Fólk með táknrænt auðmagn upplifir ekki upphefð í hversdagslífinu

Ójöfnuður og stéttaskipting í samfélögum eru viðfangsefni fjölmargra fræðimanna. Ójöfnuður á Íslandi hefur lengi verið talinn töluvert minni en víða annars staðar og flestir landsmenn hafa búið við svipuð kjör og lítið um stéttaskiptingu. En er ójöfnuður bara efnislegur? Eru til form af ójöfnuði á Íslandi sem eru óefnisleg?
Jón Gunnar Bernburg og Sigrún Ólafsdóttir, prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands, hafa rannsakað hvort einstaklingar í sterkri félagslegri stöðu upplifi að staða þeirra veiti þeim upphefð eða virðingu. Niðurstöður þeirra sýna að Íslendingar sem hafa völd telja ekki að komið sé öðruvísi fram við sig en aðra í hversdagslegum samskiptum.
Rannsókn þeirra byggist á grundvallaratriðum í kenningu franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu um félagslega lagskiptingu. Megininntak kenningarinnar er að ójöfnuðurinn í samfélaginu snúist ekki bara um efnislega hluti heldur einnig um táknræna hluti.
Mismunandi tegundir auðmagns
Jón Gunnar segir að samkvæmt kenningu Bourdieu sé það í fyrsta lagi hagrænt auðmagn (peningar, land, fyrirtæki o.s.frv.) sem færi fólki völd í samfélaginu en óefnislegt auðmagn hafi líka áhrif á félagslega stöðu þess. Auðmagn geti verið menningarlegt en það snýst um það hvort einstaklingar hafi tileinkað sér þekkingu eða lífsstíl sem þyki eftirsóknarverður. Fólk geti líka verið með félagslegt auðmagn sem snýst um tengslin sem það hefur.
Auðmagnið sem Jón Gunnar og Sigrún einblína á í rannsókn sinni er fjórða tegundin, táknrænt auðmagn, sem er upphefðin sem einstaklingar fá vegna þess að þeir búa yfir hagrænu, menningarlegu eða félagslegu auðmagni. Bourdieu segir að fólk beri meiri virðingu fyrir þeim sem það gera. Táknrænt auðmagn skipti miklu máli vegna þess að upphefð geti fært einstaklingum völd. Það geti leitt til þess að aðrir hlusti meira á þá og að sjónarmið þeirra verði ráðandi. Meira sé hlustað á þá sem séu vel menntaðir eða bera sig eins og sé talið menningarlega eftirsóknarvert.
„Stóri punkturinn hjá Bourdieu er að valdasamþjöppun er að hluta til sýnileg. Þú getur labbað um borgina og séð hvernig fólk býr, séð hverjir hafa hagrænt auðmagn, en allt hitt er svo ósýnilegt, þessi menningarlegu, táknrænu form auðmagns eru ósýnileg. Bourdieu segir að af því að þau eru ósýnileg þá gefa þau upphefð,“ segir Jón Gunnar.
Jón Gunnar segir mjög sterkar jafnræðisreglur gilda hérlendis í hversdagslífinu. „Kannski er það af því að það eru svo sterkar jafnræðisreglur sem gilda í þessum aðstæðum í okkar samfélagi. Við eigum að koma fram við hvert annað eins og við séum jöfn. Það er normið. Það gildir ekki eins mikið í fjölmiðlum eða stjórnmálum. Það er öðruvísi gangverk í sviðsljósinu. Þar eru aðallega raddir þeirra sem hafa eitthvað auðmagn að baki sem fá að heyrast.“

Skoða hvort kenning Bourdieus eigi við á Íslandi
Könnun Jóns Gunnars og Sigrúnar hefur þann tilgang að athuga hvort kenning Bourdieu geti átt við í íslensku samfélagi. Þau rannsaka því hvort fólk sem hefur hagrænt, menningarlegt og félagslegt auðmagn eigi þar af leiðandi táknrænt auðmagn og upplifi upphefð.
Annars vegar kanna þau hvort einstaklingar upplifi upphefð í almannarýminu, eins og í fjölmiðlum eða í stjórnmálum. Hins vegar hvort þeir upplifi upphefð í hversdagslífinu, til dæmis úti í búð eða hjá lækni. Það skipti máli vegna þess að það gæti þýtt að þeir sem hafi völdin stjórni umræðunni, bæði í fjölmiðlum og í hversdagslífinu.
Slík rannsókn hefur aldrei áður verið gerð á Íslandi og eru því niðurstöðurnar áhugaverðar bæði fyrir fræðimenn og íslenskan almenning. Þær eru byggðar á spurningakönnun sem var send út til handahófskennds úrtaks á Íslandi þar sem einstaklingar eru spurðir um það auðmagn sem þeir hafa og upplifun þeirra af upphefð.
Samkvæmt Jóni Gunnari stenst kenning Bourdieus mjög vel á Íslandi þegar upphefð í almannarýminu er skoðuð. Þeir sem hafi upphefð í stjórnmálum og fjölmiðlum séu efnaðir og í góðum störfum. Rödd þeirra virðist heyrast á þeim vettvangi. Ástæðan fyrir því að þeir upplifa upphefð sé sú að þeir hafa meiri menntun, betri tengsl og meira vald á menningu.
Auðmagn skiptir litlu máli í hversdagslífinu
Þegar hversdagleg samskipti eru skoðuð virðist auðmagn hins vegar skipta tiltölulega litlu máli í íslensku samfélagi. Fólk upplifir með öðrum orðum ekki upphefð í hversdagslegum samskiptum við annað fólk.
Jón Gunnar segir mjög sterkar jafnræðisreglur gilda hérlendis í hversdagslífinu. „Kannski er það af því að það eru svo sterkar jafnræðisreglur sem gilda í þessum aðstæðum í okkar samfélagi. Við eigum að koma fram við hvert annað eins og við séum jöfn. Það er normið. Það gildir ekki eins mikið í fjölmiðlum eða stjórnmálum. Það er öðruvísi gangverk í sviðsljósinu. Þar eru aðallega raddir þeirra sem hafa eitthvað auðmagn að baki sem fá að heyrast.“
Í hversdagslegum samskiptum einstaklinga sé hægt að segja að allir séu með nokkurs konar handrit. Fólk viti hvernig á að haga sér og hvað sé viðeigandi í því samhengi. Þar sem handrit sé fyrir hendi gæti sú staða komið upp að auðmagn hefði áhrif á samkipti að sögn Jóns Gunnars en gögn þeirra Sigrún hafi sýnt að þannig sé það ekki á Íslandi.
Ákveðið form af ójöfnuði hér á landi
Rannsóknin sýnir að á Íslandi sé ákveðið form af ójöfnuði. Jón Gunnar segir að við höfum tilhneigingu til að horfa bara á efnisleg form ójöfnuðar en það séu líka óefnisleg form fyrir hendi sem geti styrkt efnislegan ójöfnuð í samfélaginu.
Jón Gunnar bendir á að öll samþjöppun auðmagns sé miklu minni á Íslandi en víða annars staðar og því sé hægt að segja að Ísland sé íhaldssamt próf á kenningu Bourdieu. Það að fá stuðning við kenninguna hérlendis, þar sem ójöfnuðurinn eða samþjöppun auðmagns er minni, styrki alhæfingargildi kenningarinnar.
Höfundur greinar: Birta María Hallsteinsdóttir, nemi í blaðamennsku.