Fær útrás fyrir áhugamálið gegnum kennslu og rannsóknir
„Mér finnst fátt skemmtilegra en að kenna næringartengd fög. Þó að hlaupin séu mín ástríða þá er næringarfræðin mitt fag og það er mjög gott að geta fengið útrás fyrir því áhugamáli í gegnum kennsluna og rannsóknir. Það er líka gaman að geta sagt aðeins frá eigin reynslu þegar ég fjalla um íþróttanæringu, eins og að lýsa öfgakenndum aðstæðum í eyðimörkinni,“ segir Elísabet Margeirsdóttir, afreksíþróttakona og aðjunkt í næringarfræði við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands. Elísabet vakti mikla athygli á dögunum þegar hún lauk rúmlega 400 kílómetra hlaupi í Góbí-eyðimörkinni.
Elísabet lét sér hins vegar ekki nægja að klára hlaupið heldur var fyrst kvenna í mark, sú níunda í heildarkeppninni og jafnframt fyrsta konan sem lýkur hlaupinu á innan við 100 klukkustundum. Afrekið er ótrúlegt þegar horft er til þess að hún glímdi bæði við steikjandi hita á daginn og nístandi kulda á nóttunni auk þess sem ýmsar kerfjandi hindranir urðu á veginum, eins og straumharðar ár og fjalllendi en Elísabet fór alla leið upp í 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli í hlaupinu.
Í ofurhlaupum í nærri áratug
Elísabet hefur í tæp tíu ár lagt stund á ofurhlaup en fyrsta áskorun hennar á þeim vettvangi var Laugavegshlaupið milli Landmannalauga og Þórsmerkur árið 2009. „Síðan þá hef ég aldrei tekið hlé og alltaf fundið mér ný og spennandi markmið í hlaupunum. Árið 2011 tók ég þátt í mínu fyrsta 100 km hlaupi en það var um 120 km langt í kringum Mt. Blanc og með 7.000 metra samanlagðri hækkun. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að æfa fyrir þessi hlaup og ég hrífst af áskoruninni að ljúka erfiðum keppnum,“ segir hún.
Aðspurð segir hún undirbúninginn fyrir Gobi-hlaupið í raun hafa staðið yfir frá því að hún byrjaði að taka þátt í ofurhlaupum. „Það hefði verið erfitt að fara í gegnum þetta án reynslunnar sem ég er búin að safna. Ég einblíndi á keppnina í um þrjá mánuði með áherslu á löng hlaup en bætti einnig við miklum styrktaræfingum samhliða hlaupunum,“ segir hún um undirbúninginn.
Áhersla á fjölbreytt og hollt mataræði í afreksþjálfun
Elísbet státar af gráðum í lífefnafræði og næringarfræði og sú þekking nýtist vel í afreksþjálfuninni. „Ég legg áherslu á fjölbreytt og hollt mataræði. Ég er ekki á neinum kúr og reyni að hafa hlutina ekki of flókna. Þegar maður er búinn að hreyfa sig mikið í langan þá lærir maður að hlusta á líkamann og ég veit alltaf sirka hvernig ég þarf að nærast til að halda mér í góðu jafnvægi. Vissulega fer ég eftir fræðunum upp að ákveðnu marki og það er alltaf ákveðin hugsun á bak við það sem ég geri en í svona löngum keppnum þá fara fræði og praktík ekki alltaf saman. Ýmislegt getur komið upp og það getur verið gríðarlega mikill munur á næringarþörfum einstaklinga,“ bendir hún á.
Elísabet hefur síðastliðin tvö ár kennt íþróttafræðinemum við Háskóla Íslands næringarfræði, m.a. næringu í afreksþjálfun. „Ég finn fyrir auknum áhuga á faginu og legg mikla áherslu á að ná til nemendanna og finna leiðir til að auka áhuga þeirra enn frekar. Næring snertir marga fleti samfélagsins og því er oft gott að geta tekið dæmi úr t.d. fjölmiðlum og umræðunni til að fá nemendur til að tengja betur við fræðin og hugtökin sem þau eru að læra,“ segir hún enn fremur.
Aðspurð segir Elísabet það ganga ágætlega að samræma kennslu og rannsóknir og stífar æfingar fyrir hlaup. „Langmestur frítími fer í æfingar og þá sérstaklega ef ég er að æfa fyrir eitthvað sérstakt. Mér hefur tekist ágætlega að stilla þetta saman og fer yfirleitt alltaf út að hlaup á morgnana og síðan æfi ég flesta daga seinni partinn líka,“ bætir hún við.
Sú spurning vaknar að loknu því gríðarlega afreki sem Gobi-hlaupið er hvert hugurinn hjá Elísabetu stefni næst og hvort nýtt ofurhlaup sé á sjóndeildarhringnum. „Það verða alltaf ný hlaup og ný markmið en eins og er hef ég ekkert ákveðið hvað verður næst. Það er ólíklegt að ég nái einhverju á þessu ári en verð klárlega komin með hlaupadagskrá fyrir næsta ár fljótlega,“ segir Elísabet að endingu.