Háskólinn og heimsmarkmiðin – Heilsa og vellíðan
„Það er mikilvægt að Háskóli Íslands gefi almenningi innsýn í þau merkilegu sjálfbærnimarkmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér. Háskólinn er sífellt að leita svara við þeim áskorunum sem blasa við okkur á hverjum tíma,“ segir Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild sem mun tala á fyrsta fundinum í nýrri viðburðaröð Háskóla Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, mun einnig ávarpa fundinn en saman munu þau beina sjónum að þætti sem snertir okkur öll, heilsu og vellíðan.
Beint streymi verður af viðburðinum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sautján heimsmarkmið sem lýsa stærstu vandamálum og helstu áskorunum sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir. Öll aðildarríkin hafa innleitt nýju markmiðin og hyggjast ná þeim fyrir árið 2030. Gríðarlega mikilvægt er að sérfræðiþekking og rannsóknir séu nýttar til lausnar á þeim viðamikla vanda sem heimsmarkmiðin lýsa og einfaldi samfélögum að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgja.
„Hlutverk háskóla í þessu samhengi er sérstaklega að reyna að varpa ljósi á grundvallarorsakir slíkra vandamála sem í þessu tilfelli geta ógnað heilsu almennings, en jafnframt að prófa nýjar leiðir til forvarna og meðferðarúrræða. Einnig er mikilvægt að samfélag háskólaborgara á hverjum tíma taki þátt í að miðla fræðum til almennings og taki þannig þátt í upplýstri umræðu sem er forsenda þess að lýðræðissamfélög geti takist á við flókin viðfangsefni,“ segir Unnur Anna.
Í nýju viðburðaröðinni, sem hefur fengið heitið Háskólinn og heimsmarkmiðin, mun Háskólinn vinna með stjórnvöldum og mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpa fyrsta fundinn ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor skólans. Forræði og utanumhald með eftirfylgd heimsmarkmiðanna hérlendis er á hendi sérstakrar verkefnastjórnar sem leidd er af forsætisráðuneytinu í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið. Meginhlutverk verkefnastjórnarinnar er að vinna að innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi og greiningu á stöðu Íslands gagnvart undirmarkmiðunum.
Erfðafræði, samspil áfalla og heilsufars og geðheilbrigði
Á fyrsta fundinum í röðinni nýju, sem verður í hádeginu þann 17. október í Hátíðasal Háskóla Íslands, ætla þau Magnús Karl og Unnur Anna að gefa almennt yfirlit yfir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á sviði heilsu og velferðar, bæði í alþjóðlegu tilliti og með fókus á stöðu Íslands. Þau ætla m.a. að beina sjónum að því hvernig gæðamælingar sýna stöðu Íslands og hvernig við getum tryggt aðgengi að heilbrigðiskerfinu fyrir alla.
„Einnig munum við ræða hlutverk grunnrannsókna í að varpa ljósi á þá sjúkdóma sem við er að etja, svo sem með aðferðafræði erfðafræðinnar. Síðan munum við beina sjónum sérstaklega að samspili áfalla, geðheilbrigðis og heilsufars og einnig hvernig heilbrigðisvísindi þurfa að bregðast við þeirri hamfarahlýnum sem nú blasir við heimsbyggðinni,“ segir Magnús Karl.
„Þessi göfugu markmið eru í eðli sínu hnattræn. Þau virða ekki landamæri einstakra landa. Háskóli Íslands sem þátttakandi í alþjóðasamfélagi háskóla er því þátttakandi að skapa þá þekkingu sem nauðsynleg er til lausnar vandamálsins,“ segir Unnur Anna og undir þetta tekur Manús Karl. „Háskólinn þarf að taka höndum saman við þá aðila sem skara fram úr, svo sem við Íslenska erfðagreiningu, til að auka grunnþekkingu okkar á eðli sjúkdóma og skólinn þarf að vinna náið með Landspítala til að geta nýtt þekkinguna sjúklingum til hagsbóta. Við þurfum einnig að halda áfram að stunda öflugar rannsóknir, svo sem á sviði lýðheilsu til að skilja samhengi umhverfis og erfða í þróun sjúkdóma.“
Háleit markmið
Þegar horft er til allra markmiðanna sautján þá er ljóst að margt er undir. Bent hefur verið á að innleiðing heimsmarkmiða sé ekki einungis á hendi stjórnvalda heldur þurfi samhent átak margra ólíkra hagsmunaaðila til þess að þau megi verða að veruleika. Þess vegna vill Háskóli Íslands m.a. að þekkingarsköpun og rannsóknir við skólann hafi víðtæk áhrif og takist á við þær flóknu áskoranir sem Ísland og heimurinn standa frammi fyrir. Með markmiðunum er ætlunin að tryggja góða heilsu og vellíðan allra aldurshópa sem er einmitt viðfangsefni fyrsta fundarins. Útrýma á allri fátækt í öllum myndum alls staðar, binda enda á hungur, tryggja á fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði. Tryggja á gæðamenntun án aðgreiningar með jafnræði að leiðarljósi og skapa tækifæri til símenntunar fyrir alla.
Tryggja á jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Tryggja á aðgengi að vatni og sjálfbæra nýtingu þess, og hreinlætisaðstöðu fyrir alla. Tryggja á aðgengi að áreiðanlegri, sjálfbærri og hreinni orku á viðráðanlegu verði fyrir alla. Ætlunin er að stuðla að varanlegum sjálfbærum hagvexti án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla. Byggja á upp trygga innviði, styðja við sjálfbæra iðnþróun án aðgreiningar og næra nýsköpun.
Draga á úr ójöfnuði innan ríkja og milli þeirra. Gera á borgir og aðrar mannabyggðir öruggar, tryggar og sjálfbærar án aðgreiningar. Tryggja á sjálfbær framleiðslu- og neyslumynstur. Grípa á til bráðaaðgerða til að berjast gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Markmiðið er að vernda og nýta úthöfin, sjó og sjávarauðlindir á sjálfbæran hátt. Ætlunin er að vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, stýra skógum á sjálfbæran hátt, berjast gegn gróðureyðingu og stöðva eða tefja landeyðingu og eyðingu líffjölbreytni. Stuðla á að friðsælum samfélögum án aðgreiningar fyrir sjálfbæra þróun, gefa öllum aðgang að réttlæti og koma á fót skilvirkum, ábyrgum stofnunum án aðgreiningar á öllum stigum. Þá á að styrkja tækifæri til að útfæra og efla alþjóðasamstarf um sjálfbæra þróun.
Hvernig er hægt að ná þessum markmiðum?
Þessi markmið eru sannarlega háleit og því eðlilegt að spyrja sig hvernig Íslendingar og þá Háskóli Íslands og vísindamenn hér, geti stuðlað að því að við náum þeim. „Þessi göfugu markmið eru í eðli sínu hnattræn. Þau virða ekki landamæri einstakra landa. Háskóli Íslands sem þátttakandi í alþjóðasamfélagi háskóla er því þátttakandi að skapa þá þekkingu sem nauðsynleg er til lausnar vandamálsins,“ segir Unnur Anna og undir þetta tekur Manús Karl. „Háskólinn þarf að taka höndum saman við þá aðila sem skara fram úr, svo sem við Íslenska erfðagreiningu, til að auka grunnþekkingu okkar á eðli sjúkdóma og skólinn þarf að vinna náið með Landspítala til að geta nýtt þekkinguna sjúklingum til hagsbóta. Við þurfum einnig að halda áfram að stunda öflugar rannsóknir, svo sem á sviði lýðheilsu til að skilja samhengi umhverfis og erfða í þróun sjúkdóma.“
Unnur Anna bætir segir að við getum lagt mikið til málanna með þeim heildstæðu gögnum sem ná til allrar þjóðarinnar sem íslenskir vísindamenn og eftirlitsstofnanir um heilbrigðisþjónustu hafi safnað saman. „Slík þekking skilar sér til samfélagsins og gerir það að verkum að við erum ekki einungis betur í stakk búin til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til 2030 heldur einnig þeim markmiðum um heilsu sem við kunnum að setja okkur í framtíðinni.“
Beina þarf sjónum að geðheilsu og aðgengi að heilbrigðiskerfinu
Þegar horft er til heilsu og vellíðanar þá er eðlilegt að spyrja hvar þurfi sérstakt átak í okkar nærumhverfi? Hvernig þurfum við að bæta okkar heilbrigðiskerfi og rannsóknir til að markmiðum verði náð? „Við þurfum í auknum mæli að beinum sjónum að geðrænum vandamálum sem valda mikilli sjúkdómabyrgði og ótímabærum dauðsföllum,“ segir Unnur Anna. „Við þurfum að leggja okkur fram við að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu og huga þarf sérstaklega að þeim sem síður hafa gott aðgengi, til dæmis þeim sem búa fjarri helstu byggðarkjörnum og einnig innflytjendum.“
Magnús Karl segir að við þurfum að huga þeim ögrunum sem við blasi með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og megi þar sérstaklega nefna heilabilun. „Einnig er hamfarahlýnun að færa okkur nýjar áskoranir sem snerta heilsufar þjóða.“
Fundurinn verður þann 17. október kl. 12 til 13:30 í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og eru öll velkomin með húsrúm leyfir.