Fólk í staðbundinni vinnu finnur fyrir meiri streitu en fólk í fjarvinnu

„Margir sem vinna að heiman upplifa skort á óformlegum, daglegum samskiptum eða litlu augnablikunum sem eiga sér stað við kaffivélina eða á göngunum, sem þó skipta miklu máli fyrir félagslega tengingu og vellíðan starfsfólks,“ segir Thamar Melanie Heijstra, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Hún rannsakar nú hvernig mismunandi vinnuaðstæður – staðbundin vinna, fjarvinna og blandað fyrirkomulag – hafa áhrif á líðan og heilsu starfsfólks.
„Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun fólks af ólíku vinnufyrirkomulagi og greina bæði styrkleika og veikleika þess með það að leiðarljósi að dýpka skilning á því hvað stuðlar að vellíðan í vinnu,“ segir Thamar um tilurð og markmið verkefnisins en frumniðurstöður hennar sýna að hvert fyrirkomulag hefur sína kosti og galla.
Lítið um rannsóknir á nýrri vinnumenningu
Á undanförnum árum hefur orðið stöðug þróun í átt að meiri sveigjanleika í vinnu, ekki síst vegna örrar tækniþróunar, aukinna möguleika til að vinna óháð stað og tíma og breyttra væntinga starfsfólks. „Fjarvinna og sveigjanlegt vinnufyrirkomulag höfðu verið til umræðu áður og víða í framkvæmd að einhverju leyti en eftirspurnin jókst hratt eftir því sem tæknin gerði slíkt aðgengilegra og raunhæfara fyrir fleiri störf. Hins vegar hafa fáar rannsóknir hingað til einblínt á það hvernig þessi nýja vinnumenning hefur áhrif á heilsu og líðan starfsfólks,“ segir Thamar sem hefur mikinn áhuga á vinnuaðstæðum og vinnufyrirkomulagi í ólíkum starfsgreinum, sérstaklega í tengslum við heilsu, líðan og kynjajafnrétti. „Ég hef sérstakan áhuga á akademísku vinnuumhverfi en hef einnig skoðað aðrar starfsstéttir og þá hvernig vinnuumhverfi hefur áhrif á fólk.“
Rannsóknin náði til 620 einstaklinga
Rannsóknin byggist fyrst og fremst á spurningalista sem sendur var út sumarið 2024 til stofnana og fyrirtækja á Íslandi þar sem talið var líklegt að fjarvinna væri hluti af daglegu vinnufyrirkomulagi. „Það bárust alls svör frá 620 einstaklingum en til að dýpka skilning okkar á niðurstöðunum tókum við einnig tíu eigindleg viðtöl við þátttakendur sem höfðu áhuga á að deila upplifun sinni nánar,“ útskýrir Thamar.
Auk Thamar koma að rannsókninni Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, og Ýr Örlygsdóttir, BA í félagsfræði. „Við Guðbjörg Linda þróuðum spurningalistann og viðtalsrammann en Ýr, sem stundar nú framhaldsnám í félagsfræði við University of Chicago, sá að mestu leyti um að hafa samband við fyrirtæki og stofnanir til að finna starfsfólk í fjarvinnu,“ segir Thamar. Ýr sá einnig um gagnasöfnin, bæði eigindleg og megindleg, en úrvinnsla gagnanna er í höndum Thamar.
„Rannsóknin varpar ljósi á að starfsfólk í fjarvinnu er oft ósýnilegt í skipulagsheildum og þarf sérstaka athygli til að tryggja jafna meðhöndlun og stuðning. Á sama tíma þarf að huga að líkamlegri og andlegri líðan þeirra sem starfa eingöngu á vinnustaðnum og upplifa meiri streitu. Starfsfólk í blandaðri vinnu reynir svo að blanda saman tveimur mjög ólíkum veruleikum, sem getur líka verið áskorun,“ segir Thamar. MYND/Unsplash/Nightthawstudio

Stuðningur frá vinnuveitanda og samstarfsfólki skiptir miklu máli
Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þátttakendur séu yfirleitt ánægðir með vinnufyrirkomulag sitt en rúmlega þriðjungur þátttakenda, eða 35%, starfaði í staðbundinni vinnu, 11% í fjarvinnu og 54% voru í blandaðri vinnu. Af þeim sem höfðu blandað fyrirkomulag sögðu 55% að helsti kosturinn væri aukinn sveigjanleiki, 38% nefndu vinnufrið og 36% skilvirkni en 21% sögðu að meiri tími fyrir einkalíf og fjölskyldu skipti mestu máli. Þegar kom að vellíðan í vinnu hafði möguleikinn á að vinna að hluta í fjarvinnu jákvæð áhrif á heilsu og líðan starfsfólks en aðrir þættir eins og stuðningur frá vinnuveitanda og samstarfsfólki skipti einnig höfuðmáli.
Sem fyrr segir sýna niðurstöðurnar að hvert vinnufyrirkomulag hefur sína kosti og galla. „Starfsfólk í blandaðri vinnu sýnir mesta starfsánægju en upplifir einnig mesta togstreitu milli vinnu og einkalífs. Þeir sem vinna eingöngu í fjarvinnu njóta frelsis og sjálfstæðis og finna síður fyrir vinnutruflunum. Þeir upplifa aftur á móti meiri félagslega einangrun þótt það hafi ekki marktækt neikvæð áhrif á andlega líðan þeirra. Starfsfólk sem vinnur eingöngu á vinnustaðnum upplifir mest félagslegt samneyti og tengsl en greinir einnig frá meiri vinnustreitu og líkamlegum óþægindum,“ segir Thamar.
Starfsfólk í fjarvinnu upplifir sig oft utanveltu
Rannsóknin mun draga fram mikilvægar upplýsingar um þau ólíku áhrif sem mismunandi vinnufyrirkomulag hefur á líðan og heilsu starfsfólks. Niðurstöðurnar munu jafnframt nýtast við að skapa vinnuumhverfi sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan, óháð því hvar og hvernig fólk vinnur. „Rannsóknin varpar ljósi á að starfsfólk í fjarvinnu er oft ósýnilegt í skipulagsheildum og þarf sérstaka athygli til að tryggja jafna meðhöndlun og stuðning. Á sama tíma þarf að huga að líkamlegri og andlegri líðan þeirra sem starfa eingöngu á vinnustaðnum og upplifa meiri streitu. Starfsfólk í blandaðri vinnu reynir svo að blanda saman tveimur mjög ólíkum veruleikum, sem getur líka verið áskorun.“
Thamar segir mikilvægt að líta á vinnufyrirkomulag sem þátt í heildrænni vellíðan, vinnuaðstæður skipti máli fyrir heilsu og líðan fólks en hafi ólík áhrif eftir því hvert vinnufyrirkomulagið er. „Fjarvinnandi starfsfólk er oft falinn hópur, bæði innan fyrirtækja og í samfélaginu almennt. Það fær ekki alltaf allar upplýsingar, upplifir að það tilheyrir síður hópnum og finnst það stundum verða utanveltu. Þetta eru mikilvægar upplýsingar þegar við viljum byggja upp vinnustaði þar sem fólki líður vel, sama hvert vinnufyrirkomulag þess er.“
„Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun fólks af ólíku vinnufyrirkomulagi og greina bæði styrkleika og veikleika þess með það að leiðarljósi að dýpka skilning á því hvað stuðlar að vellíðan í vinnu,“ segir Thamar Melanie Heijstra, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild við Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson