Færni- og hermikennsla í heilbrigðisvísindum stóreflist með HermÍs

Hermi- og færnikennsla í heilbrigðisvísindum stóreflist með nýju Hermisetri Háskóla Íslands og Landspítala (HermÍs) sem var opnað formlega í Eirbergi í gær, 30. apríl. Setrið er ætlað bæði nemendum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og starfsfólki Landspítalans og þar er að finna kennsluaðstöðu sem mun efla íslenskar heilbrigðisstéttir mikið til framtíðar og auka öryggi sjúklinga.
HermÍs grundvallast á samstarfi Heilbrigðisvísindasviðs og menntadeildar Landspítala og hefur m.a. hlotið stuðning frá heilbrigðisráðuneytinu og úr samstarfssjóði háskóla á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Setrið er hugsað fyrir allar heilbrigðisgreinar innan Háskóla Íslands og allt starfsfólks Landspítala.
Ávörp við opnun setursins fluttu Alma Möller heilbrigðisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, auk þess sem Þorsteinn Jónsson, aðjunkt við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild og forstöðumaður HermÍs, kynnti starfsemi setursins.
Í myndbandinu hér að ofan má sjá þau fjölbreyttu verkefni sem hægt er að þjálfa innan HermÍs.
Gefur færi á fjölgun nemenda í heilbrigðisgreinum í framtíðinni
Í setrinu fer fram færni- og hermikennsla sem felst í því að herma með tæknibúnaði eða sýndarsjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Um leið er markmiðið með HermÍs að fjölga þeim nemendum sem hægt er að taka inn í klínískt nám í heilbrigðisgreinum en með setrinu verður mögulegt, þegar fram í sækir, að færa hluta af klínísku námi nemenda frá heilbrigðisstofunum yfir í setrið án þess að afsláttur sé gefinn af þjálfun nemenda.
„Nú hefst nýtt tímabil í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks sem felur í sér mikið framfaraskref. Við leitum sífellt leiða til að auka öryggi sjúklinga og ef við getum samtímis veitt heilbrigðisstarfsfólkinu okkar tækifæri til að eflast enn frekar í starfi og takast á við áskoranir af auknu öryggi og fagmennsku þá erum við að ná mörgum markmiðum. Þjálfun, öryggi og vellíðan í starfi er mikilvægur liður í þeirri áskorun að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði Alma Möller heilbrigðisráðherra við opnun setursins.
Alma Möller heilbrigðisráðherra ávarpar gesti við opnun setursins. MYND/Kristinn Ingvarsson
Uppbygging setursins á annarri hæð Eirbergs hefur staðið yfir frá því í upphafi árs 2024. Setrið er um 500 fermetrar í sex ólíkum og rúmgóðum kennslurýmum sem hægt er að breyta og aðlaga að ólíkum verkefnum. Í setrinu er t.d. að finna eftirlíkingu af skurðstofu sem gefur ólíkum stéttum sem koma að skurðaðgerðum tækifæri á að efla teymisvinnu, en slíkt hefur ekki verið hægt áður.
„Rannsóknir sýna að hermikennsla eykur færni nemenda í klínískum aðstæðum og eykur öryggiskennd þeirra. Nauðsynin fyrir hermikennslu mun aukast áfram. HermÍs hefur vakið athygli innanlands og utan með áformum um að tengja starfsstéttir, eins og lögreglu og sjúkraflutningafólk, við hermikennslu,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, við opnun setursins. MYND/Kristinn Ingvarsson
500-600 manns nota setrið mánaðarlega
Stærsti notendahópur setursins kemur frá Menntadeild Landspítala, en það er starfsfólk spítalans sem sækir endurmenntun og þjálfun í ólíkum viðfangsefnum innan spítalans. Setrið er hins vegar einnig hugsað fyrir nemendur í öllum heilbrigðisgreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands og eru nemendur við Læknadeild vaxandi notendahópur. Auk þess verður færnisetur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, sem starfrækt hefur verið um langt árabil, hluti af hinu nýja setri.
Fjöldi fólks sem starfar við Háskóla Íslands og Landspítala var viðstaddur opnun HermÍs. MYND/Kristinn Ingvarsson
„Opnun HermÍs er stór áfangi í þróun menntunar í heilbrigðisvísindagreinum hér á landi og endurspeglar þá öru þróun sem orðið hefur í kennslu og þjálfun heilbrigðisstarfsstétta á undanförnum árum. Landspítali er ein helsta kennslustofnun landsins á sviði heilbrigðisvísinda, einkum á seinni stigum náms þegar klínísk þjálfun verður áberandi. Í hermisetrinu verður hægt æfa samskipti, ákvarðanatöku og verklag í öruggu umhverfi án þess að hætta sé á skaða fyrir sjúklinga. Með þessu eykst öryggi bæði nemenda og sjúklinga, þar sem starfsfólk fær tækifæri til að öðlast dýrmæta reynslu og festa verklag í sessi áður en það kemur til framkvæmda í raunverulegum aðstæðum,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
„Í setrinu er hægt að æfa teymisvinnu, t.d. hvernig skuli bregðast við þegar einhver í teyminu lendir í vandræðum eða eitthvað fer úrskeiðis í verkum inni á spítölum, og þetta teljum við að muni skila miklu öflugra starfsfólki þegar á hólminn er komið,” segir Þorsteinn Jónsson, aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og forstöðumaður HermÍs sem hefur stýrt uppbyggingu setursins. MYND/Kristinn Ingvarsson

Um 500-600 einstaklingar nýta setrið í hverjum mánuði og aðsókn vex hratt. Í setrinu er nýttar 17 ólíkar kennsluaðferðir sem tengjast starfi heilbrigðisstofnana. Að hverri stærri hermiæfingu koma að jafnaði á bilinu 6-8 manns en í minni raunfærniþjálfun, eins og við uppsetningu æða- eða þvagleggja, er möguleiki á að hafa allt að 20 manns í einu.
Þorsteinn Jónsson, forstöðumaður HermÍs, með nemendum í setrinu. MYND/Kristinn Ingvarsson
„Í setrinu er hægt að æfa teymisvinnu, t.d. hvernig skuli bregðast við þegar einhver í teyminu lendir í vandræðum eða eitthvað fer úrskeiðis í verkum inni á spítölum, og þetta teljum við að muni skila miklu öflugra starfsfólki þegar á hólminn er komið. Hér er hægt að „leyfa sér“ að gera mistök en við þekkjum það öll úr raunheimum að maður lærir aldrei meira af því en þegar maður misstígur sig,” segir Þorsteinn Jónsson, aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og forstöðumaður HermÍs sem hefur stýrt uppbyggingu HermÍs.
Þungamiðjan er kennslan
Í setrinu er hægt að kenna og þjálfa þætti sem ekki er hægt að gera með öðrum hætti, s.s. möguleiki á að endurtaka tilfelli, viðfangsefni eða inngrip eins oft og þörf er á og um leið stjórna erfiðleikastigi kennslunnar, allt út frá þörfum þátttakenda. Þungamiðjan í setrinu er því kennslan en hún er afar vel skipulögð. Í framhaldi af verkefni er farið kerfisbundið yfir hvað gekk vel, hvað má betur fara og hvað nemendur hafa lært. Þeir öðlast því aukna þekkingu og sjálfstraust að sögn Þorsteins. „Þú kemst ekki nær raunverulegum aðstæðum en hefur um leið rými til að gera mistök og læra af þeim,“ segir hann.
Hermisetrið er búið nýjustu tækni í kennslu heilbrigðisgreina. MYND/Kristinn Ingvarsson
Með hinu nýja færni- og hermisetri standa Landspítalinn og Háskóli Íslands jafnfætis sambærilegum stofnunum víða um heim þegar kemur að hermikennslu og þjálfun heilbrigðisstétta. „Kosturinn er sá að hér eru heilbrigðisstofnun og háskólastofnun að sameina krafta sína og það er ekki alveg sjálfsagt úti í hinum stóra heimi,“ segir Þorsteinn enn fremur.
Hermikennsla eins og sú sem boðið er upp á í setrinu er vinsæl kennsluaðferð meðal nemenda og sú sem nemendur kjósa fram yfir aðrar kennsluaðferðir. „Rannsóknir sýna að fólk man allt að 70% af því sem það fæst við í setrum sem þessum og því hentar aðferðin mun betur en fyrirlestrar sem hafa verið hið hefðbundna kennsluform,“ segir Þorsteinn enn fremur.
Stór hópur kemur að þjálfun fólks og starfsemi HermÍs og hér er Þorsteinn ásamt hluta samstarfsfólks síns. MYND/Kristinn Ingvarsson
Eykur öryggi sjúklinga
Í allri umgjörð, uppbyggingu og starfsemi HermÍs, er lagt upp með að vinna samkvæmt alþjóðlegum gæðastöðlum og viðmiðum í færni- og hermikennslu. Stefnt er að því fá alþjóðlega viðurkennda vottun á starfsemi setursins. Þá er einnig unnið að nýsköpun innan setursins á nýjum kennsluaðferðum og tækni, m.a. í samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki.
Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslegan ávinning hermisetursins, hann er margþættur. „Gögn okkar sýna að nemendur telja sig læra mjög margt sem þau geta svo nýtt í starfi, faglegt sjálfstraust hjá þeim eykst og umfram allt telja þau að þetta hafi áhrif á öryggi sjúklinga sem er afar mikilvægt,“ segir Þorsteinn og bætir við að um leið fái ólíkar stéttir betri innsýn í störf og verkefni hverrar annarrar.
Þorsteinn Jónsson, aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og forstöðumaður HermÍs, segir hér Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, Unni Önnu Valdimarsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, og Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala, frá möguleikum setursins. MYND/Kristinn Ingvarsson