Geta skipsflök aukið líffræðilega fjölbreytni í hafinu?

Skipsflök eru kannski ekki æskilegasti hluti hafsbotnsins við fyrstu sýn enda tilkomin af völdum manna og einna helst vegna sjóslysa en þau eru eftir sem áður skilgreind í flestum tilvikum sem menningarminjar. Þegar nánar er skoðað gætu skipsflökin, og gömul yfirgefin hafnarsvæði reyndar líka, einnig haft gildi fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og stuðlað að verndun hafsvæða í samræmi við alþjóðleg markmið um verndun hafsins.
Þetta er að minnsta kosti niðurstaðan úr þverfræðilegu verkefni Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík í samstarfi við Hafrannsóknastofnun en afrakstur þess varð nýlega birtur sem grein í tímaritinu Marine Policy.
Höfundar greinarinnar birtu nýlega nokkurs konar kitlu á efni greinarinnar á samfélagsmiðlum með þessum orðum:
„Yfir 3 milljónir skipsflaka finnast á hafsbotni – og fjölmargar aðrar minjar – þessi svæði geta ekki einungis aukið skilning á fortíðinni heldur líka skipt máli fyrir náttúruvernd. Í nýbirtri grein í tímaritinu Marine Policy er vernd neðansjávaminja á Íslandi greind og rætt hvort skynsamlegt er að nota þessa staði til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem stefna að því að vernda þrjátíu prósent hafsvæða fyrir árið 2030. Fjölmörg skipsflök mynda nefnilega “náttúruleg” friðlönd – stundum innan togslóða.“
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík.
Lykill að nýrri sýn fæst með fjölfræðilegri nálgun
Það hefur vakið athygli margra sem fylgjast með lífríkisrannsóknum hvernig vísindafólk við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík hefur lagt saman ólíkar fræðigreinar og komist að afar áhugaverðum niðurstöðum sem ekki væri unnt að leiða fram ef ekki væri komið að efninu úr mögum ólíkum áttum. Þessi rannsókn tilheyrir þeim flokki.
„Það hafði vakið athygli mína við rannsóknir á dreifingu og ferðum fiska, ekki síst þorskseiða, að það virtust vera mun fleiri seiði við neðansjávarminjar, t.d. gömul hafnarsvæði og skipsflök. Þetta er bara persónuleg athugun og hefur ekki verið sannreynd en engu að síður fannst mér áhugavert að skoða þetta saman, þ.e. lífríkið og menningarminjar neðansjávar. Það eru fjölmargar erlendar rannsóknir sem sýna að líffræðileg fjölbreytni er meiri við skipsflök,” segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður rannsóknasetursins, en hún er einn þriggja höfundar greinarinnar. Hinir höfundarnir eru Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við HÍ sem hefur sérhæft sig í rannsóknum neðansjávar, og Einar Hjörleifsson, sérfræðingur hjá Hafró.
Fjarkönnun notuð við að kortleggja skipsflök
Rannsóknin byggði á margþættri aðferðafræði en vísindafólkið nýtti sér m.a. fjarkönnun, ýmsar ritheimildir og veiðigögn til að kortleggja menningarminjar á hafsbotni.
Fjarkönnun er ört vaxandi rannsóknasvið sem byggist á því að skynja allskyns hluti eða fyrirbæri úr talsverðri eða mjög mikilli hæð og kortleggja í framhaldinu. Þetta er t.d. gert með gervihnöttum, flugvélum eða drónum sem er að verða æ vinsælla og svo er unnið með gögnin í tölvum í framhaldinu.
„Fyrst þurfti að afmarka viðeigandi minjasvæði til þessara greininga en þar byggðum við á umfangsmiklu gagnasafni Ragnars Edvardssonar um flök við Íslandsstrendur,“ segir Guðbjörg. „Þá skiptu fyrirliggjandi greiningar Einars Hjörleifssonar, sérfræðings hjá Hafró, á gögnum úr vöktunarkerfi fiskiskipa mjög miklu en þannig gátum við greint veiðiálag við minjastaðina. Að auki greindum við íslensk lög og stefnu um vernd menningarminja, fórum yfir fjölmiðlaumfjöllun og dómasöfn og tókum viðtöl við fulltrúa opinberra stofnana.”
Ragnar Edvardsson starfar við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík en hann hefur unnið við fornleifarannsóknir neðansjávar um langa hríð m.a. í kringum verstöðvar víða um land og við yfirgefnar hvalveiðistöðvar. Hann hefur líka unnið lengi við kortlagningu skipsflaka úr rituðum heimildum og sú vinna hefur leitt í ljós hvorki meira né minna en 1.144 flök víðs vegar við landið.
„Við kortlagninguna hafa fjölmörg skipsflök verið könnuð og eru þessi flök frá ýmsum tímum, oft ágætlega varðveitt og mikið líf í kringum þau,” segir Ragnar.
Að hans sögn eru helstu niðurstöðurnar úr rannsókninni þær að minjastaðir neðansjávar eru fjölmargir og ágætlega varðveittir og entugir sem staðir til verndunar á líffræðilegum fjölbreytileika. „Frá minjavernd séð,“ segir Ragnar, „sýnir rannsóknin að allt lagaumhverfi á Íslandi til verndunar neðansjávarminja er til staðar en nauðsynlegt er fyrir opinberar stofnanir að leggja aukna áherslu á neðansjávarminjar, þ.e. rannsóknir og skráningu, þar sem það er fyrirséð að hætta sem þeim stafar af ýmiss konar framkvæmdum mun aukast á næstu árum.”
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík og Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við sama setur, hafa lengi unnið saman að fjölbreyttum rannsóknum en með því að leggja saman ólíkar fræðigreinar hafa þau og samstarfsfólk komist að afar áhugaverðum niðurstöðum sem ekki væri unnt að leiða fram ef ekki væri komið að efninu úr mögum ólíkum áttum.

Alveg nýtt að nálgast gögn með svo ólíkum hætti
Þau Guðbjörg og Ragnar segja mikið nýnæmi af rannsókninni og í henni felist nýsköpun með því lagi hvernig gögn séu unnin og þau hagnýtt. „Ég tel að enn sem komið er sé líka bara mjög mikið nýnæmi af öllum rannsóknum á hafvernd á Íslandi enda of litið verið gert í því efni,“ segir Guðbjörg.
„Alþjóðlega felst nýjung rannsóknarinnar meðal annars í því að hún tengir saman gögn um neðansjávarminjar, lagaramma menningarverndar og gögn um hegðun fiskiskipa, sem ekki hefur áður verið gert í þessu samhengi. Einnig er stuðst við fjölbreyttari heimildaöflun, sem náði til dómsskjala, viðtala við stofnanir og greiningar á fjölmiðlaumfjöllun yfir langt tímabil.“
Guðbjörg segir að Ísland henti afar vel fyrir svona greiningar enda séu gögn aðgengileg og boðleiðir á milli rannsakanda og opinberra stofnanna almennt greiðar. Þá hafi vinnan verið óvanaleg að því leyti að það voru bara þessi þrjú sem nefnd voru hér að framan sem unnu þetta í afar góðu þverfræðilegu samstarfi.
„Við sáum hins vegar að skortur á samræmdri upplýsingamiðlun og formlegri samþættingu við skipulags- og verndarkerfi dregur úr mögulegu gildi neðansjávarminja sem verndarsvæða.“
Ragnar Edvarsson starfar við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík en hann hefur unnið við fornleifarannsóknir neðansjávar um langa hríð m.a. í kringum verstöðvar víða um land og við yfirgefnar hvalveiðistöðvar.
Mikilvægar niðurstöður til að stuðla að vernd
Guðbjörg og Ragnar segja að með aukinni samvinnu á milli stofnana, sem koma að minjavernd, náttúruvernd, eftirliti á sjó og umferð fiskiskipa, megi nota skipsflök sem nokkurs konar epli í andlitshæð, eins og þau orða það, til að gera verndarsvæði í hafinu fjölbreyttari.
„Þessum árangri mætti reyndar ná núna strax hvað varðar viðeigandi strandminjar - þar þyrfti varla breytingar á kerfinu, bara einfaldar rannsóknir til að staðfesta gildi þeirra fyrir lífríkið og betri upplýsingargjöf,“ segir Guðbjörg.
Hún segist brenna fyrir því að halda áfram rannsóknum á skipulagi verndarsvæða í sjó og þar hafi hún ekki síst áhuga á mannlega þættinum – að ná fram sjónarmiðum ólíkra haghafa og vinna með þeim við að safna gögnum. „Nær allar rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu viðfangsefni sýna að þátttaka breiðs hóps haghafa, samtal og samvinna skilar bestum árangri. Við Íslendingar erum komin mjög stutt á þeirri vegferð að byggja upp heildstætt kerfi verndarsvæða sem tryggir sjálfbæra notkun. Því er af nógu að taka þegar kemur að tengdum verkefnum.“
Í kjölfar þessarar greinar hyggjast Guðbjörg og Ragnar vinna frekar að beinum mælingum á líffræðilegri fjölbreytni í námunda við neðansjávarminjar sem nú eru skráðar og þar eru þau Ragnar þegar með nokkur svæði í huga. „Þær rannsóknir falla líka mjög vel saman við annað rannsóknasvið sem ég vinn mikið við, þ.e. merkingar og mælingar á ferðum fiska í grunnsjó.“
„Yfir 3 milljónir skipsflaka finnast á hafsbotni – og fjölmargar aðrar minjar – þessi svæði geta ekki einungis aukið skilning á fortíðinni heldur líka skipt máli fyrir náttúruvernd. Í nýbirtri grein í tímaritinu Marine Policy er vernd neðansjávaminja á Íslandi greind og rætt hvort skynsamlegt er að nota þessa staði til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem stefna að því að vernda þrjátíu prósent hafsvæða fyrir árið 2030. Fjölmörg skipsflök mynda nefnilega “náttúruleg” friðlönd – stundum innan togslóða.“