Skip to main content
2. mars 2016

Erla Hulda ráðin lektor í kvenna- og kynjasögu

""

Erla Hulda Halldórsdóttir hefur verið ráðin í starf lektors í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Erla hefur unnið á sviði kvenna- og kynjasögu í um tuttugu ár sem forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, sérfræðingur hjá RIKK, sjálfstætt starfandi fræðimaður, doktorsnemi og nýdoktor. Hún hefur starfað sem sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands frá 1. janúar 2015.

Erla lauk doktorsprófi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2011. Doktorsritgerð hennar, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903, var gefin út sama ár.

Sverrir Jakobsson, formaður námsbrautar í sagnfræði, segir að ætlun deildarinnar sé að auka áherslu á kvenna- og kynjasögu í sagnfræði og hugvísindum við Háskóla Íslands. Nýjum lektor sé ætlað að vinna að eflingu þessa fræðavettvangs, sinna kennslu og rannsóknum, ásamt því að hafa umsjón með lokaverkefnum grunn-, meistara- og doktorsnema. Á því sviði hafi aldrei verið föst staða við námsbrautina þó að kennsla og rannsóknir á sviðinu eigi sér langa sögu innan Háskóla Íslands. Fyrsta lokaritgerðin um kvennasögu hafi verið rituð 1967 og kennsla í kvennasögu hafist veturinn 1982-1983. Því sé löngu tímabært að ýta undir frekari rannsóknir og kennslu á þessu sviði með ráðningu lektors með þessa sérþekkingu.

Starfsmannavefur Erlu Huldu.

Erla Hulda Halldórsdóttir
Erla Hulda Halldórsdóttir