Skip to main content
12. desember 2016

Hátt í hundrað hugmyndir um eflingu kennaranáms

""

Ríflega þrjátíu starfsmenn og stúdentar tóku þátt í hugarflugsfundi um eflingu kennaranáms þann 29. nóvember síðastliðinn. Ákveðið var að boða til fundarins í framhaldi fundar um kennaraskort með stjórnmálamönnum í byrjun október. Tilgangur fundarins var að safna sem flestum hugmyndum um leiðir til að efla námið og laða fleiri að því.

Hátt í hundrað hugmyndir voru skráðar en þátttakendum var skipt í fimm hópa og var notast við svokallaða „veggjakrotsaðferð“. Nokkrar af þeim hugmyndum sem komu fram hafa verið lengi í umræðunni en aðrar voru nýjar af nálinni.

Aukinn sveigjanleiki, meiri sérhæfing og launaðar námsstöður

Eftirfarandi flokkar voru til umræðu: Efling námsins, hvað er brýnast, aðgerðir Menntavísindasviðs, aðgerðir samstarfsaðila og kynningarmál.

Í hverjum flokki var verkefnum forgangsraðað eftir mikilvægi. Við eflingu námsins þótti brýnast að aðgreina staðnám og fjarnám í stórum námskeiðum, að nemendur taki fleiri einingar í faggreinum og að styrkja samfélag nemenda. Brýnast af öllu þótti að auka launamun milli þeirra sem útskrifast með B.Ed.- og M.Ed.-gráðu, gera nemendum betur kleift að taka námið samhliða starfi, til dæmis með launuðu vettvangsnámi, og að nemendur geti valið hvort þeir kjósi að taka eitt „kandidatsár“ eða tveggja ára rannsóknarmiðað M.Ed.-nám að loknu B.Ed.-námi. Þær leiðir sem þóttu ákjósanlegastar að mati þátttakenda sem varða aðkomu sviðsins er að endurskipuleggja inntak námsins, einfalda framsetningu í kennsluskrá og bjóða upp á sérhæfðari leiðir í náminu.

Þá þykir nauðsynlegt að ríki, sveitarfélög og aðrir samstarfsaðilar komi að því að laða fleiri að náminu, meðal annars með fjárhags- og faglegum stuðningi, og að þessir aðilar beri aukna samfélagslega ábyrgð og standi fyrir öflugu kynningarstarfi. Síðasti flokkurinn var kynningarmál og þar þótti brýnast að koma á laggirnar vel skilgreindu samfélagsverkefni þar sem kennaranemar miðla reynslu sinni, til dæmis í lestrar-/eða stærðfræðikennslu, fara sem víðast með verkefni á borð við „Komdu að kenna“ og greina betur markhópa.

Niðurstöður fundarins eru hugsaðar sem innlegg í umræðu um framtíð kennaranáms en fyrirhugað er að fulltrúar Menntavísindasviðs fundi fljótlega með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands og fleiri aðilum.
 
Fundarstjóri var Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið.

Sjá einnig: Framtíð kennaranáms til umræðu á fundi með Reykjavíkurborg

Barn og kennari
Barn og kennari