Fjölsótt málþing um félags- og tilfinningahæfni í skólastarfi

Málþing um menntun til farsældar: félags- og tilfinningahæfni í skóla- og frístundastarfi fór fram í húsakynnum Menntavísindasviðs í gær. Fjallað var um hvernig efla megi menntun til farsældar í víðum skilningi. Fræðafólk sem er leiðandi á þessu sviði hérlendis og erlendis fjallaði um mikilvægi félags- og tilfinninghæfni í skólastarfi. Einnig var kynnt hvernig innleiða megi geðrækt í skóla- og frístundastarf ásamt því sem verðlaunaverkefni sem byggja á nálgun jákvæðrar sálfræði voru kynnt.
Á meðal fyrirlesara var Dr. Sue Roffey var hér á landi á vegum Endurmenntunar HÍ og hélt erindið "Learning to Be, Learning to Live Together”. Roffey er sálfræðingur, fræðikona, rithöfundur og aðgerðarsinni. Hún gegnir stöðu heiðursdósents við University College í London og er aðjúnkt við Western Sydney háskólann. Einnig er hún tengd Wellbeing Institute við Cambridge-háskóla. Roffey hefur eytt stórum hluta síðustu tuttugu ára í Ástralíu, þar sem hún stofnaði Wellbeing Australia tengslanetið og þróaði Aboriginal Girls Circle – áætlun fyrir ungar frumbyggjakonur, byggt á Circle Solutions meginreglum og kennslufræði, sem hefur reynst árangursríkt. Í fræðistörfum sínum undafarin ár hefur hún beint sjónum að vellíðan barna og kennara í skólum.
Dr. Kristján Kristjánsson prófessor og aðstoðarforstöðumaður, Jubilee Centre for Character and Virtues var einnig á meðal fyrirlesara og hélt erindið Farsæld sem markmið menntunar. Draga má saman rannsóknarstefnu hans sem Aristóteles-innblásna heimspekilega skoðunar á kenningar í menntasálfræði og gildismenntun, með sérstakri áherslu á hugmyndir um karakter og dyggðugar tilfinningar. Hann hefur ritað mikið um siðfræðikennslu, menntunarsálfræði, siðfræðiheimspeki og stjórnmálaheimspeki.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði viðburðinn og í framhaldinu flutti fjöldi sérfræðinga af fjölbreyttum vettvangi erindi sem snerta viðfangsefnið.

- Dr. Sigrún Aðalbjarnar, prófessor emerita, flutti erindið „Virðing og umhyggja - hlúð að félags- og tilfinningaþroska æskunnar“
- Dr. Kristján Kristjánsson, prófessor og aðstoðarforstöðumaður Jubilee Centre for Character and Virtues, flutti erindið „Farsæld sem markmið menntunar“
- Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, fjallaði um geðrækt í skólastarfi
- Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við EHÍ, hélt erindið „Heilsueflandi skólar – vellíðan fyrir alla“
- Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, fjallaði um félags- og tilfinningahæfni í frístundastarfi
- Guðrún Sólveig Vignisdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir frá leikskólanum Rauðhól ræddu um jákvæða sálfræði í leikskólastarfi
- Viktoría Unnur Viktorsdóttir kennari kynnti Upright – kennsluefni í félags- og tilfinningahæfni
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, stýrði málþinginu sem var afar vel sótt á stað og í streymi. Upptöku af málþinginu má nálgast hér.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og Endurmenntun HÍ stóðu að málþinginu.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá málþinginu má sjá hér að neðan.
Málþingið var afar fjölsótt á stað og í streymi.