Skip to main content
23. nóvember 2022

Fjögur verðlaunuð fyrir lofsvert framlag í starfi

Fjögur verðlaunuð fyrir lofsvert framlag í starfi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands, þau Pétur Henry Petersen, Hanna Ragnarsdóttir, Anna Helga Jónsdóttir og Kristinn Ingvarsson, tóku í dag við viðurkenningum fyrir lofsvert framlag í starfi við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk. 

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar við Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi. Í upphafi var þremur starfsmönnum veitt viðurkenning á sviði kennslu, rannsókna og almennra starfa en fyrir þremur árum var tekin upp sú nýbreytni að bætt var við fjórðu viðurkenningunni fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem lögð er á jafnréttismál í stefnu Háskóla Íslands. Frá upphafi hafa rúmlega 70 manns hlotið viðurkenninguna.

Petur

Pétur Henry Petersen, prófessor við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hann lauk doktorsprófi í sameindalíffræði og taugavísindum frá Yale-háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum og var ráðinn lektor við Háskóla Íslands 2009, dósent 2012 og prófessor 2020. 

„Pétur Henrý hefur verið mjög virkur í margvíslegri kennsluþróun á undanförnum árum. Hann hefur beitt sér í umræðu um kennslumál á vettvangi Læknadeildar og Heilbrigðisvísindasviðs, hefur unnið að innleiðingu kennsluforrita og setið í kennsluráði og kennslumálanefnd sviðsins. Hann hefur einnig lagt sig sérstaklega eftir fræðilegri hlið kennslunnar og hefur lagt stund á nám í kennslufræði fyrir háskólakennara sem hefur eflt hann til kennsluþróunar.  Pétur hefur haft frumkvæði að breytingum á námi læknanema og annarra heilbrigðisvísindanema og m.a. þróað nýjar leiðir til að virkja nemendur í námi sínu. Hann hefur tekið þátt í þróun lausnaleitarnáms (e. problem based learning) í Læknadeild í því skyni að tengja það betur við grunngreinar og almenna þætti í þjálfun læknanema. Slík kennsla er mjög nemendamiðuð og eflir færni nemenda í að samþætta nám sitt,“ segir m.a. í umsögn valnefndar um Pétur Henry.

Þá er bent á að Pétur Henry hafi lagt sig fram um að tengja kennsluna við framtíðarstarf nemenda enda hafi þeir jafnan mikinn áhuga á klínískum tengingum þótt oft reynist örðugt að koma til móts við það í grunnnámi. „Loks hefur Pétur Henry gert tilraunir með fjölbreyttara námsmat en almennt tíðkast með því að byggja á verkefnum fremur en lokaprófi og með því að nota einkunnina staðið/fallið í stað tölulegrar lokaeinkunnar sem beinir sjónum frekar að inntaki námsins og þýðingu þess. Slíkar og aðrar breytingar hvetja í sjálfu sér til umræðu um kennslumál og hvernig best megi tryggja gæði menntunar. Í stuttu máli hefur Pétur Henrý hvatt til umræðu um kennslu, tekið þátt í umræðu um kennslu, haft frumkvæði að bættri eða breyttri kennslu og þannig unnið á fjölbreyttan hátt að auknum gæðum náms.“

Hanna

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenninguna fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Hún lauk dr. Philos. prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum í Ósló 2007. Hún var ráðin lektor við Kennaraháskóla Íslands 1998 og hlaut framgang í starf prófessors 2013 við Háskóla Íslands. Árið 2022 tók Hanna jafnframt við stöðu prófessors við Inland Norway University of Applied Sciences til þriggja ára, sem er til marks um það álit sem hún nýtur fyrir fræðistörf sín. 
Rannsóknir Hönnu hafa miðað að mögulegum jöfnuði og umbótum í íslensku menntakerfi. Þær hafa einkum beinst að börnum og fullorðnum af erlendum uppruna og ýmsum þáttum fjölmenningarlegs skólastarfs. Hún hefur birt fjölda greina og bókarkafla í alþjóðlegum og innlendum tímaritum og bókum. Auk þess hefur hún ritstýrt sjö bókum. 

„Hanna hefur tekið þátt í og stýrt alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, meðal annars stýrði hún norræna rannsóknarverkefninu Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Success Stories from Immigrant Students and School Communities in Four Nordic Countries árin 2013-2015. Verkefnið hlaut styrk frá NordForsk og Rannís og var samvinnuverkefni 27 fræðimanna og nemenda í fimm háskólum í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi,“ segir m.a. í umsögn valnefndar
Meðal annarra rannsóknarverkefna sem Hanna hefur leitt má nefna Væntingar og tækifæri innflytjenda á Íslandi til háskólamenntunar og áskoranir henni tengdar, sem hlaut styrk frá Rannís 2016-2018. Árið 2021 hlaut Hanna styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins fyrir verkefnið Promoting cultural diversity in primary and lower-secondary schools (DIVERS-CULT) sem miðar að því að auka þekkingu nemenda og kennara á fjölbreytni í skólum. Einnig hlaut hún styrk úr Erasmus+ áætluninni 2021 fyrir verkefnið Global Teacher Education (GatherED). Fyrr á þessu ári fékk hún svo verkefnisstyrk Rannís vegna rannsóknarinnar Tungumálastefna og starfshættir fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda á Íslandi og áhrif þeirra á menntun. Hanna stofnaði enn fremur Rannsóknastofu í fjölmenningarfræðum ásamt hópi rannsakenda á Menntavísindasviði árið 2007 og leiddi hana fyrstu árin.

Anna

Anna Helga Jónsdóttir, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands. Hún lauk BS-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, meistaraprófi í hagnýtri stærðfræði frá Danska tækniháskólanum (DTU) í Kaupmannahöfn 2005 og doktorsprófi í tölfræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Anna Helga var ráðin dósent í tölfræði við Háskóla Íslands 2018, en var aðjunkt og áður stundakennari í mörg ár. 

„Anna Helga Jónsdóttir hefur ásamt Bjarnheiði Kristinsdóttur stutt dyggilega við bakið á námsbúðunum Stelpur diffra, en námsbúðirnar eru hugarfóstur Nönnu Kristjánsdóttur stærðfræðinema. Markmið búðanna er að auka þátttöku stúlkna og stálpa í heimi stærðfræðinnar þar sem hlutfall kvenkyns nemenda lækkar mikið á hærri menntunarstigum. Í búðunum er stærðfræðin skoðuð í nýju ljósi og lögð áhersla á að kynna þær fræðikonur sem hafa lagt sitt af mörkum innan stærðfræðinnar. Námsbúðirnar eru einnig mikilvægar til að vekja áhuga ungra stúlkna og stálpa á stærðfræði og raungreinum og skapa samfélag fyrir stelpur innan þessara greina þar sem talsverður kynjamunur hefur verið til staðar. Námsbúðirnar voru tilefndar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrr á þessu ári,“ segir í umsögn valnefndar.

Þar er enn fremur bent á að Anna Helga hefur einnig verið virkur þátttakandi í verkefninu Education in a suitcase í samstarfi við Gunnar Stefánsson prófessor, sem byggist m.a. á notkun kennsluhugbúnaðar í stærðfræði og tölfræði, Tutor-Web, sem Anna Helga og Gunnar hafa þróað. „Verkefnið hjálpar nemendum á fátækustu svæðum Afríku til að komast í háskóla sem nýtist ekki síst stúlkum og stálpum. Anna Helga sýnir í verki að stærðfræði er ekki aðeins grein fyrir karla heldur er hún opin einstaklingum af öllum kynjum. Með framlagi sínu hefur hún verið sýnileg og mikilvæg fyrirmynd og hvatning fyrir aðra.“

Kristinn

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari við markaðs- og samskiptasvið Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu er veitt fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi í ljósmyndun frá Harrow College of Higher Education í London árið 1989 og starfaði sem ljósmyndari hjá Þjóðviljanum 1989-1992 og hjá Morgunblaðinu 1992-2015 er hann réð sig til starfa hjá Háskóla Íslands. Ljósmyndir Kristins hafa verið sýndar á sýningum, í bókverkum og eru í eigu listasafna erlendis. 

„Kristinn er framúrskarandi ljósmyndari sem hefur skráð sögu Háskóla Íslands í myndum um árabil. Hann hefur vakið áhuga almennings á Háskóla Íslands með myndum sem prýða jafnt prentað sem stafrænt kynningarefni skólans. Hann hefur myndað stærstu gleðistundir í lífi háskólaborgara, s.s. brautskráningarathafnir, doktorsvarnir og innsetningarathafnir, auk þess sem hann er vakinn og sofinn við ljósmyndun margvíslegra viðburða, undirritun samninga og móttöku erlendra og innlendra gesta. Myndir hans hafa sögulegt gildi til framtíðar. Ljósmyndir Kristins bera vott um einstaka listræna nálgun og næman skilning á sögunni. Hann spilar vel með ljós, skugga, glampa og speglun og fáir hafa jafn mikið vald á gerð potrettmynda og Kristinn,“ segir í umsögn valnefndar. 

Háskóli Íslands óskar þessu framúrskarandi starfsfólki innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. 

Um viðurkenningarnar

Staðið er þannig að viðurkenningunum að öllu starfsfólki og nemendum gefst kostur á að senda inn tilnefningar í gegnum rafræna gátt, auk þess sem formenn kennslumálanefndar, vísindanefndar og jafnréttisnefndar senda inn tilnefningar. 

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Valnefndin er skipuð til þriggja ára í senn og sitja nú í henni Ingileif Jónsdóttir, prófessor, sem er formaður, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus og fyrrverandi varaforseti háskólaráðs, sem er fulltrúi fyrrverandi starfsmanna í nefndinni, og Arnar Þór Másson, ráðgjafi og formaður stjórnar Marel hf., en Arnar Þór er fulltrúi í háskólaráði og jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda í valnefndinni.
 

Handahafar viðurkenninganna ásamt rektor í Hátíðasal skólans.