Hljóðlaus myndbönd henta vel í stærðfræðikennslu
„Hljóðlaus myndbönd eru stuttar teiknimyndir sem sýna stærðfræði á kvikan hátt án orða eða texta,“ segir Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, en hún vinnur að rannsókn um stærðfræðikennslu í framhaldsskólum um þessar mundir. „Um ýmis stærðfræðihugtök gildir að auðveldara getur reynst að útskýra þau með kvikri mynd þar sem gildi breyta má ákveða með rennistikum og myndin breytist í kjölfarið. Nemendur fá það verkefni í tveggja manna hópum að undirbúa og taka upp talsetningu við hljóðlaust myndband. Þeim er bent á að útkoman gæti gagnast einhverjum þeim sem vilji skilja betur stærðfræðina sem sést í myndbandinu. Í kjölfarið getur kennari síðan valið úr úrlausnum til að sýna í næsta tíma og ræða nánar auk þess sem tækifæri gefst til að beina sjónum nemenda að mikilvægi nákvæmni í orðavali og ýmiss konar algengum misskilningi tengdum viðkomandi stærðfræðihugtaki eða -hugtökum,“ útskýrir Bjarnheiður. Verkefni sem þessi eru ný af nálinni og er markmiðið að kanna væntingar framhaldsskólakennara til þeirra og reynslu þeirra af því að nota þau.
Bjarnheiður starfaði áður sem stærðfræðikennari við Menntaskólann við Hamrahlíð. „Freyja Hreinsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, hafði samband við mig þar sem hún hafði heyrt að ég ynni með hugbúnaðinn GeoGebra í stærðfræðikennslu. Í framhaldinu fékk ég góðfúslegt leyfi skólastjórnenda til að taka þátt í þróunarverkefni sem Freyja stýrði á vegum Nordic & Baltic GeoGebra Network (NGGN), en það er norræn-baltneskt samstarfsnet kennara og menntafræðinga í stærðfræði. Haustið 2013 tók ég þátt í stofnun þróunarhóps og í því starfi fæddist hugmyndin að hljóðlausum myndböndum í stærðfræðikennslu,“ segir Bjarnheiður um upphaf verkefnisins. „Hugmyndin kom upprunalega frá Freyju Hreinsdóttur, litháíska stærðfræðikennaranum Rokas Tamošiûnas og sænska prófessornum Thomas Lingefjärd en ég tók þátt í þróunarstarfi og kennslutilraun ásamt þeim haustið 2014. Tilraunin náði til u.þ.b. 450 nemenda í fimm löndum og lutu niðurstöðurnar að upplifun nemenda en gáfu einnig vísbendingar um upplifun kennara. Þær voru spennandi og vöktu hjá mér margar spurningar. Stuttu síðar sá ég auglýsta stöðu doktorsnema í stærðfræðimenntun á framhaldsskólastigi og ákvað að sækja um og þróa rannsóknarverkefni byggt á þessari reynslu.“
Frumniðurstöður benda til þess að verkefni á borð við þessi geti gagnast kennurum vel til að brjóta upp kennslustarf og til að átta sig á því hvar skóinn kreppir, þ.e. hvað þurfi að ræða nánar varðandi kennsluefnið. Verkefnin eru ekki tímafrek og því sé auðvelt að skjóta þeim inn í annars þéttpakkaða dagskrá kennara í framhaldsskólum. „Nemendur í stærðfræði á framhaldsskólastigi eru óvanir því að tala stærðfræði. Það er mun algengara að sitja og hlusta á kennara eða reikna dæmi úr kennslubókum. Við það að undirbúa talsetningu og að tala inn á hljóðband kvikna oft önnur hugsanatengsl en þegar skrifað er. Eftir á getur verið skrítið að heyra eigin rödd en þegar kennari beinir athyglinni að því sem sagt er þá geta umræðurnar í framhaldinu stuðlað að því að nemendur skilji betur þau hugtök sem unnið er með og sjái þau frá öðru sjónarhorni,“ segir Bjarnheiður að endingu og ítrekar það að tala stærðfræði auki fjölbreytni í skólastarfi. Fyrir nemendur sé það oft kærkomin nýjung og gagnist sérstaklega þeim sem eiga auðveldara með að tjá sig í töluðu máli en rituðu.
Þess má geta að verkefni Bjarnheiðar hlaut styrk úr sjóði Steingríms Arasonar í október.