Fulltrúar í Evrópsku akademíunni í iðnaðarverkfræði funduðu á Íslandi

Dagana 4.–6. september komu saman meðlimir Evrópsku akademíunnar fyrir prófessora í iðnaðarverkfræði - AIM í Reykjavík. Þetta var 47. árlegi fundur AIM og var gestgjafi hans Guðmundur Valur Oddsson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.
Akademían var stofnuð árið 1987 og vinnur að því að efla menntun og rannsóknir á sviði iðnaðarverkfræði og iðnaðarstjórnun.
Markmið fundarins er að efla tengsl innan Evrópu á sviði menntunar og rannsókna. Að þessu sinni var þemað rekstrarlegar áskoranir á Íslandi við að reka stór kerfi í litlu landi undir yfirskriftinni „Small state, big challenges: Operations Management on the periphery“. Fengu þátttakendur m.a. innsýn í áskoranir í greinum eins og fiskeldi, orku- og áliðnaði og ferðaþjónustu.
Auk formlegra funda nutu þátttakendur einnig dvalarinnar á Íslandi og fengu tækifæri til að kynnast landi og þjóð.

