Hátt í 200 manns á málþingi HÍ um skólamenningu
Mánudaginn 28. október var haldið málþing um sýn stjórnenda og starfsfólks leik- og grunnskóla á áherslur sem skapa góða skólamenningu. Málþingið, sem skipulagt var í samstarfi Menntavísindasviðs og Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, sóttu um 200 manns í sal og á streymi.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, var fundarstjóri og kynntu Anna Magnea Hreinsdóttir, lektor við Deild kennslu- og menntunarfræði, og Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor í Viðskiptafræðideild, niðurstöður nýrrar rannsóknar sem varpa einstöku ljósi á reynslu í skólum þar sem vel gengur. Niðurstöðurnar beindust að árangursríkum leiðum til að styðja við vellíðan kennara í starfi. Um var að ræða reynslu starfsfólks í skólum sem áður höfðu fengið mjög góða útkomu í könnunum um starfsánægju, samskipti, stjórnun og skólamenningu. Helstu niðurstöður sýndu að stjórnendur lögðu ríka áherslu á góð samskipti á vinnustaðnum og lögðu allt kapp á að stuðla að vinnumenningu sem studdi við hvern og einn starfsmann. Má segja að orð eins stjórnanda, „Við vinnum í því að gera vinnustaðamenninguna góða“, einkenni niðurstöðurnar sem greindust í þrjú þemu. Fyrsta þemað lýsir skýrum ramma með trausti og sveigjanleika, annað þemað sem birtist í viðtölunum var hjálpsemi og mildi og einkenndu fagmennska og ástríða þriðja þemað.
Upptaka frá málþinginu
Í síðari hluta málþings stýrði Björn Gunnlaugsson skólastjóri umræðu um hvernig nýta mætti niðurstöður til hagsbóta fyrir skólastarf hér á landi. Þátttakendur í samtalinu voru fulltrúar skólasamfélags og sveitarfélaga: Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Silja Kristjánsdóttir, grunnskólakennari og deildarstjóri, og Hjördís Símonardóttir, leikskólakennari og deildarstjóri. Meðal leiða sem voru ræddar var að vekja enn frekar athygli á skólum þar sem vel gengur. Lyfta þessum skólum, veita þeim jákvæða endurgjöf og einnig að styðja aðra skóla til að hagnýta þekkingu um góða skólamenningu sem þátttakendur í rannsókninni hafa nýtt sér til hagsbóta fyrir vellíðan kennara og starf skólanna í heild. Brýnt er að nýta styrkleika hvers skóla og allra starfsmanna til að þróa og efla skólamenningu sem valdeflir kennara og verndar þá gegn neikvæðum áhrifum álags í starfi.
Að samtalinu loknu tók Hanna S. Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, saman helst atriðin sem rætt var um á málþinginu en stofnunin vinnur að aðgerðum til að bæta vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum. Rannsóknin er styrkt af Vinnuverndarsjóði, Vinnueftirlitinu og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
Þátttakendur í samtali um hvernig nýta meginiðurstöðurnar voru fulltrúar skólasamfélags og sveitarfélaga: Björn Gunnlaugsson skólastjóri, Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Silja Kristjánsdóttir, grunnskólakennari og deildarstjóri, og Hjördís Símonardóttir, leikskólakennari og deildarstjóri. MYND/Kristinn Ingvarsson
Verðum að nýta betur þekkingu um bætt starfsumhverfi kennara
Unnið er að vinnslu efnis um niðurstöður rannsóknarinnar, bæði fyrir innlend tímarit og bók um vellíðan kennara í norrænu samhengi. „Við töldum mikilvægt að kynna þessar niðurstöður sem fyrst fyrir skólasamfélaginu til að lyfta upp því sem hægt er að gera til að létta álag á kennurum í leik- og grunnskólum landsins,“ sagði Anna Magnea. Undir það tók Sigrún en til undirbúnings málþingsins kortlagði hún einnig fjölda rannsókna í alþjóðlegum gagnagrunni sem tengdust líðan og starfsumhverfi kennara. „Helstu niðurstöður sýndu að í skólunum er lögð rík áhersla á skýrar grunnreglur, eftirfylgni og góð samskipti. Óhemjumikill fjöldi fræðigreina hefur verið skrifað um þetta mikilvæga málefni. Við höfum því aðgengi að mikilli þekkingu um hvað skiptir máli til að bæta starfsumhverfi kennara en verðum að gera mun betur í að nýta þessa þekkingu og styðja við skólastjórnendur í því skyni.“
„Það er þung undiralda í samfélaginu nú þegar kennarar berjast fyrir betri kjörum á sama tíma. Því var afar jákvætt að ná að skapa þetta dýrmæta samtal um þann mikla mannauð sem starfar í leik- og grunnskólum landsins. Samtalið á málþinginu sýndi glöggt fram á hve mikið skólastjórnendur og kennararnir brenna fyrir því að veita börnum sem best námsumhverfi og bera mikla umhyggju fyrir nemendum sínum. Það þarf að horfa á innri þætti, eins og vinnumenningu innan skólanna sem rannsóknin sneri að, og síðan kerfislægari þætti sem geta stutt við innra starfið. Það er verkefni sveitarfélaganna, en ekki síður stjórnvalda og fræðasamfélagsins að vinna með fagfólkinu að því, “ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem eins og fyrr segir var fundarstjóri málþingsins.
Er öllum þeim sem tóku þátt í rannsókninni og málþinginu þökkuð þátttakan.