Skip to main content
16. september 2024

Hinum megin við borðið á Bangsaspítalanum 14 árum síðar

Hinum megin við borðið á Bangsaspítalanum 14 árum síðar - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Bangsarnir fengu svínaflensusprautu“. Þetta var yfirskrift greinar sem birtist í Tímariti Háskóla Íslands árið 2010. Þar sagði af hinum vinsæla Bangsaspítala sem hefur fyrir löngu unnið hug og hjörtu íslenskra barna og leikfanga þeirra. Greininni fylgdi mynd af ungri stúlku sem kom með bangsann sinn til skoðunar hjá læknanemum Háskóla Íslands á þeim tíma. Þessi unga stúlka, Guðrún Edda Min Harðardóttir, hefur nú hafið læknanám í Háskóla Íslands og var hinum megin við læknaborðið nú um helgina þegar fjöldi barna lagði leið sína á Bangsaspítalann með fársjúka og slasaða bangsa og dúkkur í skoðun.

Lýðheilsufélag læknanema rekur hinn árlega Barnaspítala. Markmið hans er tvíþætt, annars vegar að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna og heilbrigðisstarfsfólk og hins vegar að gefa læknanemum tækifæri til að æfa samskipti við börn og aðstandendur þeirra. 

Hefð er fyrir því að nemendur á fyrsta ári í læknisfræði standi vaktina á Bangsaspítalanum og að þessu sinni var tekið á móti tætingslegum tuskudýrum á fjórum heilsugæslustöðvum. Fjöldi barna lagði leið sína á stöðvarnar ásamt forráðamönnum og eftir að hafa innritað bangsann lá leiðin inn á læknastofu þar sem læknanemar skoðuðu dýrið og veittu því þá aðhlynningu sem það þurfti á að halda.

Man eftir bangsanum með plástur

Guðrún Edda stóð vaktina í heimabæ sínum, Hafnarfirði, nánar tiltekið á heilsugæslunni Sólvangi. „Ég er á minni heilsugæslu sem er mjög gaman og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ sagði Guðrún Edda þegar við heyrðum í henni fyrir helgi.

Sjálf man hún lítið eftir því þegar hún heimsótti Bangsaspítalann á sínum tíma „en ég man vel eftir bangsanum sem ég fór með og að hann fékk fínan plástur sem hann er reyndar enn þá með“.

timarit

Greinin sem birtist í Tímariti HÍ 2010. Á myndinni má sjá Guðrúnu Eddu með bangsann sinn í skoðun hjá læknanemum. Myndina tók Kristinn Ingvarsson.

Mögulega hefur einhverjum fræjum verið sáð með þessari heimsókn en sjálf segir Guðrún Edda að áhugi hennar á læknisfræði hafi þó ekki kviknað fyrr en fyrir nokkrum misserum. „Það var eiginlega bara á síðustu önninni í framhaldsskóla sem ég ákvað að stefna á læknisfræði og fara þá í inntökuprófið. Þetta byggðist reyndar smám saman upp. Ég hef alltaf verið fín í raungreinum og finnst þær skemmtilegar en svo fór ég líka í líffærafræðiáfanga í framhaldsskóla sem mér fannst mjög skemmtilegur og það jók áhuga minn á mannslíkamanum,” segir þessi hógværi læknanemi sem var dúx Flensborgarskólans í Hafnarfirði um jólin 2022 og lauk stúdentsprófi á aðeins tveimur og hálfu ári.

Guðrún Edda á enn bangsann góða sem hún mætti með á Bangsaspítalann fyrir um 14 árum. Bangsinn er enn með plásturinn.

Afrekskona í fimleikum

Guðrún Edda, sem var afrekskona í fimleikum og var m.a. í landsliði Íslands í greininni, segir að í gegnum íþróttaiðkun frá barnsaldri hafi hún þurft að huga að líkamanum og m.a. komist í kynni við ýmsar heilbrigðisstéttir og það hafi líka haft áhrif á námsvalið. „Ég hef líka verið að vinna á hjúkrunarheimili að undanförnu sem hefur aukið áhuga minn á læknisfræðinni enn frekar en þar er ég að vinna með læknanemum, hjúkrunarfræðingum og fleiri heilbrigðisstarfsfólki,“ segir hún.

Þar sem annir eru miklar í náminu þurfa fimleikarnir nú víkja hjá Guðrúnu Eddu en afreksfólk eins og hún æfir marga klukkutíma á dag flesta daga vikunnar. „Þetta var stór ákvörðun því ég hef æft fimleika í 16 ár en ég veit að ég er alltaf velkomin upp í fimleikasal ef ég vil fara á æfingu og gera gamlar æfingar,“ segir þessi mikla afrekskona sem hlaut m.a. styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands þegar hún innritaðist í HÍ. 

afrekssjodur

Guðrún Edda tekur við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við innritun í HÍ. Með henni er Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ. MYND/Gunnar Sverrisson

Mjög spennt fyrir náminu

Um mánuður er síðan Guðrún Edda hóf læknisfræðinám ásamt 75 öðrum nemum. Nýnemar í greininni hafa aldrei verið fleiri og helgast það af áformum stjórnvalda um að fjölga í heilbrigðisstéttum í takt við fjölgun þjóðarinnar. 

Aðspurð segir Guðrún Edda að henni lítist mjög vel á námið. „Mér finnst þetta mjög spennandi nám. Ég er núna í námskeiðum í efnafræði og eðlisfræði sem er gaman en ég hlakka mikið til að fara í líffærafræðina síðar á önninni. Svo er bekkjarandinn mjög góður þrátt fyrir að hópurinn sé stór og það hjálpar mjög mikið. Ég hlakka því mjög til að sjá hvað næstu ár bera í skauti sér, bæði hvað varðar námið og félagslífið með samnemendum mínum,” segir Guðrún Edda um skólasystkini sín sem flest stóðu vaktina á Bangsaspítalanum um helgina. 

Þau börn sem ekki gátu heimsótt Bangsaspítalann um helgina þurfa ekki að örvænta því læknanemar standa einnig vaktina á Bangsaspítalanum á Vísindavöku í Laugardalshöll laugardaginn 28. september.

Guðrún Edda hlúir að dúkku á Bangsaspítalanum um helgina