Fyrstur til að ljúka doktorsprófi í ferðamálafræði á Íslandi
Johannes Welling varð á dögunum fyrstur til þess að ljúka doktorsprófi í ferðamálafræði á Íslandi þegar hann varði ritgerð sína við Háskóla Íslands. Í doktorsrannsókn sinni rýndi Johannes í áhrif loftslagsbreytinga á jöklaferðmennsku á Íslandi.
Ferðamálafræði hefur verið í boði í Háskóla Íslands allt frá árinu 1998 og vinsældir námsgreinarinnar hafa vaxið samhliða vexti ferðaþjónustu hér á landi undanfarna áratugi. Sama má segja um rannsóknir í greininni en þær eru mikilvægur grundvöllur fyrir réttri ákvarðanatöku um þróun ferðaþjónustu, sem einnar af mikilvægustu atvinnugreinum Íslendinga, og viðbrögðum við áskorunum í greininni.
Ein af þeim stærstu sem blasa við ferðaþjónustunni eru loftlagsbreytingar. „Margir hafa rannsakað áhrif loftslagsbreytinga á jökla og landslag síðastliðna áratugi, ekki síst á Íslandi. Hins vegar hefur nánast ekkert verið rannsakað hvaða áhrif loftslagsbreytingarnar hafa á ferðaþjónustu sem nýtir þetta landslag. Jöklar og nágrenni þeirra eru meðal vinsælustu ferðamannastaða á Íslandi,“ sagði Johannes þegar han ræddi um rannsóknir sínar í Tímariti Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum og verðlaunaþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar sem sýnd var á RÚV árið 2018. „Það má reikna með að jöklalandslagið á Íslandi breytist umtalsvert á næstu 20–40 árum og það mun hafa áhrif bæði á útbreiðslu og gæði þeirrar þjónustu sem boðið er upp á í jöklaferðamennsku á Íslandi,“ sagði Johannes enn fremur.
Johannes varði doktorsritgerð sína í Hátíðasal Háskólans föstudaginn 16. október. Í henni lagði hann áherslu að skoða hvort og þá hvernig ferðaþjónustuaðilar sem stunda jöklaferðamennsku aðlaga sig að núverandi og framtíðaráhrifum loftslagsbreytinga og hvernig tengsl ferðaþjónustuaðila við vísindi geti stuðlað að framvirkri aðlögun að breyttum aðstæðum. Hann valdi nokkra áfangastaði við sunnanverðan Vatnajökul sem rannsóknarsvæði og þar safnaði hann gögnum m.a. með viðtölum við ferðarþjónustuaðila og spurningakönnunum á meðal ferðamanna.
„Margir hafa rannsakað áhrif loftslagsbreytinga á jökla og landslag síðastliðna áratugi, ekki síst á Íslandi. Hins vegar hefur nánast ekkert verið rannsakað hvaða áhrif loftslagsbreytingarnar hafa á ferðaþjónustu sem nýtir þetta landslag. Jöklar og nágrenni þeirra eru meðal vinsælustu ferðamannastaða á Íslandi,“ segir Johannes. MYND/Björn Gíslason
Loftslagsbreytingar hafa þegar haft áhrif á jökulsvæðin
Niðurstöður doktorsrannsóknar Johannesar leiða m.a. í ljós að að loftslagsbreytingar hafa þegar haft töluverð áhrif á jökulsvæðin við sunnanverðan Vatnajökul og að ferðaþjónustuaðilar hafa að mestu leyti brugðist við þessum afleiðingum í formi „bíða-og-sjá-til“ afstöðu eins og það er orðað. Þá sýna niðurstöðurnar einnig að viðbrögð ferðamanna sem heimsækja jökulsvæðin við framtíðaráhrifum loftslagsbreytinga eru mjög breytileg.
Niðurstöðurnar undirstrika enn fremur mikilvægi þess að þróa og beita svokölluðum þátttökusviðsmyndum til að samtvinna viðhorf hagsmunaaðila í héraði og vísindamanna. „Slíkar þátttökusviðsmyndir eru mikilvægt verkfæri til að styðja við skipulega aðlögun áfangastaða jöklaferðamennsku að breyttum umhverfisaðstæðum vegna loftslagsbreytinga í gegnum gagnkvæma miðlun þekkingar, íhugunar um langtímabreytingar og þá óvissu sem þeim fylgir og skoðunar á mögulegum framvirkum aðlögunaraðgerðum til að mæta slíkum breytingum,“ segir m.a. í ágripi rannsóknarinnar.
Doktorsrannsóknina vann Johannes undir leiðsögn Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og Rannveigar Ólafsdóttur, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Doktorsrigerð Johannesar má finna á vefnum Opin vísindi og upptöku af doktorsvörninni má finna á Livestream-rás HÍ.