Hafa fundið fjórar tegundir maura á höfuðborgarsvæðinu
Mauragengið svokallaða við Líffræðistofu Háskóla Íslands hefur í sumar leitað maura á höfuðborgarsvæðinu og nú þegar fundið fjórar tegundir. Gengið samanstendur af þeim Arnari Pálssyni, prófessor í lífupplýsingafræði, Marco Mancini, Andreas Guðmundssyni og Mariana Lucia Tamayo og vinnur að því að kortleggja dreifingu maura á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, skrá tegundir, stærð maurabúa, hvenær drottningar búanna fari á kreik og fleira.
Sumarverkefnið nýtur stuðnings Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Sumarstarfasjóðs vinnumálastofnunar en það tengist meistaraverkefni Marco Mancini við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands þar sem ætlunin er að skrá fjölbreytileika maura hérlendis, dreifingu og lífsögueiginleika, sem verður grundvöllur athugana á mögulegum skaðlegum áhrifum mauranna á íslensk vistkerfi. Þá er markmið verkefnisins einnig að vekja athygli fólks á tengslum manns við náttúru, lífi í borginni, landnámi tegunda og mögulegri hættu af ágengum tegundum. Þá vilja þau jafnvel hjálpa landsmönnum að yfirvinna skordýrafælni sína.
„Tengsl mannsins við náttúruna hafa farið dvínandi síðustu áratugi með auknum tækniframförum og myndun borga en náttúran og lögmál hennar skipta tilvist okkar enn þá miklu máli. Það birtist meðal annars í veirufaraldri sem dreifist um heimsbyggðina, vistkerfi hafsins sem sjávarútvegurinn byggir á en einnig í landnámi tegunda, sérstaklega tegunda sem geta eða hafa orðið ágengar,“ segir Arnar Pálsson.
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa skráð fundi skordýra sem borist hafa frá útlöndum hingað til lands, meðal annars maura og ávaxtaflugna. En geta maurar lifað utandyra á Íslandi?
„Nær allar tegundir sem finnast hér eru bundnar við mannabústaði, húsamaur í grunnum húsa og sumar tegundir í gróðurskálum. En blökkumaur (Lasius niger), sem er algengasta maurategund í Evrópu, gæti verið eða orðið undantekningin. Blómleg bú Lasius niger hafa fundist í Reykjavík og nálægum sveitarfélögum, utandyra fjarri hituðum byggingum.“
Mauragengið hefur unnið með almenningi og meindýraeyðum og mætir á vettvang ef grunur leikur um mauratilfelli og liðsinnir við eyðingu ef hún er möguleg. Sumar tegundir mynda bú sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að uppræta. Mauragengið hvetur fólk til að senda þeim ábendingar um maura eða pöddur, sem gætu hugsanlega verið maurar, en hægt er að fylgjast nánar með þeim á vefsíðunni þeirra og á samfélagsmiðlum.