Skip to main content
4. desember 2025

Háskóli Íslands og Landspítali halda sameiginlega vísindaráðstefnu vorið 2026

Vísindi á vordögum ráðstefna

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og Landspítali hafa ákveðið að halda sameiginlega vísindaráðstefnu í apríl 2026.

Stofnanirnar hafa hingað til haldið hvor sína ráðstefnuna en með því að taka höndum saman er stefnan sett á að efla vísindastarf enn frekar. Sameiginlega ráðstefnan verður haldin undir heitinu Vísindi á vordögum.

„Í ljósi smæðar samfélagsins þá þykir okkur skynsamlegt að leggja saman okkar krafta varðandi til að mynda innviði og reyna með þeim hætti að skapa sameiginlegt vísindasamfélag á sviði heilbrigðisvísinda,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, segir vísindarannsóknir hluta af grunnstarfsemi háskólans auk þess sem þær séu undirstaða þess gæðastarfs sem unnið er á sjúkrahúsum og í háskólanum. Á ráðstefnunni kynni bæði ungir vísindamenn sínar fyrstu rannsóknir en einnig kynni þekktir, reynslumiklir rannsakendur sínar niðurstöður. „Þetta er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag, bæði vísindasamfélagið en ekki síður samfélagið í heild.“

Runólfur tekur undir þetta og segir að þótt þarna gefist ungu vísindafólki gott tækifæri til að kynna rannsóknir sínar sé tilgangurinn ekki síður að ná vísindafólkinu saman. „Við ætlum að reyna að gera allt sem við getum til að draga fólk að og halda merki vísindanna á lofti.“

Unnur segir miklar framfarir eiga sér stað í heilbrigðisvísindum um þessar mundir. „Við þurfum að hittast, helst árlega, til þess að nálgast hlutina frá ólíkum hliðum.“

Hér má sjá viðtalið við þau Unni Önnu og Runólf.

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Nordica Reykjavík 8. og 9. apríl 2026.

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor og forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. MYNDIR/Kristinn Ingvarsson