Skip to main content
8. maí 2025

Endurnýjun gæðavottunar doktorsnáms á Heilbrigðisvísindasviði

ORPHEUS vottun afhent HVS

Ráðstefna ORPHEUS, samtaka um gæði í doktorsnámi á sviði heilbrigðis- og lífvísinda, var haldin í Dubrovnik í Króatíu 10.-12. apríl síðastliðinn. Við hátíðlega athöfn á ráðstefnunni fékk Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands endurnýjaða gæðavottun alls doktorsnáms á fræðasviðinu. Vottunina hlaut Heilbrigðisvísindasvið upphaflega í apríl árið 2016 að undangengnu ítarlegu vottunarferli. Í tengslum við þriðju endurskoðun gæðastaðalsins, Best Practices in Doctoral Education, á síðasta ári var öll vottun endurmetin og hefur nú formlega verið staðfest að Heilbrigðisvísindasvið HÍ uppfylli staðalinn samkvæmt núgildandi útgáfu hans. Þetta er mikill heiður fyrir sviðið.

ORPHEUS eru samtök um doktorsnám í líf- og heilbrigðisvísindum í Evrópu en samtökin voru stofnuð árið 2004. Markmið ORPHEUS er að tryggja stöðu doktorsnáms sem rannsóknarnáms með því að styðja við doktorsnámssvið, deildir og fræðigreinar, rannsóknarnema og leiðbeinendur þeirra, með gæðatryggingarkerfum, miðlun bestu starfshátta, faglegri þróun og fræðslu.
 

Lárus S. Guðmundsson formaður Doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands tekur við ORPHEUS-vottunarskjali frá John Creemers forseta ORPHEUS.

Lárus S. Guðmundsson, formaður doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, tekur við ORPHEUS-vottunarskjali frá John Creemers, forseta ORPHEUS.