Forseti Eistlands með erindi í HÍ á föstudag
Alar Karis, forseti Eistlands og fyrrverandi rektor Háskólans í Tartu, flytur erindi í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 14. október kl. 11. Erindið ber yfirskriftina „Eistland – land einhyrninganna“ og er öllum opið.
Efnahagslíf Eistlands hefur tekið stórstígum framförum á síðustu áratugum og skarar landið nú fram úr á sviði nýtingar stafrænna lausna í opinberri stjórnsýslu og þjónustu. Þessi þróun hefur haft jákvæð áhrif á efnahag landsins og samfélagið allt. Í fyrirlestrinum fjallar Alar Karis um áhrif markaðsumbóta og alþjóðavæðingar, ekki síst á sviði upplýsingatækni, á eistneskt samfélag og efnahag og hvernig þessi þróun hefur gert Eistland að Landi einhyrninganna.
Alan Karis tók við embætti forseta Eistlands fyrir réttu ári en gegndi áður störfum forstöðumanns Þjóðminjasafns Eistlands og Ríkisendurskoðanda Eistlands. Karis hefur einnig gegnt embættum rektors Lífvísindaháskóla Eistlands og Háskólans í Tartu. Í vísindastörfum sínum hefur Karis lagt áherslu á rannsóknir og kennslu í sameindaerfðafræði og þroskunarfræði. Hann hefur starfað við háskóla í Þýskalandi, Bretlandi og Hollandi en varð prófessor við Háskólann í Tartu árið 1999. Karis er í hópi áhrifamestu vísindamanna sinnar kynslóðar í Eistlandi.
Viðburðurinn fer fram á ensku og öll eru velkomin meðan húsrúm leyfir.