Gleði og glaumur í afmæli alþjóðlegs náms í menntunarfræði
Afmæli alþjóðlegs náms í menntunarfræði var haldið á Menntavísindasviði á dögunum. Námið var sett á laggirnar haustið 2007 af kennurum og stjórnendum Kennaraháskóla Íslands, sem áttuðu sig á mikilvægi þess að boðið væri upp á alþjóðlegt nám á ensku hérlendis fyrir þann hóp borgara sem er af erlendu bergi.
Viðburðurinn var afar vel sóttur en hann var skipulagður af nemendum alþjóðanámsins. Dagskráin var nokkuð óhefðbundin að því leyti að flytjendur voru beðnir að stíga á svið tveir og tveir saman og ræða um reynslu sína af fjölmenningu. Þrír nemendur deildu reynslu sinni af náminu og lýstu því hvernig á því stóð að þeir komu til Íslands.
Eliza Reid, forsetafrú Íslands, var heiðursgestur viðburðarins og sagði hún frá því þegar hún fluttist hingað til lands ásamt eiginmanni sínu, Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Hjónin kynntust við Oxford-háskóla í Englandi og lýsti Eliza því hversu mikilvægt það hefði verið í aðlögunarferli hennar að setja sér markmið og lifa áfram sínu sjálfstæða lífi.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tók einnig þátt í dagskránni. Jón Atli fluttist vestur um haf ásamt konu sinni um miðjan níunda áratug síðustu aldar til að stunda framhaldsnám í rafmagnsverkfræði. Með aðstoð góðra skólafélaga aðlöguðust þau vel og þar urðu til félagsleg tengsl sem hafa orðið þeim hjónum einstaklega dýrmæt. Að sögn Jóns Atla stundar mikill fjöldi erlendra nemenda nám við Háskóla Íslands sem sé virkilega jákvætt og styðji við stefnu skólans um að vera öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðlegum vettvangi.
Brynja Halldórsdóttir, lektor og námsbrautarformaður, ræddi loks um upplifun sína af samfélaginu sem barn með tvö þjóðerni. Brynja er fædd á Íslandi en fluttist ung til Bandaríkjanna ásamt bandarískri móður sinni þar sem hún bjó í rúma tvo áratugi. Brynja sérhæfði sig í alþjóðlegri menntunarfræði við Minnesota-háskóla og því var það einstakt tækifæri fyrir hana að fá að leiða alþjóðlega námið þegar hún hóf störf við Háskóla Íslands árið 2013.
Góður andi, samstaða og gleði einkenndi viðburðinn og voru gestir á einu máli um mikilvægi námsins og sérstöðu þess. Ljóst er að hér er á ferðinni spennandi valkostur í flóru námsleiða sem í boði eru innan Háskóla Íslands. Íslenskir nemendur eru hvattir til að kynna sér námið og taka þannig virkan þátt í þróun alþjóðavæðingar.
Sjá einnig: Alþjóðlegur hópur menntunarfræðinema frá tuttugu löndum