Heilbrigð öldrun og aðgengi utandyra á norðurslóðum
Dagana 21. og 22. nóvember hittist rannsóknarhópur sem stendur að verkefninu „Arctic Healthy Aging communities: Safe and inclusive outdoor environment and public spaces (The Nordic AHA-Communities)” ásamt sérfræðingum. Verkefnið hlaut þriggja ára styrk á síðasta ári frá Nordic Arctic Co-operation Program (NAPA) og er Steinunn A. Ólafsdóttir, lektor við námsbraut í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands, einn af rannsakendum.
Í verkefninu er lögð áhersla á heilbrigða öldrun sem er einn angi af netverki Háskóla norðurslóða sem HÍ á aðild að, UArctic Thematic Network “Health and Well-Being in the Arctic”, og hefur dr. Anastasia Emelyanova við Thule Institute við University of Oulu í Finnlandi umsjón með verkefninu. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig eldra fólk á norðurslóðum í þéttbýli og dreifbýli metur ytra umhverfi sitt og athafnasvæði og hvaða áhrif krefjandi aðstæður á norðurslóðum hafa yfir vetrartímann.
Ásamt Steinunni samanstendur hópurinn af þverfaglegum rannsakendum frá University of Oulu í Finnlandi (Arja Rautio og Anastasia Emelyanova) og Luleå University of Technology í Svíþjóð (Agneta Larsson). Auk þess var tveimur sérfræðingum boðið til fundarins frá Miðstöð lýðheilsuvísinda Grænlandi við National Institute of Public Health in Copenhagen, University of Southern Denmark (Kamilla Nørtoft) og UiT the Arctic University of Norway (Bodil H. Blix).
Á fundinum var farið yfir stöðu verkefnisins og framhald þess:
1. Síðla vetrar 2024 var send póstkönnun til um 2000 einstaklinga 70 ára og eldri á Íslandi og í norðurhluta Finnlands og Svíþjóðar sem teljast til norðurslóða, þar sem m.a. var spurt um og athafnasvæði daglegs líf, útiveru og umhverfi. Rúmlega 800 svör fengust og var farið yfir frumniðurstöður og ákvörðun tekin um áframhaldandi greiningu á gögnunum.
2. Rýnihópaviðtöl við eldra fólk verða tekin í löndunum þremur á vormisseri 2025 sem munu m.a. byggjast á niðurstöðum könnunarinnar.
3. Einnig voru rædd atriði sem tengjast aðferðafræði, kynningu á niðurstöðum og samstarf við hagsmunaaðila.
Stefnt er að því að kynna lokaniðurstöður verkefnisins á UArctic Congress í Færeyjum í maí 2026. Enn fremur verða niðurstöður kynntar á öðrum ráðstefnum og vinnustofum sem og í vísindagreinum.