtum forlögum og önnur samfélagslega mikilvæg ritverk, s.s. skýrslu Vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. „Rannsóknir Brynhildar eru þverfaglegar og hefur hún lagt áherslu á að þjálfa meistara- og doktorsnema í rannsóknum. Hún hefur síðustu ár lagt sérstaka áherslu á velsæld, mikilvægi náttúrugæða og að greina þau umskipti sem þurfa að eiga sér stað til að vinna á loftslagsvá.“

Ásamt því að sinna rannsóknum af kappi hefur Brynhildur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum bæði innan Háskóla Íslands og utan. Hún á sæti í Vísindanefnd um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland, er varaformaður Loftslagsráðs, situr í efnahagsráðgjafaráði Skotlands, er formaður alþjóðlegrar vísindanefndar vistsporsgreininga, er í stjórn Arctic Circle Foundation og Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar, í námsráði GRO jarðhitaskólans, situr í stjórn Carbfix og var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavikur.

Sigurbjorg

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við Háskóla Íslands. 

Sigurbjörg lauk BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Diakonhjemmets College of Social Work í Noregi, M.Sc.-gráðu í stjórnsýslufræðum frá London School of Economics and Political Science árið 1999 og doktorsgráðu í sömu grein frá sama háskóla árið 2005. 

„Sigurbjörg hefur alla tíð sýnt kennslumálum mikinn áhuga, sérstaklega kennslu stórra námskeiða og fjarkennslu. Hún var frumkvöðull í flutningi námsleiðar í opinberri stjórnsýslu á meistarastigi úr blönduðu námi í fjar- og netnám. Þar hefur hún með góðum árangri virkjað og skapað styðjandi námssamfélag í námsleið sem kennd er alfarið á netinu og eru nemendurnir með ólíkan fræðilegan bakgrunn, nær allir í vinnu samhliða námi og búsettir ýmist hér á landi eða erlendis,“ segir í umsögn valnefndar vegna viðurkenningarinnar.

Þar er einnig undirstrikað að Sigurbjörg hafi þróað fjölbreyttar aðferðir til að viðhalda tengingu nemenda við skólalífið, en rannsóknir sýna að þessi tenging er oft minni hjá fjarnemum sem eykur líkur á brottfalli úr námi. „Hún hefur notað nýstárlegar kennsluupptökur þar sem hún hefur kynnt efni námskeiða sinna ýmist af vettvangi, með glærufyrirlestrum á upptökum eða myndböndum með viðtölum við fræðimenn og starfsfólk í ýmsum geirum opinberra starfa. Sérstaka athygli vöktu viðtöl við fræðimenn, ráðherra, þingmenn og forstöðumenn og starfsfólk í ýmsum geirum opinberra starfa um tengsl fræðanna við störf þeirra.“ 

Þá hefur Sigurbjörg um árabil verið einn öflugasti leiðbeinandi Stjórnmálafræðideildar og leiðbeint í rannsóknum og ritun yfir 80 ritgerða á grunn-, meistara- og doktorsstigi.

Valentina

Valentina Giangreco M Puletti, pófessor við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands.

Valentina lauk MS-prófi í kennilegri eðlisfræði við Háskólann í Perugia á Ítalíu árið 2004 og doktorsgráðu í sömu grein við Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 2009. Hún varð árið 2020 fyrst kvenna prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands.

„Valentina hefur lagt mikla áherslu á að auka hlut kvenna í eðlisfræði og inngildingu minnihlutahópa. Valentina hefur frá árinu 2019 verið stjórnarmaður og fulltrúi Íslands í samtökunum Nordic Network for Diversity in Physics (NORDiP) sem fjármögnuð eru af Nordforsk. Á þeim vettvangi hafði hún m.a. forystu um að ráðstefna NORDiP, sem hefur að markmiði að auka vitund um kynjajafnvægi og draga úr kynjamun vísindafólks á sviði eðlisfræði, var haldin á Íslandi árið 2022. Frá árinu 2018 hefur hún átt sæti í stjórn Genhet sem er alþjóðlegur rannsóknahópur á sviði fræðilegrar háorkueðlisfræði sem einnig vinnur að auknu kynjajafnvægi á sviði stjórnunar og stuðningi við ungt vísindafólk. Hópurinn starfar með sérfræðingum á sviði kynjafræði og öðrum hópum á borð við Konur í stærðfræðilegri eðlisfræði (Women in Mathematical Physics). Skipulagði hópurinn m.a. ráðstefnu í Stokkhólmi árið 2019 um kynjafræðilegar og fjölmenningarlegar áskoranir á sviði fræðilegrar háorkueðlisfræði,“ segir í umsögn valnefndar.

gisli

Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnisstjóri við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands.

Gísli lauk meistaragráðu í annarsmálsfræðum frá Vrije Universiteit í Brussel í Belgíu árið 2016. Hann hóf störf sem verkefnisstjóri og aðjunkt við Háskóla Íslands árið 2018. Áður hafði Gísli m.a. starfað sem fyrsti sendikennarinn í íslensku við háskóla erlendra fræða í Peking í Kína.

Gísli hefur leitt uppbyggingu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands undanfarin ár. „Óhætt er að segja að engin hlið þeirrar gríðarlegu uppbyggingar sé honum óviðkomandi, hvort sem litið er til inntöku nemenda kennslu, stjórnsýslu, aðgangs, breytinga á inntökukröfum og prófum og þannig mætti áfram telja. Úrræðasemi Gísla er mikil sem leiddi m.a. til þess að hann var fenginn til að leiða sérstaka sumarskóla sem haldnir voru á tímum COVID-heimsfaraldursins. Gísli er einstaklega ósérhlífinn, vinnur oft mjög langa vinnudaga jafnt á virkum dögum sem helgardögum og er vakinn og sofinn í að hlúa sem best að nýjum nemendum við Háskóla Íslands sem iðulega eru jafnframt nýjustu Íslendingarnir. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og er íslenska sem annað mál nú fjölmennasta námsleið skólans og eiga nemendur jafnt sem íslenskt atvinnulíf Gísla mikið að þakka,“ segir í umsögn valnefndar.

Fyrri handhafar viðurkenninganna.

Viðurkenningarhafar ásamt rektor. Frá vinstri: Gísli Hvanndal Ólafsson, Valentina Giangreco M Puletti, Brynhildur Davíðsdóttir, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Jón Atli Benediktsson.