Hljóta styrk til að þróa vöktunarkerfi fyrir hafið í kringum Ísland

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum leiðir nýtt innviðaverkefni í vísindum þar sem ætlunin er að bæta vöktun og gagnasöfnun sem tengist vistkerfi hafsins í kringum Ísland. Verkefnið, sem ber heitið Mælinga- og Athugunarkerfi Náttúru Í hafinu - MÁNI (e. Marine Open Observation Network - MOON), hlaut nýverið styrk úr Innviðasjóði.
Heilbrigð sjávarvistkerfi eru ein undirstaða hagkerfis Íslands og velferðar komandi kynslóða. Með vaxandi álagi vegna loftslagsbreytinga, fjölbreyttari nýtingu sjávar og auknum alþjóðlegum kröfum um að skipulag hafsvæða eykst þörf fyrir öfluga, hagkvæma og fjölbreytta vöktun hafsins í kringum Ísland. Markmiðið með MÁNI er að byggja upp næstu kynslóð hafrannsókna með áherslu á hagkvæma, sjálfvirka söfnum gagna, aukna samvinnu rannsakenda og örugg og opin gagnakerfi sem byggð verða í samstarfi við innviðakjarna upplýsingatækni (e. Icelandic e-Research Infrastructure, IREI) sem Upplýsingatæknisvið HÍ hefur umsjón með.
Háhyrningar við Íslandsstrendur. MYND/Filipa Samarra
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, sem heyrir undir Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, leiðir verkefnið í náinni samvinnu við nokkur setra skólans, Hafrannsóknastofnun og fleiri stofnanir víða um land.
Markmið verkefnisins er að:
- Koma á fót sjálfvirkum fjölnota hafvöktunarstöðvum sem safna langtímagögnum um hitastig, haffræðilega þætti, botngerð, ferðir fiska, sjávarspendýra o.fl.
- Nýta í auknum mæli sjálfvirka kaf- og yfirborðsbáta til að safna upplýsingum með lágmarkskostnaði.
- Tryggja opinn aðgang að tækjum og gögnum fyrir vísindasamfélagið, menntastofnanir og aðra hagaðila.
- Efla kennslu og þátttöku nemenda, háskóla og ungra vísindamanna í hafrannsóknum með nútímalegum og hagkvæmum lausnum.
- Styðja við alþjóðlegt vísindasamstarf um hafvöktun og stuðla að því að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar í hafrannsóknum, þar á meðal stefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika og áratug hafsins.
„MÁNI mun skapa ný tækifæri til rannsókna á breytingum í hafinu og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni. Með því að nýta nýjustu tækni og samstarfsnet vísindastofnana víða um land bætum við getu til hafrannsókna, aukum möguleika til kennslu og nemendaverkefna, og eflum vitund almennings um mikilvægi hafsins,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum sem leiðir verkefnið.

Brugðist við alþjóðlegum skuldbindingum um vöktun og verndun hafsins
Vísindamenn við Rannsóknasetur Háskóla Íslands víða um land státa af mikilli reynslu af rannsóknum á lífríkinu í hafinu. Þau hafa m.a. rannsakað vistfræði og ferðir hvala, vistfræði þorskseiða á uppeldisstöðvum, áhrif fiskilúsar á villta fiska, mengun í hafinu, áhrif þorskveiða fyrr á öldum á stofninn og áhrif nýrra tegunda, s.s. grjótkrabba og flundru, hér við land.
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.
„MÁNI mun skapa ný tækifæri til rannsókna á breytingum í hafinu og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni. Með því að nýta nýjustu tækni og samstarfsnet vísindastofnana víða um land bætum við getu til hafrannsókna, aukum möguleika til kennslu og nemendaverkefna og eflum vitund almennings um mikilvægi hafsins,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum sem leiðir verkefnið.
Hún bendir á að með verkefninu sé einnig verið að bregðast við auknum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands til fjölbreyttari rannsókna, verndar og vöktunar á hafinu sem tengist samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem kveður á um að vernda 30% hafsvæða fyrir 2030. „Slík markmið krefjast umfangsmikillar gagnasöfnunar og eftirfylgni með reglubundinni vöktun. Lausnin felst að hluta til í hagkvæmari og sjálfvirkari lausnum en ekki síst í aukinni samvinnu. Ísland er lítið land en með því að sameinast um markmið getum við náð árangri. Eins og segir í slagorði Hafáratugs Sameinuðu þjóðanna: Rannsóknirnar sem við þurfum fyrir hafið sem við viljum.“
Gjörbyltir möguleikum til að fylgjast með tegundum við landið
Filipa Samarra, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, er meðal annarra fulltrúa úr Rannsóknasetrum HÍ sem koma að rannsókninni. Hún og samstarfsfólk hafa í rannsóknum sínum lagt áherslu á félagslega hegðun hvala, hljóðsamskipti, búsvæðanotkun og vistfræði fæðunáms.
Filipa Samarra, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum.
„MÁNI mun mun gjörbylta möguleikum okkar til að fylgjast með hljóðheimi hafsins í kringum Ísland og, það sem mestu máli skiptir, að meta líffræðilegan fjölbreytileika á grundvelli hljóðtækni. Margar tegundir hryggleysingja, fiska og sjávarspendýra í hafinu í kringum landið nota hljóð til samskipta og hægt er að fylgjast með dreifingu þeirra með upptökum á þessum hljóðum (e. Passive Acoustic Monitoring (PAM)). Við stefnum að því að setja upp net neðansjávarhljóðnema byggt á þess konar hlustun sem verður nýtt á lykilstöðum í kringum Ísland og til að vakta ýmsar tegundir á þeim slóðum allan ársins hring. Þar sem hægt er að nota PAM í langan tíma og við ólík veðurskilyrði, ólíkt öðrum vöktunaraðferðum eins og mælingum sem eru háðar sjólagi, mun þetta auka skilning okkar á sveiflum í viðveru ýmissa tegunda á þessum svæðum yfir árið og milli ára,“ segir Filipa.
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, og Filipa Samarra, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, eru meðal þeirra sem koma að verkefninu MÁNI.