Fræðafólk tilnefnt til bókmenntaverðlauna
Fjórar bækur fræðafólks við Háskóla Íslands voru um helgina tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Þetta eru bækurnar Málarinn og menningarsköpun, Leitin að klaustrunum, Líftaug landsins og Sjálfstætt fólk.
Málarinn og menningarsköpun: Sigurður Guðmundsson og Kvöldfélagið 1858-1874 er safn sautján ritrýndra greina um störf og áhrif Sigurðar Guðmundssonar málara og Kvöldfélagsins í Reykjavík. Annar ritstjóri bókarinnar er Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði. Hann er auk þess höfundur greina í bókinni auk þeirra Sveins Yngva Egilssonar, prófessors í íslenskum bókmenntum, og Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors í sagnfræði. Þjóðminjasafn Íslands og Bókaútgáfan Opna gefa bókina út.
Í bókinni Leitin að klaustrunum - klausturhald á Íslandi í fimm aldir bregður Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, ljósi á sögu kaþólsks klausturhalds í landinu á persónulegan hátt þar sem skipulögð leit að íslensku klaustrunum er í forgrunni. Sögufélagið og Þjóðminjasafn Íslands gefa bókina út.
Líftaug landsins: Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 er heildarsaga íslenskrar utanlandsverslunar frá landnámstíð til okkar daga þar sem fjallað er um innflutning og útflutning svo og félagslega, efnahagslega og pólitíska umgjörð utanlandsverslunar. Höfundar verksins eru sex sagnfræðingar við Háskóla Íslands, þau Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita, Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus, Guðmundur Jónsson prófessor, Halldór Bjarnason aðjunkt (d. 2010), Helgi Skúli Kjartansson prófessor og Helgi Þorláksson, prófessor emeritus. Ritstjóri er Sumarliði R. Ísleifsson lektor og útgefendur eru Sagnfræðistofnun og Skrudda.
Bókin Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld eftir Vilhelm Vilhelmsson byggist á doktorsritgerð sem hann varði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands árið 2015. Þar fjallar Vilhelm um vistarbandið sem fól í sér þá skyldu búlausra að ráða sig í ársvistir hjá bændum og lúta húsaga þeirra. Fjallað er um togstreituna milli undirsáta og yfirboðara í gamla sveitarfélaginu og saga alþýðunnar er sögð frá sjónarhorni hennar sjálfrar fremur en valdhafa. Sögufélagið gefur bókina út.
Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn snemma árs 2018.