Fékk fjármálaráðherra óvænt í heimsókn í munnlegu prófi
Haustmisserisprófum í Háskóla Íslands lauk í liðinni viku og þar með afar annasömum tíma hjá nemendum skólans. Á ýmsu gengur í törnum sem þessum eins og mörg þekkja en óhætt er að segja að þetta prófatímabil gleymist tölvunarfræðinemanum Sigríði Birnu Matthíasdóttur seint. Hún fékk nefnilega óvænt fjármála- og efnahagsráðherra, rektor HÍ og fleira fólk í heimsókn í miðju munnlegu prófi í námskeiðinu „Frá hugmynd að veruleika“. Þar kynnti Sigríður spennandi nýsköpunarverkefni sem miðar m.a. að því að draga úr fatasóun í heiminum með því að gera stafræna tísku aðgengilegri fyrir almenning.
Sigríður sat í makindum sínum að útskýra hugmyndina fyrir prófdómara í húsakynnum tölvunarfræðinnar í Grósku – hugmyndahúsi í Vatnsmýri þegar hina óvæntu gesti bar að garði. Ráðherra var þá í heimsókn í Háskóla Íslands í boði rektors þar sem hann kynnti sér bæði uppbyggingu á háskólasvæðinu, áherslur í stefnu skólans og þann suðupott nýsköpunar sem finna má í Grósku.
„Í fyrstu var ég nú eiginlega ekki sátt við þau að æða svona inn en kennarinn minn, Jóhann Pétur Malmquist, sagði mér bara að leyfa þessu að gerast, ég væri búin að standa mig vel og þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Þá fannst mér þetta bara nokkuð fyndið,” segir Sigríður aðspurð hvernig henni hafi orðið við þegar hún fékk þessa óvæntu heimsókn í miðju prófi.
„Jóhann hvatti mig til þess að segja þeim öllum aðeins frá því sem ég væri að gera. Ég sagði þeim aðallega frá námskeiðinu og smávegis frá verkefninu mínu en það fjallar um stafræna tísku. Fjármálaráðherra sagðist nú aðeins kannast við viðfangsefnið og þá benti ég honum á að ég hefði einmitt verið fengin til þess að fjalla um það í Kastljósi fyrir ekki löngu síðan,“ segir Sigríður Birna, sem hefur áður lært fatahönnun og annars konar hönnun hér heima og erlendis og unnið verkefni og haldið sýningar undir listamannsnafninu Digital Sigga.
Þróar stafrænan fatnað
Sem hönnuður og listamaður hefur Sigríður unnið á mörkum hins raunverulega og stafræna heims og m.a. sagt sóuninni í hraðtískuiðnaðinum stríð á hendur. Hún hóf að feta þessa braut fyrir nokkrum árum með verkefninu Paperdolls sem er ádeila á áhrifavaldamarkaðinn og þá fatasóun sem fylgt getur honum, eins og fjallað var um í áðurnefndum Kastljósþætti.
„Stafræn tíska felst í hönnun og sölu á tískuvarningi fyrir stafrænan vettvang og gengla (e. avatars). Þessi nýsköpun getur valdið byltingu í tískuiðnaðinum því hún vinnur gegn fjöldaframleiðslu og sóun á fatnaði,“ segir á vef Sigríðar um stafræna tísku. MYND/Digital Sigga
Undanfarin misseri hefur Sigríður svo verið að þróa stafrænan fatnað sem er eins og gefur að skilja mun umhverfisvænni en sá sem við kaupum og klæðumst, stundum kannski bara einu sinni fyrir samfélagsmiðla. „Verkefnið sem ég er að vinna að með Jóhanni gengur út á það að gera stafræna tísku aðgengilegri fyrir almenning. Þetta verkefni krefst tæknikunnáttu og þekkingu á sviði fatahönnunar svo þetta er fullkomið fyrir mig,“ segir Sigríður um verkefnið sem hún vann í námskeiðinu og kynnti í munnlega prófinu.
Aðspurð segist hún ætla að halda áfram að þróa verkefnið í framhaldsnámskeiði sem Jóhann Pétur hyggst bjóða upp á á vormisseri og ber heitið „Frá hugmynd að veruleika II“, en námskeiðið hefur í gegnum árin getið af sér fjölmargar spennandi viðskiptahugmyndir sem orðið hafa grunnur að nýjum tækifærum fyrir nemendur og reyndar samfélagið allt.
Tölvur og hinn stafræni heimur stóran sess í listsköpun og hönnunarvinnu Sigríðar og því kemur ekki á óvart að nám í tölvunarfræði nýtist þar vel. „Möguleikarnir eru endalausir. Það kemur mér eiginlega bara hrikalega á óvart að það séu engar námsbrautir í boði á Íslandi sem samnýta þekkingu frá listum og öðrum hefðbundnum fögum. Tölvunarfræði er sérstaklega áhugaverð að mínu mati vegna þess hversu tölvuvænt allt er orðið og það mun bara færast í aukana ef eitthvað er,“ segir Sigríður.
Óþrjótandi möguleikar í samspili lista, hönnunar og stafrænnar tækni
Sigríður er á þriðja ári í tölvunarfræði og aðspurð hvers vegna hún hafi ákveðið að skrá sig í námið segist hún hafa sérstakan áhuga á tölvugerðri list og hönnun. „Ég vinn mikið í tölvu, líka áður en ég byrjaði í tölvunarfræðinni. Ég vinn í myndvinnsluforritum, þrívíddarforritum og viðbótarraunveruleika (e. augmented reality). Mestan áhuga hef ég á stafrænni tísku en fyrsta gráðan mín er í fatahönnun. En svo elska ég líka stærðfræði. Ég skráði mig svo í tölvunarfræði þegar COVID skall á því mig langaði að nýta tímann í eitthvað gagnlegt. Ég hafði misst vinnuna í faraldrinum og ákvað að taka frekar námslán heldur en að fara á atvinnuleysisbætur. Ég ætlaði bara að taka eitt ár en svo bara var þetta skemmtilegra en ég átti von á og ekki eins hrikalega erfitt og ég bjóst við, þótt þetta sé vissulega búið að vera krefjandi. Nú á ég eina önn eftir þannig að ætli það sé ekki best að klára hana bara?“ segir Sigríður létt í bragði.
Eins og sjá má af fyrri verkum Sigríðar skipa tölvur og hinn stafræni heimur stóran sess í hennar listsköpun og hönnunarvinnu og því kemur ekki á óvart að nám í tölvunarfræði nýtist þar vel. „Möguleikarnir eru endalausir. Það kemur mér eiginlega bara hrikalega á óvart að það séu engar námsbrautir í boði á Íslandi sem samnýta þekkingu frá listum og öðrum hefðbundnum fögum. Tölvunarfræði er sérstaklega áhugaverð að mínu mati vegna þess hversu tölvuvænt allt er orðið og það mun bara færast í aukana ef eitthvað er. Það er hægt að láta ótrúlegustu hugmyndir verða að veruleika með aðstoð tækninnar. Það er hægt að nýta forritun í alls konar grafík, viðbótarveruleika og sýndarveruleika, tölvuleikjagerð og við tónlistarsköpun. Ég hef einmitt líka verið að gera tónlist með forritun sem er rosalega skemmtilegt,“ Sigríður sem hefur lagt stund á söngnám samhliða tölvunarfræðináminu.
Gekk gríðarvel í munnlega prófinu
En hvað skyldi taka við að loknu námi í tölvunarfræði? „Ég er allavega búin að mennta mig nóg í bili. Ég vonast til þess að starfa við eitthvað þverfaglegt og áhugavert, kanna ótroðnar slóðir. Ég mun a.m.k. ekki láta mér leiðast,” segir Sigríður og brosir.
Ekki er hægt að sleppa Sigríði án þess að spyrja hinnar klassísku spurningar í prófatíð, hvernig gengið hafi í munnlega prófinu. „Prófið gekk ljómandi vel þrátt fyrir truflun og ég fékk rosalega góða umsögn og bestu mögulegu einkunn. Ég gæti ekki verið sáttari með þetta námskeið og mína frammistöðu,“ segir Sigríður að endingu.