Fjölsótt málþing um félags- og tilfinningahæfni í skólastarfi
Málþing um menntun til farsældar: félags- og tilfinningahæfni í skóla- og frístundastarfi fór fram í húsakynnum Menntavísindasviðs í gær. Fjallað var um hvernig efla megi menntun til farsældar í víðum skilningi. Fræðafólk sem er leiðandi á þessu sviði hérlendis og erlendis fjallaði um mikilvægi félags- og tilfinninghæfni í skólastarfi. Einnig var kynnt hvernig innleiða megi geðrækt í skóla- og frístundastarf ásamt því sem verðlaunaverkefni sem byggja á nálgun jákvæðrar sálfræði voru kynnt.
Á meðal fyrirlesara var Dr. Sue Roffey var hér á landi á vegum Endurmenntunar HÍ og hélt erindið "Learning to Be, Learning to Live Together”. Roffey er sálfræðingur, fræðikona, rithöfundur og aðgerðarsinni. Hún gegnir stöðu heiðursdósents við University College í London og er aðjúnkt við Western Sydney háskólann. Einnig er hún tengd Wellbeing Institute við Cambridge-háskóla. Roffey hefur eytt stórum hluta síðustu tuttugu ára í Ástralíu, þar sem hún stofnaði Wellbeing Australia tengslanetið og þróaði Aboriginal Girls Circle – áætlun fyrir ungar frumbyggjakonur, byggt á Circle Solutions meginreglum og kennslufræði, sem hefur reynst árangursríkt. Í fræðistörfum sínum undafarin ár hefur hún beint sjónum að vellíðan barna og kennara í skólum.
Dr. Kristján Kristjánsson prófessor og aðstoðarforstöðumaður, Jubilee Centre for Character and Virtues var einnig á meðal fyrirlesara og hélt erindið Farsæld sem markmið menntunar. Draga má saman rannsóknarstefnu hans sem Aristóteles-innblásna heimspekilega skoðunar á kenningar í menntasálfræði og gildismenntun, með sérstakri áherslu á hugmyndir um karakter og dyggðugar tilfinningar. Hann hefur ritað mikið um siðfræðikennslu, menntunarsálfræði, siðfræðiheimspeki og stjórnmálaheimspeki.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði viðburðinn og í framhaldinu flutti fjöldi sérfræðinga af fjölbreyttum vettvangi erindi sem snerta viðfangsefnið.
- Dr. Sigrún Aðalbjarnar, prófessor emerita, flutti erindið „Virðing og umhyggja - hlúð að félags- og tilfinningaþroska æskunnar“
- Dr. Kristján Kristjánsson, prófessor og aðstoðarforstöðumaður Jubilee Centre for Character and Virtues, flutti erindið „Farsæld sem markmið menntunar“
- Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, fjallaði um geðrækt í skólastarfi
- Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við EHÍ, hélt erindið „Heilsueflandi skólar – vellíðan fyrir alla“
- Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, fjallaði um félags- og tilfinningahæfni í frístundastarfi
- Guðrún Sólveig Vignisdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir frá leikskólanum Rauðhól ræddu um jákvæða sálfræði í leikskólastarfi
- Viktoría Unnur Viktorsdóttir kennari kynnti Upright – kennsluefni í félags- og tilfinningahæfni
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, stýrði málþinginu sem var afar vel sótt á stað og í streymi. Upptöku af málþinginu má nálgast hér.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og Endurmenntun HÍ stóðu að málþinginu.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá málþinginu má sjá hér að neðan.