HÍ kemur að 18 verkefnum sem fá styrk úr Samstarfi háskóla
Alþjóðlegt dýralæknanám, nám í hamfarafræði, rannsóknamiðstöð sjálfsvíga, nám í lagareldi, meistaranám í heilsugæsluhjúkrun, rannsóknastofnun í geimvísindum og aðstaða sem styður við kennslu og þróun á sviði hátæknilandbúnaðar á Íslandi eru meðal þeirra verkefna sem Háskóli Íslands kemur að og fengu styrk við þriðju úthlutun úr sjóðnum Samstarf háskóla. Alls kemur skólinn að 18 af þeim 19 verkefnum sem hljóta styrk að þessu sinni sinni.
Tæplega 900 milljónum króna var úthlutað úr sjóðnum að þessu sinni en markmið hans er að stuðla að auknu samstarfi milli háskóla á Íslandi með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og bæta samkeppnishæfni háskólanna.
Fram kemur á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins að 42 umsóknir um styrki hafi borist að þessu sinni samanlagt að upphæð 2,7 milljarðar króna en við val á verkefnum var horft til fjögurra megináherslna:
- Sameiningu háskóla og áframhaldandi uppbyggingu háskólasamstæðu.
- Rannsóknainnviða með áherslu á opin og ábyrg vísindi og uppbyggingu gagnainnviða sem stuðlað geta að ábyrgri þróun gervigreindar.
- Aukins sveigjanleika í námi og möguleika nemenda til þess að púsla saman mismunandi námskeiðum til að öðlast ákveðna hæfni.
- Alþjóðasamstarfs sem er til þess fallið að styðja við stafræna þróun, grænar áherslur, samfélagslegar áskoranir, samkeppnishæfni og sókn í erlenda sjóði.
Hæsta styrkinn að upphæð 170 milljónir króna hlutu Háskóla Íslands og Háskólinn á Hólum í tengslum við undirbúning háskólasamstæðu skólanna tveggja.
Auk þess verkefnis var eftirfarandi verkefnum tengdum HÍ boðið til samninga um stuðning úr sjóðnum:
Hamfarafræðinám – í samstarfi við HR, LBHÍ, HB og HA – Verkefnið leggur grunninn að þverfaglegu meistara- og diplómanámi í hamfarafræðum með virkri þátttöku fimm íslenskra háskóla og þriggja lykilstofnana á sviðinu.
Heilsugæsluhjúkrun – í samstarfi við HA – Unnið er að því að setja á fót nýtt klínískt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun sem kennt verður sameiginlega við HA ogHÍ. Sérstök áhersla verður lögð á að kennsluhættir verði rafrænir.
MSHL - stafrænir innviðir – í samstarfi við HR og LHÍ – Verkefnið snýst um að gera stafræn gögn um íslenska menningu og listir aðgengileg á ábyrgan hátt með nýjum lausnum og samningum sem tryggja persónuvernd og höfundarrétt.
Alþjóðlegt dýralæknanám – í samstarfi við LBHÍ og HH – Markmið verkefnisins er að hefja formlegt samstarf um dýralæknanám milli LbhÍ, Keldna, HÍ, HH og SGGW í Póllandi. Miðað er við að fyrstu tvö árin verði kennd á Íslandi en síðan fari nemendur til SGGW.
Endurskoðun námskrár í hjúkrun – í samstarfi við HA – Markmið verkefnisins er að samræma í auknum mæli námsskrár BS- og MS-náms í hjúkrunarfræði við HÍ og HA en verið er að endurskoða námskrá í hjúkrunarfræði með tilliti til samfélagslegra breytinga, breytinga á námi og þeirra veikinda sem sjúklingar eru að kljást við.
Háskólaskrifstofa í Brussel – í samstarfi við HR – Verkefnið snýr að stofnun íslenskrar háskólaskrifstofu í Brussel. Hlutverk hennar er að auka alþjóðlegan sýnileika allra íslenskra háskóla, fylgjast betur með og miðla stefnumótun ESB á sviði háskóla, rannsókna og nýsköpunar til háskólanna, hafa áhrif á mótun auglýsinga en ekki síst að auka styrkjasókn.
Hátæknilandbúnaður – samstarfi við LBHÍ og HR – Komið verður upp aðstöðu sem styður við kennslu og þróun á sviði hátæknilandbúnaðar á Íslandi. Markmiðið er að bæta samkeppnishæfni með gagnadrifinni sjálfvirkni sem byggir á öflugri úrvinnslu (s.s. með gervigreind) yfir alla virðiskeðjuna til að auka virði, geymsluþol og útflutningsverðmæti afurða.
Kennsluþróun á sviði kynheilbrigðis – í samstarfi við HA – Verkefnið felur í sér samstarf um að efla kennslu um kynheilbrigði innan heilbrigðisvísinda og auka aðgengi nemenda um allt land að námi um kynheilbrigði á háskólastigi.
Nám í lagareldi – í samstarfi við HH, LBHÍ og HA – Markmið verkefnisins er að efla enn frekar lagareldisnám með því að byggja upp og kenna ný námskeið á meistarastigi, þróa örnám í lagareldi á grunn- og meistarastigi og þróa aðferðir og kennsluefni til að auka kennslu námskeiða í fjarnámi.
Norðurslóðarannsóknir á Íslandi – í samstarfi við HA – Skipulagðar verða fjórar þematengdar vinnustofur með þátttöku innlendra rannsakenda. Verkefnið mun styrkja norðurslóðasamsamstarf hérlendis og efla sókn innlendra aðila í alþjóðlega samkeppnissjóði.
Rannsóknainnviðir fyrir jarðhita – í samstarfi við HR – Stefnt er að uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu fyrir rannsóknir á nýtingu jarðhitavökva. Oft er hugmynd að búnaði til staðar en ekki hægt að koma henni í framkvæmd þar sem aðstöðu vantar til prófana.
Rannsóknamiðstöð sjálfsvíga – í samstarfi við HA og HR – Verkefnið er að stofna miðstöð um rannsóknir á sjálfsvígum, orsakaþáttum þeirra, afleiðingum og forvörnum hér á landi í samvinnu háskóla og heilbrigðisstofnana. Ráðgert er að miðstöðin verði starfrækt við Háskólann á Akureyri.
Velsældarfræði – í samstarfi við HR og HA – Verkefnið miðar að því að búa til þverfaglegt MS-nám í velsældarfræðum í samstarfi við Embætti landlæknis og Háskólann í Surrey. Nemendur frá ýmsum sviðum frá þjálfun í að vinna saman að lausnum sem auka velsæld fólks og samfélagsins, þar sem greinar eins og heilbrigðisvísindi, hagfræði, viðskipti, sálfræði, félagsfræði og stjórnmálafræði koma við sögu.
Rannsóknastofnun Íslands í geimvísindum – í samstarfi við LHÍ og HA – Í samvinnu við Geimvísindastofnun Íslands munu háskólarnir stofna rannsóknastofnun í geimvísindum (IRISS) sem mun auðvelda samvinnu milli erlendra og innlendra vísindamanna, nemenda, verkfræðinga og hönnuða á sviði geimvísinda.
Rannsóknarsetur um netöryggisfræði – í samstarfi við HR og HA – Stofnuð verður rannsóknarmiðstöð á sviði netöryggis og ætlunin er að þrópa doktorsnám með áherslu á áskoranir í netvörnum og tækifæri í netöryggi sem felast í nýlegum framförum í gervigreind.
Bætt heilsa eftir áföll – í samstarfi við HR – Markmið verkefnisins er að kanna gagnsemi einfalds og aðgengilegs stafræns inngrips sem ætlað er að draga úr áfallatengdum minningum og bæta þannig langtíma heilsufar í kjölfar áfalla.
Framhaldsnám og rannsóknainnviðir í lífvísindum – í samstarfi við HR, LBHÍ, HH og HA – Stofnaður verður vettvangur fyrir rannsakendur og nemendur í STEM-greinum til að auka samstarf saman þvert á stofnanir. Jafnframt verður sett á laggirnar námskeið í lífvísindum fyrir framhaldsnemendur. Settir verða upp verkferlar um nýtingu rannsóknainnviða í erfðatækni og smásjármyndgreiningu og úrvinnslu og varðveislu gagna. Hagrætt verður í innkaupum á rannsóknavörum með markvissri kortlagningu.
„Árangur Háskóla Íslands við úthlutun úr Samstarfi háskóla er afar glæsilegur. Hann undirstrikar vel hversu fjölþætt og traust samstarf skólans er við aðra háskóla og stofnanir hér á landi og um leið hvernig námsframboð skólans er í stöðugri endurskoðun og þróun til þess að mæta þeim áskorunum sem samfélagið fæst við. Ég óska styrkþegum öllum innilega til hamingju og velgengni í þróun verkefnanna á næstu mánuðum og misserum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Nánari upplýsingar um úthlutunina eru á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpuráðuneytisins