Skip to main content
3. desember 2015

Fjögur tilnefnd til bókmenntaverðlauna

Þrír kennarar og einn doktorsnemi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku þýðingarverðlaunanna 2015 en tilnefningar voru kunngjörðar þriðjudaginn 1. desember.

Í tilviki Íslensku bókmenntaverðlaunanna er tilnefnt í þremur flokkum, flokki barna- og ungmennabóka, fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Gunnar Theódór Eggertsson, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, er tilnefndur í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Drauga-Dísa sem Vaka Helgafell gefur út, en þess má geta að hann hreppti Íslensku barnabókmenntaverðlaunin 2008 fyrir sögu sína, Steindýrin. 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis eru þau Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, og Gunnar Þór Bjarnason, stundakennari við Hugvísindasvið, tilnefnd. Dagný fær tilnefningu fyrir bókina Bókabörn sem Háskólaútgáfan gefur út en hún hefur að geyma sögu barnabókmennta hér á landi. Gunnar er tilnefndur fyrir bókina Þegar siðmenningin fór fjandans til - Íslendingar og stríðið mikla 1914 1918 sem Mál og menning gefur út en en eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um áhrif fyrri heimstyrjaldarinnar á Íslendinga og um þá hermenn sem fæddir voru á Íslandi og börðust í stríðinu. 

Þá er Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum, tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu á þremur ritgerðasöfnum, Rangan og réttan, Brúðkaup og Sumar, eftir franska rithöfundinn Albert Camus. Í ritgerðasöfnunum er að finna stutta sjálfsævisögulega texta og hugleiðingar sem veita lesendum aðgang að skáldlegustu hlið Camus. Háskólaútgáfan gefur út.

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent um mánaðamótin janúar-febrúar 2016 en Íslensku þýðingarverðlaunin í apríl sama ár.

Gunnar Theodór Eggertsson, Dagný Kristjánsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Gunnar Þór Bjarnason.
Gunnar Theodór Eggertsson, Dagný Kristjánsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Gunnar Þór Bjarnason.
+1

Gunnar Theodór Eggertsson, Dagný Kristjánsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Gunnar Þór Bjarnason eru öll tilnefnd fyrir ný og nýleg verk sín.