Skip to main content
23. nóvember 2022

Flutningur Menntavísindasviðs í nýja Sögu

Flutningur Menntavísindasviðs í nýja Sögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menntavísindasvið Háskóla Íslands (MVS) flytur árið 2024 í Sögu við Hagatorg þar sem áður var Hótel Saga. Í tengslum við flutninginn hefur verið opnuð vefsíða með því markmiði að miðla fréttum af framkvæmdum og undirbúningi fyrir flutning sviðsins. Öllum fréttum af framkvæmdum og framvindu flutningsferlisins verður safnað saman á sérstakri vefsíðu helgaðri flutningunum.

Framkvæmdahópur flutnings í Sögu skipaður 

Nýlega var skipaður framkvæmdahópur vegna flutnings í Sögu, en í honum er starfsfólk í stoðþjónustu MVS sem sinnir skipulagningu flutninganna í umboði starfshóps um flutning sviðsins. Framkvæmdahópinn skipa: Svavar Jósefsson rekstrar- og þjónustustjóri, Lára Rún Sigurvinsdóttir mannauðsstjóri, Marta Goðadóttir markaðs- og samskiptastjóri, Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, forstöðumaður Nýsköpunar og Menntasamfélags, Steingerður Ólafsdóttir, verkefnastjóri doktorsnáms, Áslaug Björk Eggertsdóttir, verkefnisstjóri Menntasmiðju, og Katrín Johnson, verkefnisstjóri mannauðs- og húsnæðismála. Helstu verkefni hópsins er undirbúningur og framkvæmd flutninganna. 

Ný vefsíða um flutning sviðsins

Vefsíða með almennri upplýsingamiðlun um flutningana hefur verið sett á laggirnar en þar er hægt verður að fylgjast með framvindu ferlisins. Framkvæmdahópurinn leitar jafnframt ráðgjafar hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu og gert er ráð fyrir aðkeyptri ráðgjöf. Fram undan er rýning hönnunar og útfærslu á rýmum í Sögu, skipulagning og útfærsla, í samráði við starfsfólk.

Lært af háskólum í Helsinki

Vegna flutninga í Sögu fór framkvæmdahópurinn ásamt fleira starfsfólki í náms- og kynnisferð til Helsinki í september. Mörg sóttu námskeið á vegum NIVA, sem styrkt er af norrænu ráðherranefndinni, að nafni Workspaces promoting well-being, annar hópur á vegum sviðsins heimsótti Helsinki-háskóla og öll fóru í heimsókn í Aalto-háskóla. Þar hafa talsverðar breytingar orðið á undanförnum árum, tilkoma nýrra bygginga og breytingar á eldri byggingum, og var áhugavert að sjá ný rými sem höfðu verið hönnuð út frá þörfum og nýtingarmöguleikum.

Hópurinn skoðaði mismunandi útfærslur af vinnurýmum starfsfólks, doktorsnema og kennara auk þess sem ýmsar útfærslur á minni og stærri sameiginlegum rýmum voru skoðuð. Starfs- og kennslurými fjölbreyttra fræðasviða háskólans voru skoðuð; nýlegt húsnæði lista, hönnunar og arkitektúrs þar sem áhugavert var á að sjá hvernig Aalto-háskóli samnýtir svæði og skapar sveigjanlega aðstöðu fyrir nemendur og kennara. Skoðuð var nýleg aðstaða fyrir list- og verkgreinakennslu hjá Helsinki-háskóla og skemmtileg fjölnota leikstofa sem hentar vel í leikskóla- og yngri barnakennslu.

Húsnæðiskönnun í samstarfi við Veldhoen + Company 

Framkvæmd var húsnæðiskönnun í samstarfi við hollenska ráðgjafafyrirtækið Veldhoen + Company. Könnunin var lögð fyrir starfsfólk Menntavísindasviðs og af þeim 236 sem starfa á sviðinu svöruðu 99 manns könnuninni, sem gerir 42% svarhlutfall. Fulltrúar Veldhoen + Company voru á Íslandi vikuna 17.- 21. október og tóku m.a. viðtöl við fulltrúa stjórnenda, deildarstjóra og akademísks starfsfólks sviðsins með það að markmiði að fá frekari upplýsingar við úrvinnslu niðurstaðna könnunarinnar. Þær verða senn kynntar innan Menntavísindasviðs.

Fundur um starfsumhverfi í Sögu

Föstudaginn 18. nóvember var haldinn opinn samráðsfundur með rektor, sviðsforseta og fulltrúa framkvæmdasýslu ríkisins um skipulag á vinnurýmum á Sögu. Í ávarpi sínu lagði rektor áherslu á þau tækifæri sem skapast við flutning sviðsins á aðalsvæði skólans og mikilvægi þess að flutningurinn myndi heppnast vel. Guðrún Vala Davíðsdóttir, sérfræðingur hjá framkvæmdasýslu stjórnvalda, fjallaði því næst um forsendur og áherslur stjórnvalda um sveigjanlegt og verkefnamiðað starfsumhverfi. Kolbrún Pálsdóttir, forseti sviðsins, ræddi undirbúning að flutningi sviðsins og sýndi nokkrar sviðsmyndir sem undirstrika að starfsemin rúmast vel á Sögu.

Fram kom að háskólinn þarf eins og aðrar opinberar stofnanir að fylgja stefnu stjórnvalda um verkefnamiðuð og sveigjanleg vinnurými. Á fundinum tóku nokkrir akademískir starfsmenn til máls og lýstu yfir áhyggjum og óánægju með að ekki sé tryggt að öll sem þess óska fái einkaskrifstofu. Bent var á mikilvægi þess að horfa til sérstöðu fræða- og vísindastarfa sem krefjist góðrar aðstöðu fyrir næði og gögn sem starfsfólk þarf að hafa aðgengileg. Forseti sviðsins benti á að verkefnið fram undan væri að kortleggja betur væntingar starfseininga og einstaklinga og leitast við að skipuleggja í sameiningu vinnuaðstöðu sem kemur til móts við mismunandi þarfir og verkefni.

Notendahópar stofnaðir og fyrstu þarfagreiningar

Ráðgert er að stofna notendahópa í tengslum við flutninginn. Þeir eru eftirfarandi:

1.    Nám og kennsla: kennslunefnd taki yfir hlutverk hópsins
2.    Rannsóknir: vísindanefnd taki yfir hlutverk hópsins
3.    Mannauður: Mannauðsstjóri verði formaður, aðrir fulltrúar verði Katrín Ágústa Johnson, einn úr hverri deild MVS, fulltrúi fötlunarfræða, doktorsnemi, fulltrúi jafnréttisnefndar. 
4.    Stoðþjónusta: Rekstrarstjóri verði formaður, fulltrúi hverrar starfseiningar, Sólveig María Þorláksdóttir, fjármálstjóri sviðsins og einn fulltrúi fyrir hönd akademíu.
5.    List- og verkgreinar: Einn fulltrúi frá hverri grein.
6.    Nemendur: Sviðsráð og nemendafélög MVS, samtals fjórir fulltrúar. 
7.    Stafræn þróun og nýsköpun: Forstöðumaður N&M, verkefnastjóri Menntasmiðju, upplýsingatæknikennari sem fulltrúi akademíu, kennsluþróunarstjóri og fulltrúi Mixtúru. 

Fyrstu þarfagreiningar hafa farið fram og áætlað er að hönnun húsnæðisins í Sögu hefjist fljótlega á næsta ári. 

Misserisþing MVS 29. nóvember

Misserisþing verður haldið þriðjudaginn 29. nóvember í Skriðu og Fjöru. Tækifæri tengd flutningi sviðsins í Sögu verða í öndvegi. Unnið verður áfram með niðurstöður sviðsþings sem fram fór í maí síðastliðinn en helstu niðurstöður þeirrar vinnu eru hér rifjaðar upp

Dagskrá 
Skriða 
Kl. 13.00 - Sýn nemenda á framtíð menntunar. Myndbönd 
Kl. 13.10 - Saga - Framtíðarsýn nemenda. Auður Eir Sigurðardóttir, forseti sviðsráðs MVS 
Kl. 13.15 - Saga - Fyrstu sviðsmyndir. Kristján Garðarsson, arkitekt hjá Andrúm 
Kl. 13.40 - Kennsluaðstaða framtíðar - stefnum hátt! Páll Ásgeir Torfason, deildarstjóri rafrænna kennsluhátta HÍ 
Kl. 13.55 - Saga - Tækifæri og áskoranir. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs 

Fjara 
14.15 - Saga - Tækifæri og áskoranir. Hópavinna 

Fundarstjóri er Marta Goðadóttir, markaðs- og samskiptastjóri MVS. 

Að misserisþingi loknu verður þátttakendum boðið upp á léttar veitingar.  

Við hvetjum öll til að fylgjast með fréttum af framvindu flutnings Menntavísindasviðs í Sögu hér

Framkvæmdir að utanverðri Sögu
Framkvæmdir að innanverðri Sögu
Súlnasalur í Sögu
Keilir séður frá Sögu
Fjölnota leikstofa í Helsinki-háskóla
Náms- og kynnisferð starfsfólks MVS í Helsinki háskóla
Fundur um starfsumhverfi í Sögu 18.nóv
Fundur um starfsumhverfi í Sögu 18.nóv