Brjáluð fræði kynnt til sögunnar á málþingi 1. mars

Nýtt og spennandi fræðasvið í mótun, Brjáluð fræði, verður í brennidepli á málþingi í Norræna húsinu 1. mars en málþingið er liður í Uppskeru, menningarhátíð fötlunarfræða, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks í Reykjavík sem haldin er í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða við HÍ.
„Brjáluð fræði er íslenskun á ensku orðunum Mad Studies. Þetta er fræðasvið í mótun sem fjallar um sögu, menningu, pólitík, lifaða reynslu og baráttumál fólks sem skilgreinir sig meðal annars sem „Mad”, „Psychiatric survivors”, notendur geðheilbrigðiskerfisins, fólk með reynslu af andlegum áskorunum og fleira,“ segir Gunnhildur Una Jónsdóttir, MA-nemi í fötlunarfræðum við HÍ og MFA í myndlist frá Carnegie Mellon háskóla, sem á veg og vanda að undirbúningi málþingsins.
Blöskraði hve rödd notenda geðheilbrigðisþjónustu var metin léttvæg
Reynsla Gunnhildar af andlegum áskorunum og geðheilbrigðiskerfinu kveikti áhuga hennar á fræðasviðinu. „Í reynslu minni af samskiptum við geðheilbrigðiskerfið hefur mér blöskrað hversu léttvæg rödd einstaklinganna er stundum í því samhengi. Mér finnst mikilvægt að nýta persónulega reynslu mína til góðs í fræðastörfum og aktívisma,“ segir Gunnhildur sem skrifaði bókina „Stórar stelpur fá raflost. Heim úr svartholi óminnis“, sem kom út árið 2019, um reynslu sína af minnisleysi eftir erfiða læknismeðferð.
Um svipað leyti og bókin kom út rakst Gunnhildur fyrir tilviljun á bókina Mad Matters sem hafði komið út árið 2013. „Ég varð strax mjög forvitin um Mad studies en enginn sem ég þekkti hafði heyrt um þessi fræði,“ segir hún og heldur áfram: „Áður en mér fór að líða illa andlega og upplifði mína hlið af geðheilbrigðiskerfinu var ég í doktorsnámi á Menntavísindasviði. Þegar ég fór að leita leiða til að komast aftur í virkni og á vinnumarkaðinn var mér eðlilegt að sjá hvað væri í boði í tengslum við fræðastarf og þannig urðu fötlunarfræði og Brjáluð fræði fyrir valinu.“
Fræðasvið sem á rætur í mannréttindabaráttu áttunda áratugarins
Hugtakið Mad studies er að sögn Gunnhildar eignað Richard Ingram sem notaði það fyrst árið 2008. „Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér hafði námskeiðið „Mad peoples history“ þá verið kennt sem stakt námskeið við háskóla í Kanada en í dag er hægt að læra Mad studies sem sérstakt fag á nokkrum stöðum. Það tilheyrir þó ólíkum sviðum í hverjum háskóla fyrir sig en er oft tengt gagnrýnum fötlunarfræðum og ég er til dæmis að skoða Mad studies í tengslum við fötlunarfræði,“ segir Gunnhildur. Hún bætir við að Brjáluð fræði eigi fyrirmyndir í kvennafræði, hinsegin fræðum og fleiri fræðasviðum sem tengjast mannréttindum og baráttumálum minnihlutahópa.
Fræðagreinin á sér jafnframt rætur í mannréttindabaráttu áttunda áratugar síðustu aldar þegar hópar fólks beggja vegna Atlantshafsins risu upp og börðust fyrir virðingu og réttlæti. „Þessi réttindabarátta hefur verið kölluð “Mad movement” og fólk sótti sér fyrirmyndir til dæmis í kvenréttindabaráttuna og baráttu hinsegin fólks. „Orðið „Mad” í þessu samhengi er notað í umbreyttri merkingu, frá því að vera orð sem tengist skömm yfir í að tengjast stolti. Þannig hefur hugmyndin um „Mad Pride” þróast eins og „Gay Pride”. Þýðing þessara orða „Mad” og „Madness” yfir á íslensku er enn í mótun. Í dag notum við orðið „Brjálaður“ yfir „Mad” og vísum þar bæði í það að vera „Brjálaður” og brjálaður af reiði. Það er mikilvægt að orðið “Madness” og þá “Brjálæði” er skrifað með stórum staf þegar það er notað á þennan máta, stóri stafurinn gefur til kynna að það sé meðvitað verið að nota orðið í umbreyttri merkingu,“ segir Gunnhildur.
„Ég kom eiginlega inn í fötlunarfræðin með það fyrir augum að rannsaka geðheilbrigðismálin og þá helst út frá Brjáluðum fræðum. Ég kallaði þetta fyrst Klikkfræði en svo hefur hitt heitið verið að festast og mér finnst það fallegt. Rannsóknin mín ber vinnuheitið „Upplifun fólks af því að skrifa bók um reynslu sína af andlegum áskorunum“ og fjallar um raddir fólks sem hafa nú þegar fengið að heyrast í bókarformi, ef svo má komast að orði,“ segir Gunnhildur Una Jónsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægt að vinna gegn sanisma
Gunnhildur undirstrikar þó að fræðasviðið sé í enn í mótun. „Það er engin ein skilgreining til á því og fólk leggur ólíkan skilning í hvaða hópar „tilheyra“ en þó er lögð áhersla á að öll sem finnast þau hafa eitthvað til málanna að leggja séu velkomin innan sviðsins.“
Viðfangsefni Brjálaðra fræða eru enn fjölbreyttari en fram kemur hér að ofan, þar á meðal breytilegar áherslur í því hvað telst árangursrík meðferð innan geðlæknisfræðinnar og ýmsir heimspekilegir og sagnfræðilegir þættir í bland við reynslu fólks. „Eitt af viðfangsefnum fræðasviðsins tengist hugtakinu sanismi sem er skylt orðunum sexismi, rasismi og ableismi en beinist að geðheilsu fólks. Sanismi er kerfisbundin mismunun, öráreiti og fordómar. Sanismi beinist að fólki sem hefur þegið þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu, fengið greiningar eða er á einhvern hátt „of eitthvað” á tilfinningasviðinu. Sanismi er misrétti sem er mikilvægt að þekkja og vinna gegn,“ bendir Gunnhildur á.
Hún undirstrikar að þó manneskja vinni innan þessa fræðasviðs þýði það ekki endilega að hún skilgreini sig Brjálaða. Mikilvægt sé að nota þessi orð varlega og ávallt með virðingu fyrir fólki og reynslu þess.
Rannsakar raddir fólks í bókmenntum um andlegar áskoranir
Aðspurð um sérstöðu Brjálaðra fræða nefnir Gunnhildur reynslu fólks af geðlæknisfræðinni. „Hið hefðbundna sjónarhorn á þessa reynslu er bundið við læknisfræðina en Brjáluð fræði gjörbreyta því með því að leggja áherslu á raddir og reynslu fólksins sjálfs.“
Gunnhildur vinnur nú að meistararannsókn í fötlunarfræðum þar sem Brjáluð fræði eru grundvöllurinn. „Ég kom eiginlega inn í fötlunarfræðin með það fyrir augum að rannsaka geðheilbrigðismálin og þá helst út frá Brjáluðum fræðum. Ég kallaði þetta fyrst Klikkfræði en svo hefur hitt heitið verið að festast og mér finnst það fallegt. Rannsóknin mín ber vinnuheitið „Upplifun fólks af því að skrifa bók um reynslu sína af andlegum áskorunum“ og fjallar um raddir fólks sem hafa nú þegar fengið að heyrast í bókarformi, ef svo má komast að orði.“
Höfundar sem hafa gefið út bækur um slíkar áskoranir er meðal þeirra sem taka þátt í málþinginu „Bækur og Brjáluð fræði“ í Norræna húsinu 1. mars en það er haldið í samstarfi við Uppskeru, Hugarafl, Norræna húsið og námsbraut í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. „Markmið málþingsins er tvíþætt. Annars vegar að kynna Brjáluð fræði til sögunnar hér á landi og hins vegar að leyfa röddum fólks að heyrast í gegnum umfjöllun um bækur þeirra. Þetta eru bækur um erfiða reynslu fólks, þær hafa vakið mikla og verðskuldaða athygli og ég hef verið sérstaklega forvitin um ferlið í kringum það að skrifa svona bók,“ segir Gunnhildur.
Auk Gunnhildar taka þau Nína Eck, félagsráðgjafi, teymisstjóri jafningja á LSH og jafningjaþjálfari, Fanney Björk Ingólfsdóttir, meistaranemi í ritlist við HÍ, og Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur til máls á málþinginu eins og lesa má um á Facebook-síðu viðburðarins.
Gunnhildur leggur áherslu á að Brjáluð fræði tengist alltaf einhvers konar aktívisma. „Það má kalla það smá aktivisma að standa fyrir málþingi og blanda þar saman fræðipælingum og eiginlegum röddum um reynslu fólks,“ segir Gunnhildur að endingu.
„Brjáluð fræði er íslenskun á ensku orðunum Mad Studies. Þetta er fræðasvið í mótun sem fjallar um sögu, menningu, pólitík, lifaða reynslu og baráttumál fólks sem skilgreinir sig meðal annars sem „Mad”, „Psychiatric survivors”, notendur geðheilbrigðiskerfisins, fólk með reynslu af andlegum áskorunum og fleira,“ segir Gunnhildur Una Jónsdóttir, MA-nemi í fötlunarfræðum við HÍ og MFA í myndlist frá Carnegie Mellon háskóla. MYND/Kristinn Ingvarsson