Skip to main content
17. mars 2021

Deilumál rædd á stefnumóti við sjávarútveginn

Deilumál rædd á stefnumóti við sjávarútveginn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi áttu stefnumót við lykilaðila í sjávarútvegi þriðjudaginn 16. mars en þetta var í fjórða sinn sem slíkt stefnumót fer fram innan námskeiðsins.  Yfirskrift stefnumótsins að þessu sinni var „Fæðuöryggi með sjálfbærni að leiðarljósi“ og fór það fram í Hátíðasal að viðstöddum nemendum og góðum gestum en var jafnframt sent út í streymi.

Jon Atli

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setur viðburðinn.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fagnaði þessu framtaki Viðskiptafræðideildar og skipuleggjanda þess, Ástu Dísar Óladóttur, þegar hann setti stefnumótið. Hann benti á að ef það væri einhver íslensk atvinnugrein sem væri sannarlega á heimsmælikvarða þá vær það sjávarútvegurinn okkar. „Hvort sem litið er til reynslu, arðsemi, nýsköpunar eða sjálfbærni, þá höfum við nú um nokkurt skeið verið meðal fremstu þjóða. Það er að mínu mati ekki tilviljun. Ein af lykilforsendunum er farsælt samstarf atvinnulífsins og Háskólans. Samstarf sem byggir á reynslu þeirra sem þekkja rekstur og útgerð annars vegar og sérfræðikunnáttu þeirra sem hafa rannsakað hér við Háskóla Íslands hins vegar. Úr þessu samstarfi hafa orðið til fjölmargir spennandi sprotar. Og margir þessara sprota hafa orðið burðarásar í íslensku atvinnulífi. Og ekki sér fyrir endann á því,“ sagði Jón Atli m.a. í setningarávarpi sínu.

Thordis Kolbrun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ávarpar gesti í Hátíðasal.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar ræddi um undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga út frá sjónarhóli málefna sem standa henni nærri, það er að segja nýsköpunar, orkuskipta og sjálfbærni en sjávarútvegur stæði á sterkum stoðum hvað þetta varðar. „Við erum réttilega stolt af þeirri sjálfbæru nýtingu auðlinda hafsins í íslenskri lögsögu, sem náðst hefur fram með farsælu samspili vísindalegra ákvarðana um nýtinguna annars vegar og viðskiptalegra forsendna fyrir arðbærum veiðum hins vegar. Þetta er samspil sem er ekki sjálfsagt, eins og við þekkjum bæði af okkar eigin reynslu í fortíðinni, og reynslu annarra fram á þennan dag. Nýsköpun er annar vettvangur þar sem íslenskur sjávarútvegur stendur sterkum fótum. Reynslan hefur sýnt að nýsköpun dafnar ekki hvað síst í kringum rótgróna starfsemi á borð við sjávarútveg, sem hefur styrk og burði til að láta reyna nýjar lausnir,“ sagði Þórdís Kolbrún m.a. Þá nefndi Þórdís Kolbrún að einhver stærstu skref Íslands á næstu árum verði þau sem sameina nýsköpun og sjálfbærni og að einn mikilvægasti skurðpunktur þessara málaflokka væru orkuskipti. Ný orkustefna feli í sér markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2050 og Þórdís Kolbrún telur að við eigum að hafa það markmið að verða fyrst. Það myndi ekki bara vekja heimsathygli heldur treysta orkuöryggi okkar, spara mikinn gjaldeyri og leggja grunn að nýjum iðnaði, störfum og útflutningi.

Asta Dis

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, og kennari í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi.

Ásta Dís ræddi þær mikilvægu áskoranir sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir og snúa allar með einum eða öðrum hætti að umræðuefni stefnumótsins. Hún nefndi að náttúruauðlindir væru takmarkaðar sem setti vexti greinarinnar ákveðnar skorður en að Íslendingar hefðu gert vel því fiskveiðistjórnunarkerfið væri til fyrirmyndar. Hins vegar væru veiðigjöldin sífellt deilumál í samfélaginu. Þá nefndi Ásta að samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna skal fæðuöryggi tryggt og hungri útrýmt m.a. með sjálfbærum sjávar- og landbúnaði fyrir árið 2030. Þjóðir heimsins hefðu því tæp 9 ár til að ná því markmiði. Þetta er mikil áskorun því í dag búa rúmlega 800 milljónir manna við hungur í heiminum og yfir tveir milljarðar við ótryggt fæðuöryggi.  Þá gera spár ráð fyrir að mannfjöldi í heiminum verði um 10 milljarðar árið 2050. Því þarf að skoða vel með tilliti til sjálfbærnisjónarmiða hvaða fæðu við getum framleitt meira af til að ýta undir fæðuöryggi. 

Fæðuöryggi, sjálfbærni og veiðigjöld til umræðu

Sato

Hiroyuki Sato flutti erindi um netið. Skjáskot úr útsendingu.

Flutt voru þrjú erindi á stefnumótun. Hiroyuki Sato, manager of Sustainability Promotion Group, Corporate Planning Department at Maruha Nichiro Corporation reið á vaðið og flutti erindi um það hvernig langstærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims, Maruha Nichirio, hefur reynt að auka fæðuöryggi með sjálfbærni. Maruha Nichirio varð til með samruna tveggja rúmlega 100 ára gamalla fyrirtækja árið 2007, er með starfsstöðvar í fimm heimsálfum og rúmlega 12.300 starfsmenn. Til að setja stærð fyrirtækisins í samhengi við íslenskan sjávarútveg þá er velta þessa fyrirtækis rúmlega þreföld útflutningsverðmæti sjávarafurða hér á landi árið 2020.

Eva

Eva Dögg Jóhannesdóttir í pontu í Hátíðasal. Skjáskot úr útsendingu.

Næst tók Eva Dögg Jóhannesdóttir, líffræðingur hjá Arctic Fish, til máls og fór yfir hvernig nýta mætti sjóeldi til umhverfisvænnar framleiðslu dýrapróteins á bláum ökrum heimsins. Mikið var rætt um uppbyggingu Arctic Fish á Vestfjörðum og hvernig fyrirtækið hefur byggt upp starfsemi sína. Eva sagði frá því að laxeldi væri rúmlega 10% af útflutningsverðmætum sjávarafurða nú og á heimsvísu sæi eldi fyrir um 50% af heildarframleiðslu sjávarafurða. Laxeldi er að mati Evu umhverfisvæn framleiðsla á dýrapróteini því mun minna fóður þarf til að framleiða hvert kg af laxi heldur en kjúklinga, svína- eða nautakjöt, eða 1,2 kg af fóðri á hvert kg af laxi á meðan nautakjötið þarf 8 kg af fóðri. Eva Dögg fékk spurningu frá nemanda um það hvers vegna laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum hefði farið vel á stað en laxeldi á norðanverðum Vestfjörðum, og þá sérstaklega í Djúpinu, hefði farið hægar á stað. Eva Dögg svaraði því með vísun í burðarþol og áhættumat svæða. Burðarþol í Ísafjarðardjúpi heimilar 30.000 tonna eldi en áhættumat einungis 12.000 tonn.  Stutta svarið væri að hennar mati: „Stjórnvöld og skortur á stefnumótun stjórnvalda, umhverfismat hefur tekið 10 ár, ætti að taka eitt ár, en hægagangur stjórnvalda og skortur á stefnumótun er svarið við spurningunni.“ Þá nefndi hún að við Íslendingar værum ekki alveg búin að ákveða okkur hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stór.

Eva

Pétur H. Pálsson í pontu. Skjáskot úr útsendingu.

Þá tók Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, til máls og ræddi um veiðigjöld í sjávarútvegi. Hann sýndi ofangreinda mynd frá Reykjanesi og bað viðstadda að fyrirgefa ef einhverjar stafsetningavillur væru, hann hefði skrifað erindið undir miklum skjálftahrinum. Pétur benti á að þarna mætti sjá auðlindir Íslands, hausaþurrkun sem byggðist á hita frá hitaveitunni, orkuver, 50°heitt vatn og fiskimiðin sjálf. „Þessi mynd er dæmigerð um stærstu auðlindir Íslands og því spyr maður sig, af hverju er ég ekki að tala um auðlindagjöld? Stærstu auðlindirnar eru auðvitað orkufyrirtækin og ástæðan fyrir því að þau eru ekki með auðlindagjöld er sú að þau eru að mestu leyti í eigu hins opinbera og þá yrði reikningnum bara varpað á notendur og það væri bara hringur, menn eru ekkert að því,“ sagði hann m.a. Þá nefndi hann að sjávarútvegurinn hefði staðið af sér hvern storminn á fætur öðrum og það væri ekki tilviljun.

Pétur fékk spurningu frá nemanda hver væri óskastaða útgerðanna varðandi veiðigjöldin, hvort það væri að fella þau alfarið niður eða hvort hagsmunaðailar hefðu einhverjar leiðir í huga sem þeim hugnaðist betur en núverandi kerfi sem felur í sér greiðslu veiðigjalda. Pétur sagði að það skipti ekki máli hvað útgjöldin hétu, best væri að hafa skatta afkomutengda. Fyrirtækið væriu með í besta falli 30% framlegð og spurningin væri hvernig samfélagið vildi að þeir peningar væru nýttir. Það skipti ekki málið hvert formið væri, það leiddi til sömu niðurstöðu. Aðalatriðið væri að fyrirtækin hefðu nægt afl til að gera það sem þarf að gera og þau þyrftu að hafa svigrúm til að gera það sem blasir við að þurfi að gera.

Það voru meistaranemendurnir Edda Matthíasdóttir og Sveinn Friðrik Sveinsson sem stýrðu umræðum fyrir hönd nemenda.

Upptaka af stefnumótinu

Fleiri myndir frá stefnumótinu

Gestir á stefnumóti í Sjávarútvegi