Háskólinn hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2023
Háskóli Íslands er meðal þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), í ár en verkefnið snýst um að jafna hlut kynjanna í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Jón Atli Benediktsson rektor tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar sem var haldin í húsakynnum RÚV og var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV fyrr í vikunni.
Jafnvægisvogin hefur það markmið að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja og stofnana í íslensku viðskiptalífi þannig að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum. Jafnframt er verkefninu m.a. ætlað að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
Háskóli Íslands hefur tekið þátt í verkefninu frá árinu 2020 en í því felst að skólinn skuldbindur sig til að vinna stöðugt að því að jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnendastöðum. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, er hér með viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir árið 2023.
Á árlegri ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar voru veittar viðurkenningar til þeirra aðila sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar en mat á árangri er í höndum sérstaks jafnvægisvogarráðs. Metfjöldi fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana hlaut viðurkenninguna að þessu sinni eða 89.
Á ráðstefnunni var jafnframt kynnt mælaborð sem varpar ljósi á stöðuna í jafnréttismálum í atvinnulífinu í dag og þá voru flutt erindi sem snerta jafnréttismál á breiðum grunni. Meðal fyrirlesara var Ásta Dís Óladóttir, prófessor við HÍ og formaður Jafnvægisvogarinnar.
Upptöku af ráðstefnunni má finna hér
Að hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.