Skip to main content
21. september 2016

Háskóli Íslands áfram í hópi 250 bestu háskóla í heimi

""

Háskóli Íslands heldur sæti sínu á lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims sjötta árið í röð. Þetta varð ljóst í kvöld þegar nýr listi tímaritsins var birtur. Rektor Háskóla Íslands segir eftirtektarvert að skólinn haldi enn stöðu sinni á listanum en segir blikur á lofti vegna alvarlegrar undirfjármögnunar skólans. Rektor segir það enn fremur skipta Ísland miklu að hafa háskóla svo framarlega á listanum.

Skólinn er nú í sæti 201-250 á lista Times Higher Education en nákvæmari röðun liggur ekki fyrir að svo stöddu. Skólinn var á svipuðum slóðum í hópi þeirra bestu í fyrra en við nánari samanburð við aðra háskóla kom í ljós að Háskólinn var í 222. sæti á heimslistanum. Háskóli Íslands var þá í 13. sæti á lista bestu háskóla á Norðurlöndum. 

Times Higher Education hefur í yfir áratug birt lista yfir bestu háskóla heims og telst hann með þeim allra virtustu. Ítarlegt mat fer fram á frammistöðu háskóla þar sem m.a. er horft til rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Líkt og fyrri ár vega gæði rannsókna og vísindaleg áhrif þeirra, sem metin eru í fjölda tilvitnana, þyngst um stöðu Háskólans á listanum.

Háskóli Íslands er mjög öflugur í rannsóknum og áhrif rannsóknanna mikil

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir stöðu Háskólans á listanum vitna um glæsilegt vísindastarf við skólann þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu skólans síðustu ár og þakkar jafnframt öflugu samstarfi við aðila innan lands og utan. Hann segir það skipta Ísland miklu að hafa háskóla svo framarlega á listanum. Sterk staða Háskólans á listanum hafi vakið athygli á alþjóðavettvangi og skólanum opnast fjölmörg fleiri tækifæri til rannsóknasamstarfs við háskóla í fremstu röð. „Vísindamönnum skólans hefur einnig orðið vel ágengt í sókn í bæði innlenda og erlenda samkeppnissjóði á síðustu árum og þeir þannig náð að afla fjár til metnaðarfullra rannsókna á tímum mikilla þrenginga.“

Nýsamþykkt fjármálaáætlun stjórnvalda ógnar Háskólanum 

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki gert ráð fyrir að háskólarnir njóti þeirrar uppbyggingar innviða sem fyrirhuguð er í samfélaginu. „Það olli okkur gríðarlegum vonbrigðum að sjá að í fjármálaáætluninni er háskólunum ekki gert kleift að sækja fram á næstu árum. Þvert á móti ógnar áætlunin þeim árangri sem náðst hefur og viðvarandi undirfjármögnun Háskólans ár eftir ár kemur í veg fyrir að skólinn geti nýtt til fullnustu þau tækifæri sem sterk staða í rannsóknum býður upp á, samfélaginu öllu til heilla. Með áralangri undirfjármögnun er jafnframt komið í veg fyrir að hægt sé að styrkja innviði kennslu, ekki síst að lækka hlutfall nemenda á kennara sem er einn meginmælikvarði lista Times Higher Education á gæði háskólastarfs. Þetta verður ekki gert nema með tilkomu aukins fjármagns. Ekki er síður mikilvægt að þróa nám í takt við breyttar þarfir nemenda og atvinnulífs í þágu íslensk samfélags en það myndi einnig styrkja stöðu skólans á alþjóðavettvangi enn frekar,“ segir háskólarektor. 

Kallað eftir áherslu á menntamál

Rektor segir að fjármálaáætlunin sé enn fremur í ósamræmi við markmið Vísinda- og tækniráðs, sem lýtur forystu stjórnvalda, um að íslenskir háskólar eigi að standa jafnfætis öðrum norrænum háskólum hvað varðar fjármögnun eftir fjögur ár. „Nýleg könnun leiddi í ljós að tæplega 90% kjósenda telja mikilvægt að menntamál verði til umræðu í komandi kosningum. Ég lýsi eftir forystu í stjórnmálunum um að efla háskólastarf í landinu og þannig stuðla að framþróun í samfélaginu, bættri samkeppnisstöðu landsins til framtíðar og uppbyggingu atvinnulífs,“ segir Jón Atli enn fremur.

Lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Times Higher Education.

Háskóli Íslands komst fyrst á listann á aldarafmæli skólans árið 2011. Hann var þar til í fyrra í kringum sæti 270 á listanum.

Aðalbyggin
Aðalbyggin