Hjartamagnýl dregur úr dauðsföllum af völdum alvarlegrar lungnabólgu
„Gamla lyfið, acetýlsalicýlsýra, sem er betur þekkt sem aspirín, magnýl, eða hjartamagnýl, virðist hafa sterk og tölfræðilega marktæk verndandi áhrif gegn dauðsföllum meðal þeirra sem greinast með alvarlega lungnabólgu af völdum algengustu lungnabólgubakteríunnnar, sem kölluð er Streptococcus pneumoniae á fagmáli.“
Þetta segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum við Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala, um niðurstöður í nýrri rannsókn sem unnin er af vísindafólki Háskóla Íslands og Landspítala. Í vikunni birtist grein í hinu virta tímariti Journal of Internal Medicine þar sem þessar niðurstöður eru dregnar fram en greinin byggist á rannsókn Kristjáns Godsk Rögnvaldssonar sem doktorsnemi við Læknadeild HÍ og læknir á Landspítala. Magnús Gottfreðsson er leiðbeinandi hans í verkefninu.
Frumútgáfa greinarinnar hefur verið birt á netinu en höfundar hennar eru ásamt Magnúsi og Kristjáni þeir Agnar Bjarnason, læknir og lektor við Læknadeild, Karl Kristinsson, læknir, Hörður Tryggvi Bragason, læknanemi við HÍ, Helga Erlendsdóttir lífeindafræðingur og Guðmundur Þorgeirsson, læknir og prófessor emeritus við HÍ.
„Þessi verndandi áhrif komu strax fram og voru raunar sterkust í bráðafasa sýkingarinnar, en þá er einmitt verulega aukin hætta á ýmiss konar fylgikvillum eins og hjartabilun og kransæðastíflu og dánartíðnin er há. En áhrifin entust í eitt ár og líklega lengur sem er afar merkilegt. Þetta á við um þá sem eru að taka lyfið þegar þeir veikjast eftir að leiðrétt hefur verið fyrir hugsanlegum bjögum,“ segir Magnús.
Rannsóknarúrtakið náði til heillar þjóðar
Þeir Magnús og Kristján segja það sérstakt við rannsóknina að hérlendis hafi verið hægt skoða mjög stóran hóp með alvarlega sýkingu af völdum einnar og sömu bakteríunnar og fylgja hópnum eftir í langan tíma. Þeir segja að rannsóknarúrtakið hafi náð til heillar þjóðar yfir 45 ára tímabil og lifun hafi verið könnuð allt að einu ári eftir lungnabólguna. Í heildina voru í rannsókninni 815 tilvik sýkingarinnar.
„Með því að fara yfir allar sjúkraskrár sem tiltækar voru á landinu var því komið í veg fyrir að sérstakir undirhópar sjúklinga væru skoðaðir en aðrir skildir eftir, sem er algengt í erlendum rannsóknum, og þá er erfiðara að yfirfæra niðurstöðurnar á stærri hópa,“ segir Magnús og bætir því við að einnig teljist merkilegt að aspirín sé selt án lyfseðils og margir taki það án samráðs við lækni.
„Það er því ekki gerlegt að framkvæma svona rannsókn með því að skoða aðeins lyfjaávísanir lækna eða afgreiðslu lyfja úr apótekum. Það er einnig nokkuð magnað að sjá hversu sterk áhrifin af lyfinu eru í þessum hópi sjúklinga, en hér er um mjög ódýra og aðgengilega meðferð að ræða.“
Lausn á stórum vanda?
Þegar vikið er að mikilvægi þessara niðurstaða svara þeir því að alltaf sé gaman að uppskera, ekki síst ef biðin hafi verið löng og niðurstöðurnar spennandi.
„Þá er ánægjulegt að geta deilt þeim með vísindasamfélaginu. Þetta er rannsókn sem í reynd hófst fyrir rúmum 15 árum en það hefur tekið langan tíma að safna gögnum og margir hafa lagt hönd á plóg til að verkefnið yrði að veruleika. Tímaritið sjálft skiptir auðvitað líka máli, en Journal of Internal Medicine er mjög virt tímarit á sviði læknisfræði almennt og lyflækninga, stofnað árið 1863. Við birtum greinina í opnum aðgangi til að tryggja að niðurstöðurnar væru öllum aðgengilegar og vonumst til að þær verði hvati til frekari rannsókna og samstarfs.“
Aðspurðir um hvort hér sé komin lausn á stórum vanda svara þeir því til að ekki sé tímabært að ráðleggja öllum sem greinast með lungnabólgu að taka aspirín til viðbótar við aðra meðferð en hins vegar væri fyllsta ástæða til að rannsaka málið nánar með meðferðartilraun.
Sjúklingar á hjartamagnýli með marktækt betri lifun
Þegar vikið er nánar að rannsókninni segja þeir félagar að hún sé afturskyggn og nái yfir öll tilfelli þar sem sjúklingar lögðust inn á sjúkrahús með lungnabólgu og blóðsýkingu af völdum lungnabólgubakteríunnar Streptocococcus pneumoniae sem gjarnan er kölluð pneumókokkar á Íslandi. Árabilið sem var undir í rannsókninni náði frá 1975 til 2019.
„Lifun þeirra sjúklinga sem voru á hjartamagnýli við komu var borin saman við lifun þeirra sem voru ekki á lyfinu við innlögn. Leiðrétt var fyrir mun milli hópanna með líkindaskori og lifun hópanna borin saman með tölfræðilegri aðferð sem kölluð er cox-aðhvarfsgreining. Þeir sjúklingar sem voru á hjartamagnýli reyndust hafa marktækt betri lifun 90 dögum og einu ári eftir sýkinguna miðað við ef þeir hefðu ekki verið á lyfinu. Athygli vekur að mesti munurinn kom fram á allra fyrstu dögunum eftir sýkinguna,“ segir Kristján.
Doktorsneminn Kristján segir að þessi rannsókn gefi vísbendingar um verndandi áhrif hjartamagnýls meðal þeirra sem stríða við alvarlega lungnasýkingu af völdum lungnabólgubaktería. „Mikilvægt er þó að slá þann varnagla að hér var ekki um slembaða meðferðartilraun að ræða og hugsanlega er til staðar einhver undirliggjandi þáttur sem skýrir þessi áhrif sem var ekki leiðrétt fyrir. Frekari rannsóknir þarf því til að staðfesta eða hrekja niðurstöðurnar.“
Rannsóknarhópurinn og höfundar greinarinnar leggja því til að framkvæmd verði slembiröðuð tvíblind lyfjarannsókn á tilfellum með lungnabólgu meðal þeirra sem eru í aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómi.