Carbfix-verkefnið fær evrópsk nýsköpunarverðlaun
Carbfix-verkefnið, sem vísindamenn Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur hafa unnið að í yfir áratug ásamt erlendu samstarfsfólki, hlaut í gær Nýsköpunarverðlaun evrópska jarðhitaráðsins (EGEC, the European Geothermal Energy Council) árið 2020. Verðlaunin eru veitt aðilum fyrir framúrskarandi framlag á sviði jarðvarma í formi nýsköpunar, rannsókna eða nýstárlegra verkefna.
Carbfix-verkefnið hófst árið 2007 með það að markmiði að þróa iðnaðarferli til þess að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera og beint úr andrúmslofti og binda það í bergi. Enn fremur að þjálfa unga vísindamenn til þess að tryggja að hin nýja þekking bærist hratt til komandi kynslóða. Verkefnið hefur fengið marga veglega alþjóðlega rannsóknarstyrki á undanförnum árum.
Upphafsstofnanir verkefnisins voru Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Columbia-háskólinn í New York og Franska rannsóknarráðið (CNRS) í Toulouse í Frakklandi. Síðan þá hefur fjöldi erlendra og innlendra stofnana og fyrirtækja tekið þátt í verkefninu en núverandi hópur samanstendur af Orkuveitunni, Háskóla Íslands, CNRS, Climeworks, nýsköpunarfyrirtæki í Zurich, og Amphos21, ráðgjafafyrirtæki í Barcelona.
Í dag er koltvíoxíð og brennisteinsvetni fangað úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar og koltvíoxíð fangað beint úr andrúmslofti. Gastegundirnar eru svo leystar upp í vatni sem veitt er niður í borholu og með tímanum breytist það í grjót djúpt í jörðu.
Alls hafa 13 doktorsnemar varið ritgerðir sínar í tengslum við Carbfix-verkefnið, flestir þeirra frá Háskóla Íslands, en hluti þeirra leiðir nú verkefnið. Þeirra á meðal er Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix, dótturfélags sem Orkuveita Reykjavíkur ákvað að stofna um aðferðina í fyrra til þess að auka útbreiðslu hennar í heiminum.
Nýsköpunarverðlaun evrópska jarðhitaráðsins eru alla jafna afhent á GeoTHERM, stærstu sýningu og ráðstefnu á sviði jarðvarma í Evrópu ár hvert. Vegna kórónuveirufaraldursins var ráðstefnunni hins vegar frestað en verðlaunin afhent á rafrænni verðlaunaafhendingu í gær. CarbFix deilir verðlaununum með þýska fyrirtækinu Eavor.
Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, er einn af stofnendum Carbfix en hann hefur verið formaður Vísindaráðs þess frá upphafi. Hann var að vonum ánægður með viðurkenninguna. „Nýsköpunarverðlaunin hvetja Carbfix-hópinn til dáða við að beita aðferðinni vítt og breitt um heiminn til þess að draga úr losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið og þar með úr hlýnun þess, hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar,“ segir Sigurður Reynir sem var í fyrra sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra jarðvísinda og kolefnisbindingar.